Gleði og fjör á árshátíð grunnskóla Reykjanesbæjar
Mikil gleði og ánægja var á hinni árlegu árshátíð grunnskóla Reykjanesbæjar sem haldin var miðvikudaginn 23. mars síðastliðinn. Fjölmenni og rosaleg stemning var á árshátíðinni en hátt í 400 ungmenni mættu og skemmtu sér konunglega þetta kvöldið.
Skemmtunin fór fram í Stapanum en í ár voru grunnskólarnir ekki með skemmtiatriði eins og tíðkast hefur undanfarin ár.
R&b söngvarinn Friðrik Dór steig á svið klukkan 20:30 en hann er einn sá allra vinsælasti í tónlistarbransanum þessa dagana. Friðrik Dór skemmti mannskapnum til klukkan 21:00 en þá tók hljómsveitin Ingó og Veðurguðirnir við en þeir eru ekki síðri þar sem þeir hafa gefið út ótal mörg lög sem slegið hafa svo sannarlega í gegn. Ingó og veðurguðirnir sáu um að halda uppi stemningunni til klukkan 23:00 en þá lauk dagskránni. Fyrir nokkrum árum var gríðarlega vinsælt að leigja eðalvagna á ballið en sem betur fer er sú þróun á niðurleið. Árið 2007 voru rúmlega 10 eðalvagnar leigðir fyrir ballið en í ár var það einungis einn. Gæslan á árshátíðinni var mjög góð og áður en skemmtunin hófst var leitað á öllum gestum við innganginn.
Mikil umræða hefur skapast í kringum nýjustu reglur Samfés um klæðaburð ungmenna sem teknar voru í gildi á þessu ári. Stjórn Samfés samþykkti þær reglur en gestir á Samfésballinu í ár máttu ekki klæðast stuttum pilsum, flegnum bolum eða fráhnepptum skyrtum. Samfés eru samtök félagsmiðstöðva á Íslandi en samtökin halda stórt ball á hverju ári þar sem unglingar frá öllum félagsmiðstöðvum landsins koma saman og skemmta sér.
Félagsmiðstöð unglinga hér í Reykjanesbæ, Fjörheimar, hafa ákveðið að taka upp sömu reglur en ekki var hægt að setja út á klæðaburð ungmennana á árshátíðinni þar sem hann var til fyrirmyndar. Árshátíðin var alfarið á ábyrgð grunnskólanna en þó voru starfsmenn frá félagsmiðstöðinni til aðstoðar á ballinu. Árshátíðin heppnaðist með eindæmum vel, stemningin var gríðarleg og gleðin mikil og síðast en ekki síst voru ungmennin sér og öðrum til sóma.
Þátttaka í tómstundastarfi hefur mikið uppeldislegt og forvarnarlegt gildi fyrir börn og unglinga. Starfið er hornsteinn uppbyggilegrar þátttöku í samfélaginu og margir nauðsynlegir félagsþættir lærast í gegnum tómstundir eins og til dæmis samskipti og félagsfærni, einstaklingar læra að taka tillit til annarra, þeir mynda traust og vináttutengsl sem jafnvel endast alla ævi. Talið er að tómstundir auki lífsgæði þeirra sem þær stunda og stuðla þær að mörgum mikilvægum þroskaþáttum. Unglingar læra samskipti sín á milli, þeir öðlast betri og sterkari sjálfsmynd og fá aukið sjálfstraust. Rannsóknir hafa sýnt fram á að skipulagt félagsstarf skapar aukna festu í lífi unglinga sem og umgjörð utan um jafningasamskiptin og jafningamenninguna. Einn meginhvatinn að öllu tómstundastarfi er skemmtanagildi þess. Það er mikilvægur hluti í lífinu að eiga góðar stundir með jafningjum sínum og mun árshátíðin vissulega gleymast seint hjá þeim ungmennum sem mættu á hana.
Full ástæða er til þess að hrósa grunnskólum Reykjanesbæjar til hamingju með stórglæsilega árshátíð.
Ingveldur Eyjólfsdóttir
Nemi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands