Fylgjumst vel með til að stemma stigum við skemmdarverkum
Kæru íbúar Innri Njarðvík.
Þar sem leikskólinn Holt hér í Innri Njarðvík hefur ítrekað orðið fyrir barðinu á skemmdaverkum á lóð skólans eins og kom fram í Víkufréttum í gærkvöldi, var mildi að ekki hlaust mikið tjón af. Samt sem áður brann hér og eyðilagðist ljósaborð sem börnin hafa yndi og gaman að leika sér með. Þetta er í annað sinn á einni viku sem slík skemmdaverk eru framin. Ekki eru þetta einu skemmdaverkin því á síðasta ári voru hér rúður brotnar bæði á skólahúsnæðinu sjálfu og eins úti í Dalakofa. Þetta eru orðin allmikil og dýr skemmdaverk. Hér eru búnar að eiga sér stað endurbætur á leikskólalóðinni við mikinn fögnuð barnanna og starfsfólksins og kosta slíkar framkvæmir stórar fjárhæðir og er leiðinlegt að sjá að það fái ekki að vera í friði.
Það er ekki ofmælt að segja að samvinna og samstarf íbúa hér í hverfinu sé til fyrirmyndar. Hér er gott að búa og ég veit að fólki þykir vænt um bæinn sinn. Ég vil því biðla til allra, þar sem þetta er hverfið okkar og ég veit að samstarf hverfisins er mjög gott, að við tökum höndum saman og fylgjumst vel með til að stemma stigum við skemmdarverkum, ekki eingöngu hér á Holti heldur líka úti í hverfinu okkar allra.
María Petrína,
leikskólastjóri leikskólans Holts.