GÆSLUVELLIRNIR DÝRIR Í REYKJANESBÆ
VF barst kvörtun frá nokkrum ungum mæðrum í Reykjanesbæ vegna hárra gæsluvallagjalda en gjaldtaka bæjarins fyrir hverja heimsókn er 150 krónur. VF gerði könnun á hvernig þessum málum er ástatt í nokkrum öðrum bæjarfélögum. Í ljós kom að Reykjanesbær er með hæsta verðið, 100 krónum hærri en í Hafnarfirði og 50 krónum hærri en í Sandgerði, Grindavík, Kópavogi, á Akureyri og í Vestmannaeyjum. Opnunartími var ekki sá sami en lengd gæslutímans, 3-4 klst., eftir hádegi alls staðar.Rannveig Einarsdóttir, yfirfélagsráðgjafi, sagði Reykjanesbæ hafa hækkað þjónustugjöld um áramótin 1998. „Bæjarstjórn Reykjanesbæjar endurskoðaði þjónustugjöld um síðustu áramót og hækkaði þá m.a. gjald á gæsluvelli bæjarins úr 100 kr. í 150 kr. fyrir barnið. Systkinaafsláttur er veittur og greiðist hálft gjald fyrir annað barn. Í Reykjanesbæ eru starfandi fimm gæsluvellir, Ásabrautarvöllur, Brekkustígsvöllur, Heiðarbólsvöllur, Miðtúnsvöllur og Stapagötuvöllur. Þeim er ætlað að vera athvarf fyrir börn á aldrinum 2 til 6 ára og eiga að tryggja ungum börnum örugga útiveru undir eftirliti starfsmanna. Vellirnir eru opnir yfir sumartímann frá 1. maí til 30. september kl. 13:00 til 17:00, en yfir vetrarmánuðina frá 1. október til 30. apríl frá kl. 13:00 til 16:00.“