Framtíðarsýn Bæjarlistans í Suðurnesjabæ
Á Bæjarlistanum situr fjölbreyttur hópur fólks sem hefur hugsjón fyrir Suðurnesjabæ. Frambjóðendur listans eru á öllum aldri og hafa margvíslega reynslu úr námi, atvinnulífinu og stjórnmálum. Allir eiga það þó sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á að byggja upp gott samfélag í fallegum bæ.
Við á Bæjarlistanum viljum fyrst og fremst að íbúum líði vel í sveitarfélaginu og finni að það er gott að búa í Suðurnesjabæ. Það er mikilvægt að þjónusta sé góð við alla íbúa en þó viljum við leggja sérstaklega áherslu á að skólarnir okkar geti sinnt öllum sínum nemendum vel og að eldri borgarar og fólk með fötlun fái framúrskarandi þjónustu.
Okkur langar til að fegra bæinn okkar, þannig að alls staðar þar sem komið er inn í hverfi bæjarins blasi við snyrtilegt umhverfi sem býður fólk velkomið. Þar séu skjólgóðir áningarstaðir þar sem fólk getur sest niður og notið útiveru og góðir göngu og hjólastígar á milli staða. Halda þarf áfram með öfluga uppbyggingu íþróttaaðstöðu. Íbúar þurfa að finna og sjá að við erum heilsueflandi samfélag, enda hefur sú stefna snertiflöt við alla málaflokka.
Við viljum að atvinnulíf blómstri í Suðurnesjabæ og að vel sé tekið á móti nýjum fyrirtækjum. Jafnframt eiga þau fyrirtæki sem þegar eru í bæjarfélaginu að finna fyrir stuðningi og samvinnu við bæjarstjórn í markaðssetningu. Uppbygging atvinnutækifæra er eitt af mikilvægustu verkefnum samfélags svo að það nái að vaxa og dafna.
Mikil áhersla verður lögð á fagmennsku í stjórnsýslu og fjármálum og teljum við að sinna þurfi mannauðsmálum af festu og mannúð. Til að stofnanir sem vinnustaðir nái að sinna sínum verkefnum á sem bestan máta þarf að halda vel utan um starfsmannahópinn. Hjá bæjarfélaginu starfar öflugur hópur fólks sem sinnir daglegum störfum af alúð og dugnaði og verðum við að leggja mikinn metnað í að halda í þennan góða hóp og sinna honum vel.
Framtíðarsýn okkar byggist á þeirri trú að Suðurnesjabær muni blómstra og vera lifandi, lýðræðislegt samfélag með góðri þjónustu, fallegu umhverfi og nægri atvinnu. Til þess þurfum við öll að taka höndum saman, íbúar, starfsfólk og bæjarstjórn.
Setjum X við O í Suðurnesjabæ á laugardag.