Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fullreynt með Helguvík hjá þessari ríkisstjórn
Miðvikudagur 27. mars 2013 kl. 09:59

Fullreynt með Helguvík hjá þessari ríkisstjórn

Fróðlegt hefur verið að fylgjast með umræðum síðustu daga um Helguvík þar sem þingmenn Samfylkingar í kjördæminu og bæjarfulltrúar þess sama flokks í bæjarstjórn Reykjanesbæjar hafa keppst við að fullyrða að ekkert muni stöðva framgang mála í Helguvík, - þökk sé núverandi ríkisstjórn. Hafa sumir jafnvel gengið svo langt að lofa stuðningi næstu ríkisstjórnar við málið þar sem stuðningur virðist takmarkaður hjá núverandi ríkisstjórn.

Enginn stuðningur innan ríkisstjórnarinnar

Þegar atvinnu- og nýsköpunarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, keyrði í gegnum ríkisstjórn á mettíma, frumvörp um stuðning ríkisins við framkvæmdir á Bakka við Húsavík, kom berlega í ljós að ríkisstjórnin vildi stuðla að uppbyggingu stóriðju í kjördæmi Steingríms en ekki í Helguvík. Til að reyna að fela þessa augljósu mismunun á milli svæða hafa þingmenn Samfylkingar fullyrt að sama muni að sjálfsögðu gilda um Helguvík. En jafnharðan hafa samstarfsmenn þeirra í ríkisstjórninni, bæði Steingrímur Joð og Katrín Jakobsdóttir dregið slíkar yfirlýsingar til baka og sagt málið annað hvort ekki tímabært til að ræða um eða blákalt svarað því til að sama muni að sjálfsögðu ekki gilda þar sem framkvæmdir á Bakka eigi að njóta forgangs umfram önnur iðnaðarsvæði, s.s. Helguvík.

Vegna ósamstöðu innan ríkisstjórnar hefur fjármálaráðherra látið í það skína að æskilegt væri að ganga frá yfirlýsingu við Reykjanesbæ um sambærilegan stuðning við Helguvík og Bakka. Slík yfirlýsing yrði þó með öllum fyrirvörum um fjárlög og samþykki Alþingis. Rétt er að árétta að slík yfirlýsing verður  marklaust skjal og vart pappírsins virði enda ríkisstjórnin á síðustu lífdögum sínum.
Svikin loforð um stuðning við Helguvík

Ef einhver vilji væri af hálfu þessarar ríkisstjórnar til þess að styðja atvinnuuppbyggingu í Helguvík þá hafa tækifærin verið fjölmörg á þessu kjörtímabili til þess að sýna þann stuðning í verki. Árið 2009 skrifaði ríkisstjórnin undir stöðugleikasáttmála við Samtök atvinnulífsins og ASÍ þar sem því var m.a. lofað að hrinda úr vegi öllum hindrunum vegna framkvæmda í Helguvík. Þrátt fyrir þá yfirlýsingu hafa bæði fyrirtæki ríkisins svo og ráðherrarnir sjálfir lagt alla steina í götu verkefnisins sem þeir hafa fundið. Hafa bæði ASÍ og SA gagnrýnt ríkisstjórnina harðlega fyrir svik á sáttmálanum.   

Árin 2010 og 2011 var lögð fram á Alþingi þingsályktunartillaga frá 29 þingmönnum þar sem lagður var til stuðningur við framkvæmdir í Helguvík. Ríkisstjórn og stjórnarliðinu hefði verið í lófa lagið að styðja þá tillögu og sýna þar í verki stuðning sinn við framkvæmdirnar. Þvert á móti hefur stjórnarliðið komið í veg fyrir að tillagan fái þinglega meðferð og  gangi til atkvæða.


Styðjum framkvæmdir á Bakka en krefjumst jafnræðis

Þau tvö frumvörp sem Steingrímur J. Sigfússon setur fram um stuðning við framkvæmdir við Bakka á Húsavík eru jákvæð og verða vonandi kláruð á þessu þingi. Það er reyndar sorglegt að sýnilegur stuðningur við atvinnuverkefni skuli loks koma fram af hálfu ríkisstjórnarinnar þegar meira en vika er liðin frá því að síðasta þing þessarar ríkisstjórnar átti að klárast, - en betra er seint en aldrei.

Það er sjálfsögð krafa að ríkið veiti sambærilegan stuðning við atvinnuverkefni á Suðurnesjum og fyrirhugað er að gera á Norðurlandi. Yfirlýsingar einstakra ráðherra eða þingmanna um stuðning eru marklausar. Aðeins frumvarp sem lagt hefði verið fyrir þingið til samþykktar hefði dugað til að ríkisstjórnin gæti hrist af sér slyðruorðið og sýnt stuðning sinn við Helguvík í verki. Það gerði hún hins vegar ekki.

Ragnheiður Elín Árnadóttir,
frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024