Gaman saman í frístundaskólanum
Það er einhvern veginn þannig með mörg okkar að sumir hlutir sem við tökumst á við í lífinu verða okkur kærari en aðrir. Það er einmitt þannig sem mér líður þegar ég hugsa til Frístundaskóla Reykjanesbæjar. Ég var svo heppin af fá að vera þátttakandi í því starfi á árunum 2005-2010, þegar ég vann sem umsjónarmaður frístundaskólans Akurskjóls í Akurskóla með námi mínu í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ. Starfið þar byggðist á barnalýðræði, áhugasviði barnanna og starfsfólks. Þetta var eitt af skemmtilegustu tímabilum ævi minnar. Ég mætti í vinnu full tilhlökkunar eftir því að eyða deginum í gleði og skemmtilegheit með fjölhæfu starfsfólki og yndislegum börnum. Við settum okkur aðeins eitt markmið þegar við gerðum starfsáætlun vetrarins: „að hafa gaman saman“ þar sem þetta var frítími barnanna eftir skóla.
Í Reykjanesbæ er starfandi frístundaskóli í öllum grunnskólum bæjarins. Markmið Frístundaskóla Reykjanesbæjar er að nemendum líði vel, þeim finnist gaman, læri í gegnum leik, að þau kynnist og fái áhuga á margvíslegum þroskandi viðfangsefnum. Nemendur í 1.-4. bekk hafa rétt á sækja um vistun eftir að hefðbundnum skóladegi lýkur þar til kl. 16 frá mánudegi til föstudags. Einnig er starfandi frístundaskóli fyrir fatlaða nemendur í 1. til 10. bekk.
Fagleg ábyrgð á rekstri þjónustunnar er í höndum fræðslusviðs, en umsjónarmaður hvers skóla sér um að skipuleggja starfið í samstarfi við skólastjóra. Mikill hluti þeirra barna sem nýta þjónustu frístundaskólans koma úr 1. og 2. bekk. Flest þeirra eru í vistun til kl.16, þ.e. í þrjá tíma á dag fimm daga vikunnar, sem þýðir að sum börn eyða 15 tímum á viku í frístundaskólanum eða 60 tímum í mánuði. Þetta er gífurlega mikilvægur tími fyrir börnin sem vert er að nýta þeim til góðs.
Börn sem eiga við félagslega örðugleika að stríða eiga oft erfitt með að aðlagast í leik og námi og eiga á hættu að einangrast félagslega. Það getur síðan haft áhrif á félagslega mótun þeirra og tilfinningalega hæfni, sem er veganesti í nánum samböndum síðar í lífinu.
Rannsóknir sem gerðar hafa verið á leikjum barna hafa sýnt fram á að þykjustu- og hlutverkaleikir hafa hvað mest uppeldisgildi fyrir börnin. Í leik ná börnin að afla sér reynslu og upplifun sem hefur áhrif á mótun og þroska þeirra. Þegar þau fara í leik með öðrum opnast nýr heimur fyrir þeim, þau eflast og sjálfsmynd þeirra skerpist. Leikurinn er því börnum mikilvæg náms- og þroskaleið.
Meginþáttur starfsins í frístundaskólanum byggir á leik og samverustundum barnanna. Þar mætast börnin á jafnréttisgrundvelli, tilbúin til að mynda ný tengsl við þau börn sem þar eru í vistun hverju sinni. Í frístundaskólunum skapast vettvangur til að vinna markvisst með þeim börnum sem ekki ná að tengjast auðveldlega öðrum börnum í skólanum sínum. Það verða meiri líkur á að þau eignist nýja vini og nái að styrkja önnur vinabönd.
Ekki búa öll börn í Reykjanesbæ við sama borð þegar kemur að húsnæði, fjölda starfsfólks og faglegu innra starfi frístundaskólans. Þó að frístundaskólinn teljist ekki til grunnþjónustu sveitarfélagsins er hún samt mjög mikilvæg þjónusta. Árið 2009 varð frístundaskólinn fyrir miklum niðurskurði bæði á þjónustu og fjármagni til innra starfs skólans. Sá niðurskurður virðist enn vera við lýði. Til að hægt verði að bjóða börnunum upp á faglegt frítímastarf í frístundaskólum Reykjanesbæjar þarf að leggja fjármagn í málaflokkinn. Það þarf að móta heildræna framtíðarstefnu með áherslu á menntað fólk í frítímum barna í starf umsjónamanns hvers frístundaskóla, faglegt innra starf með þarfir barnanna að leiðarljósi, barnalýðræði og fræðslu til starfsmanna sem vinna með börnunum.
Eins og fram hefur komið í þessum skrifum mínum þá er það skoðun mín að það er ýmislegt sem má betur fara í málefnum frístundaskólans. Það var ekki tilgangur minn með þessari grein að gera lítið úr því starfi sem nú er við lýði í frístundaskólum bæjarins, heldur að benda á það sem betur mætti gera með faglegt frítímastarf að leiðarljósi.
Með von um jákvæð viðbrögð þeirra sem vinna að þessum málaflokki.
Kær kveðja, Lovísa Hafsteinsdóttir.