Frelsi til að leigja
Húsnæðisvandinn verður ekki leystur með því einu að byggja fleiri eða ódýrari hús. Ekki á meðan litið er svo á að sjálfsagt markmið allra sé að fjárfesta í eigin húsnæði.
Húsnæðismál hafa verið áberandi í umræðunni á Íslandi um langt skeið. Miklu púðri hefur verið eytt í að ræða hversu erfitt sé fyrir fólk að eignast sína fyrstu íbúð. Sem er hverju orði sannara, enda húsnæðisverð hátt, lán óhagstæð og eignarmyndun einstaklega hægfara. Flestar aðgerðir stjórnvalda til að stemma stigu við vandanum hafa hins vegar miðast við að hvetja fólk að taka bankalán.
Mun eðlilegra væri að viðurkenna að sama búsetuform hentar ekki öllum og leita leiða til að ná fram meiri fjölbreytni á húsnæðismarkaði. Það er ekki eðlilegt ástand að reiknað sé með því að allir stefni að því að eignast sitt eigið húsnæði og að ekki sé í boði langtímaleiga sem valkostur fyrir fólk úr öllum kimum þjóðfélagsins.
Staðan er hins vegar sú að á meðan litið er á húsnæðiskaup sem helsta markmið allra í lífinu verður leigumarkaðurinn að afgangsstærð. Oft virðist litið svo á að leigjendur séu annað hvort fólk sem hefur orðið undir í lífinu og ekki getað safnað fyrir fyrstu afborgun, eða fólk sem er að safna fyrir fyrstu afborgun. Orðið sjálft, leigumarkaður, segir líka mikið. Hagnaður leigusala, framboð og eftirspurn, ræður ferðinni. Langtímaleiga þekkist varla hér á landi.
Í löndunum í kringum okkur má hins vegar víða finna leigufélög sem rekin eru, án hagnaðarsjónarmiða, af almenningi og / eða hinu opinbera. Þar getur fólk leigt út ævina ef því er að skipta og er öruggt svo lengi sem það stendur við sínar skuldbindingar. Samhliða þeim þrífast bæði búseturéttarfélög sem og leigumarkaður í líkingu við það sem við þekkjum hér. Eitt útilokar ekki annað, fjölbreytni er lykilatriði.
Til að leysa vandann þurfa bæði löggjafinn og sveitarfélög landsins að taka saman höndum. Breyta þarf lögum og regluverki til að gera ráð fyrir aukinni fjölbreytni á húsnæðismarkaði og sveitarfélög þurfa í deiliskipulagi að gera ráð fyrir leiguhúsnæði fyrir almenning. Örugg langtímaleiga ætti að standa öllum til boða, óháð tekjum eða þjóðfélagsstöðu.
Það hentar einfaldlega ekki öllum að fjárfesta í húsnæði. Margir hafa ekki efni á því, aðrir vilja ekki binda sig með þeim hætti, eða bara eyða peningunum í annað. Húsaleiga á að vera valkostur fyrir alla, ekki neyðarúrræði. Sjálfsákvörðunarréttur fólks á að vera ofar hagsmunum fjárfesta og geðþóttaákvörðunum stjórnmálahreyfinga. Hér þarf hugarfarsbreytingu hjá stjórnvöldum og almenningi.
Hrafnkell Brimar Hallmundsson,
2. sæti á lista Pírata í Reykjanesbæ í sveitarstjórnarkosningum 2018