Góð aðsókn í matjurtagarða
Fátt er skemmtilegra en að rækta og borða sitt eigið grænmeti að ég tala nú ekki um lífrænt, en því miður hafa ekki allir aðstöðu til þess að koma upp matjurtarækt við heimili sitt. Í sumar er mögulegt að fá leigðan reit á vegum Reykjanesbæjar í Grófinni þar sem kartöflugarðar stóðu fyrir einhverjum árum síðan, einnig eru grænmetisgarðar upp á Ásbrú á vegum Keilis. Síðasta sumar var ráðist í þetta tilraunaverkefni til að sjá hvernig til tækist á þessu svæði og voru bæði viðbrögð frá almenningi og uppskera góð.
Þetta sumar hafa 65 pantað sér reit í gegnum Þjónustumiðstöð Reykjanesbæjar, margir drifu sig snemma af stað og eru þeir ánægðir með árangur sinn það sem af er sumri. Mikil og góð spretta er í þessum görðum og má þar taka sem dæmi spergilkál , 5cm breiðar rófur og hnúðkál á stærð við golfbolta en þetta er auðvitað bara rétt að byrja og ekki of seint að kíkja í næstu gróðrarstöð og ná sér í forræktað grænmeti til að setja niður, en uppskeran ræðst að sjálfsögðu af því hvernig haustið fer með okkur.
Veðrið hefur heldur betur sett strik í reikninginn hjá öllu garðaáhuga fólki og óhætt að segja að sumarið gangi seint í garð þetta árið, en fyrir vikið virðast færri plágur herja á garðana. Mikilvægt er að sinna görðunum sínum vel og vökva ríkulega þegar þurrt er í veðri. Einnig er að finna moltu þarna á svæðinu sem stendur leigjendum garðana til boða, þetta er mjög góð molta sem framleidd var af Þjónustudeild Reykjanesbæjar í samstarfi við Gróður fyrir fólk, Nesbú og Gámaþjónustuna í Hafnarfirði. Hvet ég ræktendur til að nýta sér þetta og blanda saman við garðinn sinn til að bæta jarðveg og uppskeru.
Í Dalshverfi eru einnig tilraunagarðar og á enn eftir að koma í ljós hvernig mun ganga á því svæði, en það lýtur vel út enn sem komið er og eru menn fullir bjartsýni á að vel til takist. Í dag eru 10 íbúar Reykjanesbæjar sem hafa sótt um reiti á því svæði til ræktunar og enn er pláss fyrir fleiri.
Guðrún Þorsteinsdóttir
Starfsþróunarstjóri