Fréttamaður í framboð?
Á samráðsþingi Frjálslynda flokksins síðasta laugardag var ákveðið að við val á framboðslista muni verða stillt upp á lista og verða framboðslistar kynntir eftir áramót. Heimildir Víkurfrétta herma að mikill þrýstingur sé á Magnús Þór Hafsteinsson fréttamann um að taka fyrsta sæti á lista Frjálslynda Flokksins í Suðurkjördæmi. Efsti maður á lista flokksins í Reykjaneskjördæmi fyrir síðustu alþingiskosningar var Grétar Mar Jónsson úr Sandgerði, en heimildarmenn Víkurfrétta telja að Magnús Þór yrði fyrir valinu ef hann myndi ákveða að bjóða sig fram í fyrsta sætið. Aðilar sem Víkurfréttir ræddu við telja að ef Magnús Þór skipaði efsta sæti á lista Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi gæti hann breytt landslagi kosningaúrslitanna töluvert og náð kjöri. Einn heimildarmanna Víkurfrétta sagði orðrétt: „Það eru margir á Suðurnesjum sem eru orðnir þreyttir á að sjá kvótann fara af svæðinu og vilja berjast gegn því.“