Fyrirhuguðum íbúafundi vegna málefna HSS frestað
Eins og tilkynnt var í síðasta tölublaði VF var fyrirhugað að halda íbúafund um málefni HSS föstudaginn 28. Nóv. nk. Í síðastliðinni viku var stjórnendum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja falið að koma með tillögur að niðurskurði um amk. 10% og jafnframt tilmæli um að skurðstofu yrði lokað og starfsfólki þar sagt upp störfum.
Í kjölfar þessara tillagna óskuðu hjúkrunardeildarstjórar og yfirljósmæður HSS eftir fundi með þingmönnum kjördæmisins og bæjarstjórum á Suðurnesjum. Á fundinn mættu þrír þingmenn Helga Sigrún Harðardóttir frá Framsóknarflokknum, Atli Gíslason frá Vinstri Grænum og Grétar Mar Jónsson frá Frjálslynda flokknum, Árni Mathiesen frá Sjálfstæðisflokki og Björgvin G.Sigurðsson frá Samfylkingunni mættu ekki á fundinn né sendu staðgengil fyrir sig. Allir bæjarstjórar á Suðurnesjum mættu á fundinn nema Bæjarstjórinn í Vogum sem boðaði forföll. Á fundinum voru þingmenn og bæjarstjórar upplýstir um þá alvarlegu stöðu sem HSS er komin í. Fundurinn var mjög gagnlegur og menn sammála um að ekki væri hægt að sætta sig við það misrétti sem HSS hefur verið beitt í fjárframlögum til margra ára. Einnig áttu nokkrir hjúkrunardeildarstjórar og yfirljósmóðir seinna sama dag stuttan fund með Heilbrigðisráðherra þar sem hann var jákvæður í að skoða málefni HSS betur.
Í ljósi þessara aðstæðna teljum við ekki tímabært að svo stöddu að vera með íbúafund á okkar vegum. Við viljum gefa þingmönnum, ráðherra og ráðamönnum svæðisins svigrúm til þess að vinna að leiðréttingu á úthlutun fjárveitinga til HSS.
Hjúkrunardeildarstjórar og yfirljósmæður HSS.