Gjaldskrá HS Orku hf fyrir raforku „frá einkavæðingu“
Í Víkurfréttum 23. júlí var að nokkuð undarlega framreidd frétt. Fréttin er byggð að grunni til á verðkönnun Neytendasamtakanna með síðan all sérstæðri matreiðslu blaðsins. Í fyrirsögninni segir „HS Orka hefur hækkað gjaldskrá um 26% frá einkavæðingu“ (undirstrikun er mín). Hvaða einkavæðing átti sér stað í mars 2006, sem er upphafspunktur samanburðar Neytendasamtakanna, er erfitt að átta sig á og greinilegt að einhver pólitísk glámskyggni ber fréttamann Víkurfrétta ofurliði. Aðkoma einkaaðila (32%) að fyrirtækinu átti sér stað í júlí 2007, eftir að gjaldskrá hafði verið hækkuð í samræmi við hækkun Landsvirkjunar þann 1. júli, og síðan hefur gjaldskrá tvívegis verið breytt og þá í bæði skiptin í fullu samræmi við breytingar á gjaldskrá Landsvirkjunar. Það er rétt að benda á að Landsvirkjun er 100% í eigu ríkissjóðs svo væntanlega er ekki unnt að rekja hækkanir þar til einkavæðingar.
Varðandi samanburð Neytendasamtakanna þá sýna tölurnar hér að neðan hve val á upphafspunkti er mikilvægur og ræður í raun miklu um niðurstöðuna. Í okkar töflu miðum við við 1. janúar 2005 þegar nýtt lagaumhverfi tók gildi og gjaldskrá einstakra þátta var aðskilin. Þá kemur í ljós að hækkunin á þessum fjórum og hálfu ári nemur 18,3%. Verðið var síðan lækkað og vegna þess kemur út að það hafi hækkað meira frá mars 2006 eða um 25,5%.
Með nýjum raforkulögum sem tóku gildi í ársbyrjun 2005 var gjaldskrá fyrir raforku skipt upp í gjaldskrá fyrir sölu, dreifingu og flutning. Fram að þeim tíma hafði Hitaveita Suðurnesja verið með lægstu raforkugjaldskránna en með þeirri verðjöfnun sem m.a. fólst í flutningshlutanum og leigu-/eignarnámi flutningsmannvirkja HS þá hvarf sá munur í raun, enda var það að mati HS tilgangur laganna að hluta. Í umræðunni um þau lög bentum við m.a. á að afleiðingar þeirra gætu verið allt að 20% hækkun raforkukostnaðar á Suðurnesjum en þá var sagt að það væri eðlileg þátttaka í verðjöfnun í landinu. Fyrsta almenna gjaldskráin fyrir söluhlutann tók gildi 1. janúar 2005 og var verðið þá 3,45 kr/kWst án vsk og sýnir eftirfarandi yfirlit breytingar hennar síðan og jafnframt breytingar á vísitölum á sama tímabili:
Þær breytingar sem gerðar hafa verið á gjaldskrá söluhlutans síðustu árin hafa allar verið í samræmi við hækkanir á heildsölugjaldskrá Landsvirkjunar, sem er markaðsráðandi aðili í raforkuframleiðslu á Íslandi. Þannig hækkaði gjaldskrá Landsvirkjunar um 7,5% 1. júlí 2009, um 6% 1. júlí 2008, 5,29% 1. júlí 2007, 2,8% 1. ágúst 2006 og 1,33% 1. ágúst 2005. Þá hefur Landsvirkjun einnig á tímabilinu gert breytingar á uppbyggingu gjaldskrár sinnar, m.a. varðandi innmötunargjöld, sem leitt hafa til kostnaðarauka þó ekki hafi verið um beina hækkun verðs á kWst. Hvernig önnur sölufyrirtæki, sem öll eru í opinberri eigu, komast hjá að fylgja gjaldskrá Landsvirkjunar, þegar smásöluverðið er nánast hið sama og heildsöluverðið, byggir örugglega ekki á viðskiptalegum forsendum.
Að lokum læt ég hér fljóta með fyrirspurn sem fyrirtækinu barst frá Neytendasamtökunum 30. júní 2009 og svar fyrirtækisins við fyrirspurninni.
Fyrirspurn Neytendasamtakanna:
„Neytendasamtökunum hefur borist ábending um að verð á raforku frá HS Orku hækki til almennra notenda um 7,5% 1. júlí nk. Neytendasamtökin óska eftir skýringum á þessari hækkun. Svars er óskað sem allra fyrst.“
Skýringar
• Landsvirkjun tilkynnti með bréfi dagsettu 29. maí um 7,5% hækkun heildsölugjaldskrár frá 1. júlí 2009 að telja. Þar kom fram að vísitala neysluverðs hefði hækkað um 11,9% frá apríl 2008 þegar gjaldskrá hækkaði þar síðast. Sama á við um gjaldskrá HS Orku hf sem hefur hækkað til samræmis við gjaldskrá Landsvirkjunar.
• Frá 1. júlí 2007 hefur neysluvísitala hækkað um tæp 25% og byggingarvísitala um tæp 29%. Á sama tímabili hefur gjaldskrá HS Orku hf hækkað um 14%
• Raforkukaup af Landsvirkjun og með samningum sem tengdir eru heildsölugjaldskrá Landsvirkjunar nema yfir 50% af orkuöflunarkostnaði HS Orku hf.
• Önnur orkuöflun er frá eigin orkuverum og fylgir rekstrarkostnaður þeirra að sjálfsögðu almennu verðlagi og í ýmsu tilliti rúmlega það vegna áhrifa gengisbreytinga.
• Vegna mikilla kostnaðarhækkana og gengisfalls hefur verið mikill taprekstur síðustu misserin þannig að HS Orka hf hefur m.a. ekki getað staðið við skilmála lánasamninga varðandi eiginfjárhlutfall o.fl. og á í viðræðum við viðskiptabanka fyrirtækisins þess vegna. Svigrúm til niðurgreiðslu verðlags á tímum mikilla kostnaðarhækkana er því ekki til staðar og myndi vera alvarlegt mál gagnvart lánastofnunum.
• Loks má benda á, að HS Orka hf, eitt fyrirtækja á raforkusölumarkaði, starfar ekki í skjóli ábyrgðar ríkissjóðs eða sveitarfélaga og þarf því að geta staðið við sínar skuldbindingar á eigin fótum og með eigin tekjum.
Júlíus Jónsson,
Forstjóri HS Orku hf