Getur þú gefið starf þitt?
Alþjóðadagur sjálfboðaliða er 5. desember. Dagurinn er í heiðri hafður um heim allan, en milljónir sjálfboðaliða láta gott af sér leiða dag hvern í flestum ríkjum heimsins. Á Íslandi gefa tugþúsundir starf sitt á degi hverjum.
Margbreytilegur hópur manna skipar hóp sjálfboðaliða hér á landi; á öllum stigum samfélagsins má finna sjálfboðaliðastarf af einhverju tagi. Nærtækt er að nefna íþrótta- og ungmennafélagshreyfinguna, þar sem þúsundir gefa störf sín dag hvern, í þágu félaga sinna. Einnig má finna fjöldann allan af sjálfboðaliðum í Rauða krossinum, skátunum, björgunarsveitum, kvenfélögum, kórum, leikfélögum og góðgerðasamtökum, svo lítið eitt sé nefnt.
Flest félög af öllu tagi treysta að miklu leyti á starf sjálfboðaliða og væri starf þeirra í lamasessi, ef ekki kæmi til óeigingjarnt starf þeirra sem gefa vinnu sína. Það þarf varla að taka fram hversu miklir fjármunir sparast á ári hverju vegna sjálfboðastarfa – væntanlega hleypur það á milljörðum.
Það er vaxandi vandamál víða, að erfiðara sé að fá fólk til sjálfboðastarfa nú, heldur en áður fyrr. Vinnuálag fólks í launuðum störfum hefur aukist mikið, þannig að margir sjá engan hag í því að bæta við sig þeirri vinnu, sem felst í sjálfboðastarfi, til viðbótar daglegu amstri. Mörg félagasamtök hafa brugðið til þess ráðs að bjóða nú laun eða hlunnindi í skiptum fyrir störf sem áður voru unnin af sjálfboðaliðum. Þetta er að mínu mati slæm þróun.
Í ljósi þessarar þróunar þarf að hlúa sérstaklega vel að þeim sem bjóða sig fram til að vinna sjálfboðastörf. Það er ljóst að það er mjög gefandi fyrir sjálfboðaliða að fá að taka þátt í uppbyggjandi starfi félagasamtaka og sýnt hefur verið fram á aukinn félagsþroska þeirra sem starfa í félögum.
Getur þú gefið starf þitt í þágu góðs málefnis í tengslum við Alþjóðlegan dag sjálfboðaliða 5. desember? Þín er þarfnast víðar en þú heldur!
Björn B. Jónsson, 5. desember 2006.
Höfundur býður sig fram í 2. – 3. sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi 20. janúar n.k.