Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Gagnsæi af hinu góða
Miðvikudagur 19. október 2011 kl. 09:44

Gagnsæi af hinu góða

Anna Elísabet Gestsdóttir grunnskólakennari í Gerðaskóla skrifar grein á vef Víkurfrétta í vikunni. Fyrirsögn greinarinnar er „Nóg komið af óeiningu og sundrung!“. Greinin er að mörgu leiti vel skrifum því þar koma m.a. fram upplýsingar sem finna má í bæklingum frá Dan Olweus um einelti, þolendur eineltis og gerendur. Hún segir frá ábyrgð og skyldum kennara í eineltismálum og talar um þá vinnu sem fram fer í Gerðaskóla varðandi þau mál. Hún fer inn á hlutverk foreldra og hversu mikilvægt er að gott samstarf sé milli heimilis og skóla. Einnig tíundar hún hlutverk skólanefndar og spyr hvaða gagn sé að rífa niður þær grunnstoðir sem skólinn byggi á sem sé samvinna. Síðan spyr hún hvert hlutverk skólanefndar sé? Hún beinir spjótum sínum til pólitíkst kjörinna fulltrúa sem sitja í nefndinni, en ég er annar  af þeim fulltúum. Anna Elísabet talar um að mikilvægt sé að skólanefndin kynni sér þau hlutverk sem hún þurfi að inna af hendi. Hún svarar svo þeirri spurningu reyndar sjálf stutt og laggott að skólanefnd sé hluti af stoðkerfi skólans. Hún sakar skólanefnd Gerðaskóla um aðgerðaleysi gagnvart starfsmönnum skólans og segir orðrétt „Í allri þeirri umræðu sem átt hefur sér stað og því niðurrifi sem er búið að eiga sér stað þá hefur skólanefnd ekki talið sig knúna til að veita andlega aðstoð og stutt starfsfólk Gerðaskóla. Með aðgerðarleysi, sem þessu eins og stjórnsýslan hefur sýnt og sannað þá brotnar skólinn innan frá og hvað er þá eftir?“

Skólanefnd Gerðaskóla hefur hlutverk eftirlitsaðila með því að skólastarf í grunnskóanlum samræmist lögum, reglugerðum og aðalnámskrá grunnskóla. Það er því engan veginn í hlutverki skólanefndarmanna að fara inn í skólann til að veita  starfsfólki Gerðaskóla  „andlega aðstoð“. Ef svo er komið að starfsmenn skólans telji sig þurfa andlega aðstoð þá hlýtur það að vera í verkahring sérfræðinga að grípa inn í með viðeigandi hætti.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er miður að  heyra að skólasamfélagið skuli ekki taka faglegra á  þeirri umræðu sem snert hafa líf einstakra einstaklinga og samskipti þeirra við skólann. Skólanefndin  hefur áhyggur af því sem fram kemur í eineltiskönnun þeirri sem tekin var síðasta vetur.

Skólinn þarf ekki að grípa til þeirra aðferða að fara í vörn, alls ekki. Það sem skólasamfélagið þarf að gera er að viðurkenna vandann. Þá fyrst er hægt að vinna saman og taka á vandanum í góðri samvinnu með foreldrum og bæjaryfirvöldum.

Ég tel að nú þegar hafi þessi umfjöllun sem átt hefur sér stað í fjölmiðlum og meðal bæjarbúa undanfarin misseri skilað sér að einhverju marki, því ef marka má nýjustu könnun sem skólinn stóð að sjálfur þá hefur töluverður árangur náðst aðeins á stuttum tíma í eineltismálum skólans. Niðurstöður þær sem komu fram í eineltiskönnun þeirri sem framkvæmd var síðasta vetur sýna að einelti sé 13,3% miðað við 4% á landsvísu. Sú könnun sem skólinn framkvæmdi sjálfur nú í síðasta mánuði sýnir 4% einelti ef marka má þá könnun. Ef sú er raunin hefur stórkostlegum árangri verið náð síðan Olweusar könnunin var birt síðast. Ég fagna því og kennarar og starfsfólk Gerðaskóla hljóta að gleðjast líka. Ef sterkar vísbendingar koma fram um að einelti sé óeðlilega hátt þá ber að taka því alvarlega. Umfjöllun fjöðlmiðla um eineltismálin eru ofur eðlileg en bæði hefur komið fram að undanförnu viðtal við foreldra og börn sem orðið hafa fyrir einelti. Rætt hefur verið við nemendur, foreldra, skólastjóra og bæjarstjóra Garðs.

