Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Gæðaaldin gef mér fleiri
  • Gæðaaldin gef mér fleiri
Mánudagur 20. apríl 2015 kl. 08:45

Gæðaaldin gef mér fleiri

Konráð Lúðvíksson skrifar.

Þá ritari skrifaði síðasta pistil sinn um rósir við íslenskar aðstæður til að vekja athygli á fyrsta fundi félagsskapar okkar hér á Suðurnesjum hefur náttúran lítið gert til að minna okkur á að vorið ætti samkvæmt tímatöflu að hafa haldið innreið sína. 

Kári virðist ennþá eiga í fórum sínum firnamikið loft og þræsing sem hann deilir út markvisst svona til að minna á að hann hafi ennþá völdin. Hann útdeilir dagshléum á milli lægða til að menn fái aðeins ráðrúm til að jafna sig áður en næsti umgangur hefst. Enda fór það með fundinn góða að enginn mætti til að hlýða á glæsilegt erindi sem þar var flutt. Þannig var tilraun ritara tímaskekkja, því  Suðurnesjamenn eiga nóg með sig, telja aura til að takast á við hækkað útsvar og hafa áhyggjur af mengun sem hugsanlega getur skapast af aukinni iðnaðarvæðingu á Helguvíkursvæðinu. Yfir þetta dægurþras er svartþrösturinn hafinn. Hann horfir yfir svæðið úr hæstu aspartoppum og syngur sínum fallega rómi án þess að hafa minnstu áhyggjur. Hann er byrjaður að tóna löngu fyrir fótaferð okkar tvífætlinga, aðeins morgunskokkarar, eftirlegukindur skemmtanalífsins  og þeir eftirlaunaþegar sem hættir eru að sofa á morgnana eiga þess kost að njóta hljómfegurðar þessa nýbúa sem svo sannarlega er velkominn að bætast við okkar fáskrúðugu fuglaflóru. Hann er í eðli sínu næturgali, eins og hann vilji helga sér trjátoppinn áður en bróðir hans skógarþrösturinn vaknar. Ritari átti þess kost nú um helgina að horfa á slíkan söngfugl úr nánd og fylgjast með hreyfingu barkakýlisins á meðan flutt voru heilu orgelverkin. Sértu ævinlega velkominn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í verbúð minni þarna á Akranesi hef ég örsjaldan látið freistast af því að kaupa mér berjabox ættuðu frá heitu löndunum og  seld eru í stórmörkuðum. Hef síðan gætt mér á kræsingunum, ýmist með rjóma eða ís sem viðbit. Þegar staðið er upp frá borðum finnst mér ég ennþá leitandi sál, í leit að hinu fullkomna bragði aldinsins sem ekki fylgdi með í Bónsusarpakkanum, eins og bragðlaukum sé ekki alveg fullnægt. Þá reikar hugurinn að okkar eigin sumaraldinum, sem hafa vaxið hægt við alla þá norrænu birtu sem sumarið okkar veitir. Þvílíkan unað sem bragðlaukarnir upplifa þegar slíkt aldin er sett á tungu. 

 

Við spúsa mín eigum í fórum okkar töluvert magn af hreinni frosinni krækiberjasaft á plastflöskum frá síðasta sumri án nokkurra bætiefna. Þegar hennar er neytt birtast manni ilmandi lyngbrekkur og heiðlóa í huga enda tærleikinn fullkominn. Þessu veldur, að berin þroskuðust hægt í bjartri sumartíðinni. Næturnar stundum svalar og dagarnir langir. Þannig náðu berin að safna í sig bragðefnum sem fullkomna verkið. Okkar norðlægu slóðir mynda þrátt fyrir veðrabrigði fullkominn skilyrði til að fá fram hreinleika og heilbrigða afurð. Öll aldin sem ná að þroskast við slíkar aðstæður gæla við bragðlaukana full af vítamínum og andoxunarefnum. Ritari hlakkar alltaf til að setjast á jarðaberjakassana og tína upp í sig eitt og eitt fagurrautt ber gjarnan með rjómapela í hinni hendinni. Fátt kætir börnin meir en að taka þátt í slíkri uppskeruhátíð. 

Nú ber svo við að fjöbreytileiki þeirra erlendu aldina sem ná þroska við íslenskar aðstæður eykst stöðugt. Ávaxtatrjáarækt er orðin vaxandi áhugamál fjölmargra. Ný yrki eru reynd með góðum árangri. Afkastamestu ræktendurnir eru að fá allt að 3000 aldin utanhúss. Við erum stöðugt  að safna í reynslubankann meiri efnivið til árangursríkrar ræktunar. Þessu viljum við í Suðurnesjadeild Garðyrkjufélagsins deila með ykkur sem áhuga hafa á næsta fundi.  Við höfum fengið til liðs við okkur tvo mikla spekinga, hvar af annar er hreinræktaður Suðurnesjamaður.

Þann 21. apríl verður haldinn fundur í Suðurnesjadeild Garðyrkufélags Íslands um ræktun og umhirðu berja og ávaxtaplantna. Þeir félagar Kristinn H. Þorsteinsson verkefnastjóri Garðyrkjufélags Íslands og Carl J. Gränz formaður ávaxtaklúbbs Garðyrkjufélags Íslands verða framsögumenn þetta kvöld.  Fundurinn verður haldinn í húsi Rauða Kross Íslands, Smiðjuvöllum 8 Reykjanesbæ (ath. breyttan fundarstað) og hefst kl. 20. Allir eru velkomnir og boðið verður upp á léttar veitingar. Aðgangseyrir er 500 kr.

Konráð Lúðvíksson, formaður