Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Föstudagur 10. janúar 2003 kl. 13:04

Gengið vel að sinna sjúklingum þrátt fyrir erfiðleika

Nú eru rúmir 2 mánuðir frá því að heilsugæslulæknar sögðu upp störfum sínum við stofnunina. Heilbrigðisstofnunin átti ekki í neinun deilum við viðkomandi lækna og sá mikið á eftir þeim. Deilurnar voru milli viðkomandi lækna og ráðuneytisins og því miður tókst ekki að að finna lausn á því máli. HSS eins og aðrar opinberar stofnar vinna eftir ákveðnum lögum og reglum og kröfur læknanna rúmuðust ekki innan þess ramma. Á þessum tíma hafa verið ráðnir 2 læknar á heilsugæslustöðina, einnig hafa ýmsir ungir læknar komið til vinnu í lengri eða skemmri tíma með mismunandi reynslu. Ég fullyrði að þeir hafi allir staðið sig mjög vel. Um næstu mánaðarmót er búið að ráða heilsugæslulækni til Grindavíkur í 4 mánuði til að byrja með. Einnig er verið að ganga frá samningi við sérfræðing í innkirtlasjúkdómum sem mun m.a. taka við eftirliti sykursýkissjúklinga tímabundið í hlutastarfi frá og með 20 janúar n.k.. Þá er verið að ráða sérfræðing í krabbameinslækningum í hlutastarf um næstu mánaðrmót, þ.e. 1. febrúar, sem mun væntanlega auka vinnuhlutfall sitt með vorinu.

Ég hef talað við fjölda lækna á undanförnum dögum og vikum, m.a. unglækna, sérfræðinga á ýmsum sviðum ásamt heilsugæslulæknum. Ég hef fengið margar góðar hugmyndir hjá þeim og vonast eftir að einhverjir þeirra muni koma í vinnu til okkar í t.d. ráðgjafastörf og ýmis hlutastörf til að byrja með. Einnig eru að koma til okkar hjúkrunarfræðingar bæði með mikla reynslu og þekkingu í farteskinu sem og nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar sem við tökum fagnandi.

Það er nú þannig að þegar stór hópur fólks með sérfræðiþekkingu hverfur í einu vetvangi af vinnustað, getur enginn gert sér vonir um að það skarð verði fyllt samstundis. Sérfræðingar á öllum sviðum eru eftirsóttir, þeir eru háðir ráðningarsamningum á sínum vinnustað og hljóta alltaf að vega og meta kosti og galla þess að skipta um starf.

Ég vil taka það sérstaklega fram að þrátt fyrir þessa miklu erfiðleika, þá hefur gengið betur að sinna öllum þeim fjölbreyttu málum sem upp hafa komið og snúa að heilbrigðisþjónustu hér á HSS. Það hefur tekist vegna þess að hér vinnur stór, samstilltur hópur sem hefur með miklu æðruleysi einsett sér að leysa þessi mál sem allra best. Flestir sem hingað hafa komið, hafa fengið úrausn sinna mála samdægurs, þó vissulega hafi þetta valdið sumum einstaklingum miklum óþægindum. Ég vil minna á að vþí miður gerist það líka á öðrum heilbrigðisstofnunum.

Að lokum vil ég taka það fram að ég, ásamt öllu starfsfólki hér, vinnum hörðum höndum við að leysa sem allra best þau mál sem upp koma hér. Jafnframt er verið að vinna að framtíðarstefnumótun stofnunarinnar, og hvert framtíðarhlutverk og markmið hennar skuli vera. Ég hef mikla trú á því að á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eigi sér bjarta framtíð og að hún muni geta fullnægt heilbrigðisþörfum svæðisins og tekið þátt í þjónustu á landsvísu svo við getum öll verið stollt af.

Bestu kveðjur,
Sigríður Snæbjörnsdóttir

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024