Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Gæði ferðaþjónustunnar – hagsmunamál svæðisins
Mánudagur 8. ágúst 2016 kl. 14:44

Gæði ferðaþjónustunnar – hagsmunamál svæðisins

Guðjónína Sæmundsdóttir skrifar

Ferðaþjónustan blómstrar sem aldrei fyrr á Íslandi. Fjölgun ferðamanna hefur farið fram úr öllum spám og við eltum skottið á okkur að veita þá þjónustu sem ferðamaðurinn þarfnast. Eitt af því sem aðilar í ferðaþjónustu þurfa að gaumgæfa eru gæðamálin. Ekki er vænlegt til langs tíma að moka inn ferðamönnum og ætla sér skammtímagróða í þeim efnum. Huga þarf að því að þjónustan sé í samræmi við það sem greitt er fyrir. Ísland er dýrt land heim að sækja og því enn meiri krafa um gæðaþjónustu. Suðurnesin fara ekki varhluta af fjölgun ferðamanna og hafa gististaðir til að mynda sprottið hratt upp á skömmum tíma. Yfir helming fyrirtækja í ferðaþjónustu hafa starfað skemur en 10 ár og samtal milli fræðslu og atvinnulífs vantar. Huga þarf vel að þjónustu og afþreyingu og vill MSS leggja sitt af mörkum á því sviði í samráði við ferðaþjónustuna.

Margvísleg námskeið verða í boði fyrir ferðaþjónustuna hjá MSS, svo sem samfélagsmiðlar og sýnileiki í ferðaþjónustu, þjónustunámskeið og fleiri námskeið. MSS kappkostar að vinna með fyrirtækjum til að auka gæðin og hvetur þau til að vera í sambandi sé vilji og áhugi fyrir námskeiðum. Hjá MSS starfa sérfræðingar á sviði ráðgjafar fyrir fyrirtæki og fræðsluþarfir þess. Mikil reynsla liggur í að klæðskerasauma fræðslu sem hentar hverju fyrirtæki.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

MSS mun fara af stað með svæðisbundið leiðsögunám næstkomandi haust. Námið var síðast á dagskrá fyrir rúmum 10 árum og tókst einstaklega vel. Ljóst er að fjölgun ferðamanna krefst þess að fleiri hugi að því að kynna svæðið á ábyrgan og faglegan hátt. Með leiðsögunáminu gefst einstaklingum tækifæri til að bæta atvinnumöguleika sína, aðilar starfandi innan ferðaþjónustunnar geta bætt þjónustu sína til muna, bæði með upplýsingum til ferðamanna og einnig sem möguleika að bæta við þjónustuþáttum og auka afkomu sína. Þannig geta leigubílstjórar aukið gæði þjónustunnar þegar þeir keyra ferðamanninn um Reykjanesið hafi þeir góða þekkingu á svæðinu. Það sama á við um eigendur og starfsfólk gististaða sem eru helstu tengiliðir við ferðamanninn.  Þeir geta bætt þjónustuna ásamt því að auka möguleika til fjölbreyttari þjónustu og þar með tekjuaukningar.

Gæði, góð þjónusta og verð þurfa að haldast í hendur og eitt af því sem eykur gæðin er aukin menntun/fagvitund í greininni. Það er hagsmunamál svæðisins að auka gæði ferðaþjónustunnar. MSS mun ekki láta sitt eftir liggja á því sviði.

Guðjónína Sæmundsdóttir
Ferðamálafræðingur og forstöðumaður Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum