Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 21. janúar 2003 kl. 11:00

Gegn fátækt – Forgangsmál

Kæri Kall á kassa.

Í síðasta tölublaði Víkurfrétta skorar þú á okkur Suðurnesjamenn í framboði að svara því hvernig við hyggjumst ráðast gegn fátækt. Ég þakka þér fyrir hvatninguna því þarna hreyfir þú því máli sem hlýtur að vera efst í forgangsröð allra stjórnmála. Fátækt er böl – fylgifiskar hennar eru andstyggilegir. Ekki efa ég eitt augnablik að enginn pólitískur ágreiningur sé um það markmið að vinna gegn fátækt. Þetta er í raun þverpólitískt mál og mikilvægt að almenn samstaða sé í þjóðfélaginu um þetta markmið. Veraldleg fátækt leiðir til andlegrar þjáningar. Atvinnumál eru þess vegna grunnurinn að sókn gegn fátækt. Stefna Framsóknarflokksins hefur frá öndverðu verið sú að heilbrigt atvinnulíf sé undirstaða velferðarkerfisins. Þess vegna eru atvinnumál í öndvegi hjá okkur. Kárahnjúkavirkjun og Fjarðarál eru gott dæmi þar um. Öll elskum við umhverfi okkar. En til að tryggja landsmönnum verðmæti fyrir velferðarkerfið og til að skapa störf fyrir fólkið í landinu þarf stundum að færa fórnir. Þetta skilja margir –ekki síst Austfirðingar í dag enda fagna þeir ákvörðuninni.

Margt á döfinni

Í dag sækir vofa atvinnuleysis að okkur á Suðurnesjum. Þess vegna hlýtur að vera forgangsmál að ráðast gegn því ástandi. Nokkur jákvæð teikn eru á lofti: Tvöföldun Reykjanesbrautar, stálpípuverksmiðjan, loðnuvertíð, stækkun FS, bygging 18 félagslegra íbúða, tvö ný flugfélög (Iceland Express skapar 50-60 störf), bygging nýrrar sorpeyðingarstöðvar, Ósabotnavegur svo dæmi séu tekin. Öll þessi verkefni fela í sér störf fyrir vinnufúsar hendur.

Til lengri tíma litið mun atvinnuleysi á Suðurnesjum hverfa ef rétt er á haldið og menn sýna kjark og stefnufestu til að nýta tækifærin.

1. Í viðræðum við Varnarliðið er rétt að bjóða Íslendingum að taka við störfum í vaxandi mæli. Í því felst sparnaður fyrir Varnarliðið en opnar fyrir fleiri störf Íslendinga. Sem dæmi má nefna að íslenskir flugvirkjar gætu annast rekstur stóra flugskýlisins, annast viðhald flugvéla og skapað sér ný verkefni á alþjóðavettangi.

2. Ég er sannfærður um að í náinni framtíð muni innanlandsflug verða flutt hingað suðureftir. Ástæðan er einföld: Við getum ekki rekið tvö alvöru flugvelli þar sem 50 km eru á milli. Engum dylst hversu mörg störf fylgja því.

3. Umhverfi Flugstöðvarinnar hefur nú verið deiliskipulagt. Þar með er lagður grunnur að því að nýta möguleika alþjóðaflugvallar. Flugumferð með farþega og ekki síður vörur mun stóraukast. Tollafgreiðsla á frakt hefur verið flutt í FLE og út frá því eru ýmis fyrirtæki að hasla sér völl á nýju sviði. Hundruð starfa munu spretta upp við FLE.

4. Hin vistvæna orka okkar og tæknileg kunnátta starfsmanna Hitaveitu Suðurnesja leggur grunn að stórfelldur tækifærum við nýtingu orkunnar. Alls staðar í veröldinni þar sem orkunotkun er mikil er velsæld jafnframt há. Mest fátækt í heiminum er þar sem orkunotkun er takmörkuð. Nýsköpun orku og hugvits mun færa Suðurnesjum og landsmönnum öllum mikil verðmæti og fjölmörg störf. Ég nefni Netbúið, stóriðju ýmis konar og ekki síst lítil og meðalstór fyrirtæki er byggja á notkun orku.

5. Á sviði sjávarútvegs hygg ég að nálægð okkar við miðin ásamt starfi fiskmarkaða eigi að geta opnað fyrir úrvinnslu afla og styrkir þar möguleikana nálægðin við flugvöllinn. Í ljósi samþjöppunar í greininni vaknar auðvitað sú spurning hvort ekki sé orðið enn meira knýjandi að skylda alla til að setja allan afla á markað. Þannig eiga allir jafna möguleika að hráefninu – ekki síst þeir sem geta verkað fisk og selt á dýra markaði erlendis. Þróunin í fiskeldi er komin á fleygiferð. Spáð er að á næstu árum verði framleiðsla eldisfiskjar, s.s. þorsks, ýsu, sandhverfu o.fl. þúsundir tonna á ári. Vegna hins heita jarðsjávar hér munu Suðurnesin geta tekið drjúgan þátt í þeirri þróun.

Fleira mætti nefna á sviði atvinnu og verðmætasköpunar. Ég hef reynt að draga hér fram þá sýn er blasir við í atvinnumálum og tel Suðurnesin geta stefnt þangað ef rétt er á haldið. Til þess þarf sterka samstöðu því verðmætasköpunin leggur grunn að ýtrýmingu fátæktar.

Andleg fátækt

Að lokum langar mig einnig til að velta upp annars konar fátækt en þeirri sem sprettur af atvinnuleysi. Þar á ég við andlega fátækt. Hamingjan verður aldrei keypt með fjármunum. Mér finnst ástæða til að hafa áhyggjur af þeirri veraldarhyggju sem tröllríður samfélaginu í dag. Græðgin leikur lausum hala og í vaxandi mæli erum við sem þjóð farin að beygja okkur undir ofurvald hennar þar sem gildismat lífsgæðakapphlaupsins liggur til grundvallar. Þetta er svartur blettur á samfélaginu og rót margra þeirra félagslegu vandamála og erfiðleika sem við glímum við. Þarna þarf hugarfarsbreytingu – þarna þurfum við öll að endurskoða afstöðu okkar til hamingjunnar og lífsins. Fjölskyldan og manneskjan á að vera í fyrirrúmi. Við megum ekki gleyma okkur í hinu miskunnarlausa kapphlaupi í andlegri fátækt. Þeir sem sáu viðtal við handboltahetjuna Ólaf Stefánsson hjá Gísla Marteini hrifust af boðskap Ólafs þar sem hann lagði einmitt ríka áherslu á að rækta hin andlegu verðmæti og rísa gegn lífsgæðakapphlaupinu. Þetta reyndum við með átakinu Reykjanesbær á réttu róli og gafst vel. Það er hægt með samstilltu átaki okkar allra. Tökum höndum saman um að vinna bug jafnt veraldlegri sem andlegri fátækt. Það er meginkjarni í stefnu Framsóknarflokksins og þess vegna vinn ég undir hans merkjum.

Hjálmar Árnason,
alþingismaður.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024