Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Gæti  Manngildissjóður linað höggið?
Miðvikudagur 24. nóvember 2010 kl. 10:47

Gæti Manngildissjóður linað höggið?


Aðstæður breytast oft furðuhratt. Þær berast ekki lengur fréttirnar af frábærri afkomu bæjarsjóðs, og styrkleika þeirra félaga sem haldið var utan efnahagsreiknings bæjarsjóðs. Engir sjö milljarðar í hagnað, og engar arðgreiðslur. Maður veltir því fyrir sér hvað hefur gerst.  Í landsfréttablöðunum birtast þó af og til fréttir um eitt og annað sem virðist tengjast Reykjanesbæ, og upplýsingar koma fram á fundum bæjarstjórnar sem mér að minnsta kosti þætti vert að rötuðu á síður blaðanna. Svo íbúar gætu fylgst með hvað er í gangi.

Í umræðunni nú eru til að mynda málefni eignarhaldsfélagsins Fasteignar, og hvað um það verður. Á bæjarstjórnarfundi nýverið lét bæjarstjórinn þau orð falla að ýmsir möguleikar væru í stöðunni. Og hallaðist að því er virðist helst að einum. Að leysa upp félagið og sveitarfélögin tækju yfir þær skuldir sem hvíldu á þeim eignum sem þau nýta. Það líst mér vel  og fagna því verði það raunin. Þar gæti greiðslubyrði bæjarins af eignunum minnkað umtalsvert.

Sitt sýndist hverjum á sínum tíma þegar til Fasteignar var stofnað. Þar var gerð tilraun til breytts rekstrarfyrirkomulags á eignum opinberra aðila . Sú tilraun virðist nú sýna sig að hafa mistekist. Í framhaldi af stofnun Fasteignar var stofnaður svonefndur Manngildisjóður, sem samkvæmt stefnumótunarskjali sínu skyldi auglýsa eftir styrkjum tvisvar á ári, og veita fé til þágu mannræktar og aukins manngildis í Reykjanesbæ eins og það er svo vel orðað í skjalinu.
 
Stofnframlag sjóðsins voru í upphafi 500 milljónir króna, en höfuðstóllinn svo hækkaður  í febrúar 2008 upp í einn milljarð króna. Þannig að ljóst má vera nú þegar herðir að að við höfum fjármagn sem að einhverju leyti væri hægt að nýta til að takast á við þann vanda er við blasir hvað varðar hin frjálsu félagasamtök. Niðurskurðurinn þarf ekki að verða svo mikill sem raun ber vitni, velji menn tímabundið að nýta þann sjóð meira til að brúa sárasta bilið. Þar til að sólin tekur að rísa á ný. Þar verður maður að hrósa meirhlutanum fyrir framsýni.

Nú er ljóst að samstöðu er þörf og mikilvægt að við tökum höndum saman um að styrkja það félags og æskulýðstarf sem svo mikilvægt er bænum okkar. Nú þegar ljóst er að framundan er gríðarlegur niðurskurður á flestum sviðum virðist einsýnt að auka beri framlög úr manngildissjóðnum. Það held ég að allir geti verið sammála um.

Með bestu kveðju,
Hannes Friðriksson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024