Fyrrverandi skólanefnd hefur talið  sig knúin til skrifa en sú skólanefnd sem ég sit í eða meirihluti hennar hefur viljað þrátt fyrir að sú  umræða sem átt hefur sér stað sé af hinu góða, stíga varlega til jarðar. Umfjöllun um fagmennsku hefur verið tíðrætt í greinarskrifum en í grein sem fyrrum skólanefndarmenn í Gerðaskóla skrifa um málefni skólans má lesa að greinarhöfundar átelja bæjarstjóra fyrir það að „ráðast á eina mikilvægustu stofnun bæjarins í fjölmiðlum“.

Ef fyrrum nefndarmenn kjósa að „túlka“ umræður um niðurstöður eineltiskannana sem aðför að skólanum þá er það miður. Það er dapurt ef  hlutirnir þola ekki dagsins ljós. Það að fjölmiðlar sýni eineltismálum áhuga er af hinu góða. Þrátt fyrir að málefnið sé í eðli sínu alvarlegt þá þýðir það ekki að það sé neikvætt fyrir skólann að yfirmaður bæjarins tjái áhyggjur sínar varðandi háar eineltistölur og láti sig varða um þá íbúa sem ósáttir eru með afgreiðslu eineltismála við skólann.

Í umræddri grein sem Anna Elísabet skrifaði ásakar hún bæjarstjóra Garðs um „hroka“ og „valdníðslu“ og „ófaglega“ sé hann að beita sér í þessu máli. Það er dapurt að heyra hvernig greinarhöfundar talar um málefni nemenda og vitni i „tilfinningauppnám nokkurra foreldra“ og segir svo að sér líði „ eins og ég sé að horfa á kostningabaráttu bæjarstjóra þar sem neyð og tilfinningauppnám nokkurra foreldra sé notað í persónulegri baráttu“. Þetta er sýn greinarhöfundar sem er kennari og prestfrú. Ég harma það mjög. Mér finnst ekki ástæða til að túlka hlutina með þessum hætti þó bæjarstjórinn taki alvarlega þegar íbúar bæjarins koma fram og upplýsa sína reynslu af samskiptum við skólann. Við vitum öll hversu alvarlegar afleiðingar eineltis geta haft á líf barna. Því ber að taka alvarlega ef eineltiskannanir sýna svo ekki verður um villst að óeðlilega hátt einelti mælist í skólanum. Það er miður að sú umræða sé túlkuð með þeim hætti sem Anna Elísabet gerir og ræðst svo með ómaklegum hætti á bæjarstjóra Garðs.
Ég dreg þá ályktun af allri þessari umfjöllun um eineltismálin að hún sé í heildina litið af hinu góða þrátt fyrir að umræðan sé á köflum lituð af fordómum hjá sumum og að menn fylki sér í tvær fylkingar með eða á móti umræðunni. Við eigum öll rétt á að tjá okkur en þeir sem vinna fyrir opinberar stofnanir  ríki eða sveitarfélög mega ekki tapa áttum. Munum að skólinn er fyrir bæjarbúa sem eru nemendurnir í skólanum. Skoðum hlutina frá öllum hliðum en gætum okkar á meiðandi ummælum og dómhörku í svo litlu samfélagi sem Garður er. Það er ekki það sem við þurfum í samfélaginu okkar. Reynum heldur að setja okkur í spor hvers annars því við erum jú öll að reyna að gera vel. Gefum heldur uppbyggjandi gagnrýni sem leiðir til góðs fyrir allt samfélagið. 

Kolfinna S. Magnúsdóttir,
bæjarfulltrúi Garði og grunnskólakennari.