Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Föstudagur 25. júní 1999 kl. 22:08

FYRSTA SVEITARFÉLAGIÐ SEM ER MARKAÐSSETT FRÁ A TIL Ö

Vogar á Vatnsleysuströnd eru fyrsta sveitarfélagið á Íslandi sem markaðssetur sig fyrir verktaka og almenning en í síðustu viku hélt það kynningarfund þar sem þetta óvenjulega markaðsátak var kynnt fjölmiðlum, fasteignasölum, verktökum og fleirum. „Okkar markmið er að íbúafjöldi verði kominn í eitt þúsund eftir þrjú til fimm ár“, sagði Jóhanna Reynisdóttir, sveitarstjóri í samtali við Víkurfréttir en í Vogum búa í dag um 700 manns. Á kynningarfundinum voru lögð fram gögn um það sem Vogamenn telja góða söluvöru. Jóhanna sagði að fyrst og fremst yrði reynt að ná til fjölskyldufólks og öll mál tengd fjölskyldunni efld í bæjarfélaginu. Þar má fyrst nefna skólamálin. Engir biðlistar eru á leikskóla. Grunnskólinn er einsetinn og þar er tölvukennsla fyrir alla bekki. Frá og með næsta hausti verður gefinn kostur á heilsdagsskóla, þ.e. lengdri viðveru að kennsludegi loknum. Þá verður boðið upp á fjölbreytt og öflug tómstundastarf með tónlistarkennslu, danskennslu, leiklistarnámskeiðum, tölvunámskeðum, íþróttum, aðstoð við heimanám og fleira. Öll útivistar- og tómstundastarfsemi verður efld enn frekar auk þess sem verið er að semja um stækkun golfvallarins, komin er smábátahöfn, unnið er að endurbótum á hafnarsvæðinu og nægt rými er til að stækka hesthúsabyggðina. Jóhanna sagði að hreppurinn hafi ásamt bæjarbúum gert átak í umhverfismálum seinustu vikurnar þar sem rusl hefur verið fjarlægt og umhverfið fegrað með málun og snyrtingu. Hreppurinn hefur gert samning við Húsasmiðjuna um 15% afslátt af vörum ogefni til viðhalds húsa og lóða fyrir alla íbúa Voga. Götur og gangstéttir verða endurnýjaðar í sumar og göngustígar lagðir meðfram sjávarsíðunni, Vogatjörn og víðar. Þá hefur verið stofnað skógræktarfélag og er gert ráð fyrir stórauknum trjágróðri í og við bæinn. Vogar hafa og óskað eftir því að verða þátttakandi í verkefninu Staðardagskrá 21 sem er umhverfisverkefni. Sveitarstjóri benti á mikið og gott byggingarland sem nær allt frá Hafnarfirði að Reykjanesbæ. Nyrst í Vogunum eru nokkrar stórar sjávarlóðir sem eru um 5000 fermetrar að stærð og henta vel undir stærri einbýlishús auk þess sem nægt pláss er fyrir bátaskýli, hesthús eða önnur útihús á lóðinni. Þessar lóðir kosta aðeins um 2 milljónir króna. „Hér kemst fólk í sveitasælu en er með góða þjónustu í hreppnum. Í hreppnum eru m.a. matvöruverslun, bensínstöð, pósthús og hraðbanki, heilsugæslustöð, apótek, tannlæknir og hárgreiðslustofa. Auk þess er stutt til höfuðborgar og Reykjanesbæjar í aðra þjónustu, en nú verður okkar aðal áhersla á næstunni að heilla byggingaverktaka á svæðið og fá þá til að byggja. Fasteignasalar hafa sagt að veruleg eftirspurn sé eftir húsnæði, sérstaklega íbúðum og raðhúsum. Það þarf að byggja um 90 íbúir á næstu 2-3 árum“, sagði Jóhanna og benti á að gatnagerðargjöld í Vogum væru um 500% lægri en í Reykjavík. Aðspurð um sameiningu við önnur sveitarfélög sagði Jóhanna það mál ekki lengur á dagskrá, alla vega að sinni, í kjölfar skoðanakönnunar sem gerð var en þar vildu um 60% ekki skoða sameiningu nánar. Hún sagði hins vegar að í náinni framtíð þyrfti að skoða þau mál betur. Í lok kynningarfundarins kom sveitarstjóri með nýja veðurfrétt sem vakti athygli. Hún var unnin samkvæmt upplýsingunum veðurstofunnar og er svona: Það rignir minna og er lygnara í Vogum heldur en á höfuðborgarsvæðinu!
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024