Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Gleðilegt sumar og farsæl komandi fjögur ár
Föstudagur 26. apríl 2013 kl. 16:44

Gleðilegt sumar og farsæl komandi fjögur ár

Kæru vinir, ættingjar og félagar úr baráttunni.

Ég hef tekið ákvörðun um að bjóða mig fram til Alþingis fyrir Flokk heimilanna með það að leiðarljósi að koma málefnum heimila landsins á oddinn og tryggja eins og ég get að það verði ekki gefinn neinn afsláttur af þeim málefnum.

Vegna þessarar ákvörðunar minnar og til að vernda Hagsmunasamtök heimilanna fyrir pólitískri slagsíðu og vernda hlutleysi HH stíg ég til hliðar sem varaformaður Hagsmunasamtaka heimilanna.

Ég verð að segja, sem einn af stjórnarmönnum HH rúm síðustu þrjú ár og varaformaður á tveimur tímabilum, að ég er stoltur og ánægður með hvað margir flokkar hafa tekið upp það góða sem HH hafa verið að berjast fyrir frá upphafi, sem nú er orðið aðalmálið fyrir þessar kosningar, þ.e. skuldamál heimilanna og verðtrygging neytendalána.

Ég kveð stjórn HH með trega og þakka þeim innilega fyrir samstarfið hingað til og hlakka á sama tíma til að takast á við sömu verkefnin á nýjum og spennandi vettvangi fyrir okkar frábæra land og okkar yndislegu þjóð.

Næg eru verkefnin, því miður, en meðal fyrstu verka sem við í Flokki heimilanna ætlum að gera er að stöðva nauðungarsölur, gjaldþrot og sölu eigna á veðhafafundum á meðan beðið er dómsniðurstöðu í þeim málum sem nú eru fyrir dómstólum um lögmæti verðtryggingarinnar og meðan beðið er eftir endanlegum dómum um gengislánin.

Einnig erum við hjá Flokki heimilanna með það sem fyrsta verk að setja alla dóma er varða lögmæti, bæði gengis og verðtryggðra lána, í flýtimeðferð og að aðeins verði greitt af upphaflegum höfuðstól lánanna á meðan beðið er dómsniðurstöðunnar.

Fyrir þá sem ekki þekkja mig og mina fjölskyldu þá er ég giftur Önnu Thelmu Magnúsdóttur sem er fædd og uppalin í Njarðvíkum og eigum við 6 börn á aldrinum 4 til 25 ára og eitt afabarn þannig að við erum rík. Við búum í Hafnarfirði og höfum gert frá 2003. Ég sjálfur er fæddur og uppalinn austur á Reyðarfirði og á stóra ætt þar fyrir austan, upp á Hérað og allt upp á Möðrudal á Fjöllum.

Ég vil ekki að börnunum mínum verði boðið upp á verðtryggð lán með öllu því sem verðtryggingu neytendalána fylgir og setur Íslensk heimili og fjölskyldur alltaf aftur og aftur í óásættanlega stöðu.

Ég bíð mig fram í öldurót stjórnmálanna með vonina að vopni gegn verðtryggingu neytendalána og leiðréttingu stökkbreyttra skulda heimilanna og öllu því öðru sem nauðsynlegt er að gera til að heimili og fjölskyldur landsins og Íslensk þjóð endurheimti sjálfstæði sitt og þor.

Ég vil í þessu sambandi gera hluta úr texta eftir tengdaföður minn, Magnús Þór Sigmundsson Njarðvíking, Kotara og núverandi Hvergerðing að mínum, en hann segir í viðlaginu við Göngulagið sem hann, Jónas Sig og Fjallabræður flytja:  Hvar er skjaldborgin mín. Hvar er hús mitt og líf.

Kveðja,
Vilhjálmur Bjarnason ekki fjárfestir.
1. sæti á lista Flokks heimilanna í Suðurkjördæmi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024