Fríar blóðsykurmælingar Lions
– í Nettó Krossmóa
Laugardaginn 15. nóvember frá kl. 13:00-16:00 munu Lionsklúbbur Keflavíkur, Lionsklúbbur Njarðvíkur Lionsklúbburinn Æsa Njarðvík, Lionsklúbburinn Garður, Lionsklúbbur Sandgerðis og Lionessuklúbbur Keflavíkur í samstarfi við Lyfju í Krossmóa, vera í Nettó Krossmóa að bjóða fólki upp á fría blóðsykursmælingu.
Þetta er gert í tilefni af Alþjóðaþjóðadegi Sykursjúkra 14. nóvember, en nóvember er mánuður sykurssýkisvarna hjá Lions. Þá bjóða Lionsklúbbar víðs vegar um land upp á fría blóðsykurmælingu. Markmiðið er að vekja almenning til umhugsunar um hættuna sem getur stafað af því að ganga með dulda sykursýki.
Gengur þú með dulda sykursýki?
Hvað er sykursýki?
Sykursýki er efnaskiptasjúkdómur sem dregur nafn sitt af auknu sykurmagni í blóði. Blóðsykurinn (glúkósa) er nauðsynlegt brennsluefni fyrir líkamann. Of hár blóðsykur er þó skaðlegur og því er blóðsykurmagninu haldið þröngu bili undir eðlilegum kringumstæðum. Blóðsykurmagnið ræðst af samspili fæðu-neyslu, líkamsáreynslu, blóðsykurframleiðslu lifrar og magni nokkurra hormóna í blóðinu en þau helstu kallast insúlín og glúkagon.
Einkenni sjúkdómsins
Einkenni sykursýki af gerð 2 geta verið lúmsk.
Helstu einkennin eru:
• Þorsti
• Tíð þvaglát
• Þreyta
• Sjóntruflanir
• Sveppasýkingar og kláði á kynfærum
Hafðu samband við lækninn þinn ef þú hefur þessi einkenni og láttu mæla blóðsykurinn!
Til eru tvær tegundir sykursýki
Tegund 1 af sykursýki leggst aðallega á ungt fólk sem ekki hefur sterka ættarsögu. Sjúkdómurinn stafar af því að frumurnar sem framleiða insúlín eyðileggjast algjörlega.
Tegund 2 af sykursýki leggst fyrst og fremst á fullorðna sem oft hafa sterka ættarsögu. Um er að ræða röskun á virkni insúlínsins þ.e. það insúlín sem briskirtillinn framleiðir nýtist mjög illa, en auk þess er einnig truflun á starfsemi sjálfs briskirtilsins. Flestir eru reyndar einnig með truflun á efnaskiptum blóðfitu og með háan blóðþrýsting.
Hverjir eru í hættu?
Báðar tegundir sykursýki eru í mikilli sókn nú á tímum. Talið er að jafnvel þúsundir einstaklinga gangi með duld sykursýki. Viti ekki af henni. Hver sem er getur hvenær sem er á hvaða aldri sem er fengið tegund 1 af sykursýki. Eldra fólk, þeir sem hafa ættarsögu um sykursýki og þeir sem eru of þungir eru í sérstakri hættu á að fá tegund 2 af sykursýki.
Sykursýki er hættulegur sjúkdómur!