Garðaganga 2014
Náttúran fer sínar eigin leiðir þrátt fyrir að menn telji sig kunna rýna í hegðun hennar fyrirfram milli ára. Þegar spádómar byggðir á vísindum bregðast, skýra menn gjarnan frávikin út frá hinu óvænta. Þannig myndast nýr jarðvegur fyrir nýja lærða grein til að útskýra frávikin. Væntingar um mikla laxveiði byggðar á ástandi sjávar s.l árs hafa brugðist þar sem eins árs fiskurinn sem skila átti sér í árnar, feitur í miklu magni hefur einfaldlega ekki látið sjá sig. Ritari hlakkaði mikið til að taka á móti honum og undirbjó sig í hvívetna, fjárfesti og hnýtti flugur til þess eins að upplifa tóma hylji og lágstemmda umfjöllun dagblaðanna. Microlax er hægðalyf sem gjarnan er notað til að rjúfa hægðastíflur. Hefur orðið nú fengið nýja merkingu meðal laxveiðimanna þar eð laxar veiðast sem eru svo smáir að líkjast murtum. Að sjá slíkt fyrirbrigði stökkva í hyl sem áður hýsti stóran fisk er nánast broslegt. Þeir nefnast örlaxar eða microlaxar, mjóslegnir eins og álar og nánast aumkunarlegir í loftinu. Krían aftur á móti er hin kátasta og tínir í sig sandsílin um allan Faxaflóann í andstöðu við fyrri spár um að makríllinn væri búinn að éta þau öll.
Sólarleysið og kuldi síðasta sumars gekk nærri blómstrandi runnum og rósum sem ekki náðu að safna í sig orkuforða fyrir veturinn og misfórust nema einstaka tegundir sem allt virðast þola. Það var því ekki annað en að klippa rósirnar niður að rót í vor og vona að einhverjar næðu sér aftur. Sú hefur einnig orðið raunin þrátt fyrir sólarleysið í sumar, enda ólíku hitastigi við að jafna. Gróður er almennt mjög fallegur, bændur glaðir með uppskeru og berjaspretta með allra best móti, svo ekki sé talið sveppaforði. Það er reglulega gaman að ganga um grundir og njóta þess sem gjöful náttúra færir manni á landi, þá fyrirgefst það sem lítið fæst úr legi. Sumarið okkar er ákaflega stutt. Garðunnendur leggja mikið á sig til að upplifa skrúð í stuttan tíma. Einn mánuð ár hvert þá allt er í blóma eru laun þess sem tímum saman liggur í beði og rótar. Þó eru þeir sem kunna að lengja sumarið í garðinum sínum með fjölbreytileika tegundanna sem hver tekur við af annarri til að gleðja augað.
Okkur í Suðurnesjadeild Garðyrkjufélags Íslands langar til að skoða dæmi um slíkt og efnum því til garðagöngu miðvikudaginn 13. ágúst næstkomandi.
Áætlað er að skoða nokkra garða í efri byggð Reykjanesbæjar þannig að gegnið sé á milli þeirra. Mæting er að Heiðarhorni 20 hjá ritara, þaðan sem hópurinn gengur og skoðar garða á Völlunum sem hafa fengið viðurkenningu eða eru tilnefndir.
Mæting er kl 17 og má ætla að gangan taki allt að þremur klukkustundum.
Konráð Lúðvíksson