Gervigrasvöllur í Suðurnesjabæ 2022
Það er skynsamt fólk í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar sem gerir sér grein fyrir mikilvægi þess að byggja upp íþróttaaðstöðu í sveitarfélaginu. Í nýsamþykktri fjárhagsáætlun sveitarfélagsins er gert ráð fyrir fjármagni til koma upp gervigrasvelli sem hægt er nýta allt árið. Það sem er hins vegar eftir er að taka ákvörðun um hvar sá völlur á að vera og í framhaldi af því að ganga frá praktískum atriðum eins og hönnun.
Það hefur ekki náðst sátt innan sveitarfélagsins um hvar gervigrasvöllur eigi að rísa. Starfshópur sem skoðaði málið skilaði ekki afgerandi tillögu og knattspyrnufélögin tvö, Reynir og Víðir, hafa ekki náð saman í málinu. Eðlilega hefur Víðisfólk viljað sjá völlinn rísa í Garðinum, Reynisfólk vill völlinn í Sandgerði og svo hefur það sjónarmið heyrst að til framtíðar væri skynsamlegast að hafa gervigrasvöll á svæðinu sem er á milli byggðarkjarnanna tveggja. Það eru rök með og á móti öllum þessum kostum og sitt sýnist hverju. Öll eru þó sammála um eitt, það er ekki hægt að bíða og það verður að taka ákvörðun svo að börn og unglingar í Reyni/Víði geti æft og keppt á sínum eiginn velli veturinn 2022–2023.
Sem tilraun til að höggva á þennan hnút sendi aðalstjórn Reynis erindi til Suðurnesjabæjar í byrjun desember þar sem lagt er til að upphitað gervigras verði lagt yfir keppnisvöllinn í Sandgerði og flóðlýsing sett upp. Aðgangur beggja félaga verði að sjálfsögðu tryggður jafn að vellinum og farið verði af stað með frístundastrætó til að börn og unglingar komist örugg á milli byggðakjarna. Við Reynisfólk sjáum nokkra góða kosti við þessa leið:
Gervigras leysir núverandi gras af hólmi og því myndi þessi lausn því ekki fjölga fermetrum af knattspyrnusvæði sem þarf að reka. Þetta ætti að þýða að rekstrarkostnaður við knattspyrnumannvirki í Suðurnesjabæ ætti ekki að vaxa til lengri tíma litið.
Með þessari framkvæmd gæti Suðurnesjabær státað sig að tveimur frábærum knattspyrnuvöllum með glæsilegri umgjörð. Í Garðinum væri landins besti grasvöllur og í Sandgerði gervigrasvöllur af bestu gerð.
Mannvirki sem þegar eru til staðar nýtast verði þessi leið farin svo sem áhorfendastúka, girðingar og fleira.
Það ætti að vera hagkvæmt að leggja gervigras á svæði sem er þegar knattspyrnuvöllur bæði hvað varðar tíma og kostnað.
Við hjá Knattspyrnufélaginu Reyni hlökkum til að eiga viðræður við bæjaryfirvöld og vini okkar hjá Víði um þessa tillögu okkar. Draga þarf fram kosti og galla þeirra valmöguleika sem eru uppi á borðum og kostnaðargreina þá jafnframt. Þeirri vinnu þarf að flýta því ákvörðun þarf að taka fyrr en seinna. Ekki er síður mikilvægt að taka samtalið um það hvernig íþróttastarf á að byggjast upp í sveitarfélaginu á 21. öldinni, hvaða mannvirki þarf til að styðja við þá uppbyggingu og hvernig hægt er að standa að þeim framkvæmdum meðfram annarri nauðsynlegri samfélagslegri fjárfestingu. Hér skiptir stærð og geta Suðurnejsabæjar öllu máli því ætla má að árleg geta sveitarfélagsins til fjárfestingar sé álíka mikil og það sem einn gervigrasvöllur kostar.
Ólafur Þór Ólafsson,
formaður aðalstjórnar -Knattspyrnufélagsins Reynis.