Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Framtíðarskólinn - Verknámsskólinn
Fimmtudagur 16. nóvember 2017 kl. 11:42

Framtíðarskólinn - Verknámsskólinn

Eru skólar strákavænir? Nei, það tel ég ekki vera. Strákar þurfa oftar meira verknámsmiðað nám heldur en stelpur og því rekast margir þeirra illa innan grunnskólans eins og hann er byggður upp. Strákar (einnig stelpur, en færri) þurfa nám sem byggir á því að gera eða skapa, “Learning by doing”. Drengir (oftast) sem rekast illa í skóla hafa jafnvel verið greindir með ofvirkni, athyglisbresti eða aðrar greiningar, s.s. með lestrarerfiðleika snemma á grunnskólaaldri, missa oft fótana í náminu og jafnhliða versnandi námsárangri fer hegðun þeirra oft einnig versnandi.

Í ljósi reynslu minnar hef ég sérstaklega skoðað þessi mál og komist að þeirri niðurstöðu að til þess að koma til móts við þennan hóp þyrfti að stórefla verklega kennslu í grunnskólanum. Ef nemanda líður illa og finnur sig ekki í náminu þá er engin von til þess að námsárangur þeirra verði betri. En það er mjög dýrt að halda uppi verknámi og því hef ég verið að velta fyrir mér frekari kostum. Helst hefði ég viljað sjá að grunnskólanum væri skipt upp í bóknám og verknám þegar í 9. til 10. bekk, en það myndi sjálfsagt reynast of dýr biti fyrir sveitarfélögin að halda slíkri deild út fyrir fremur litla hópa.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þá er ég loks að komast að kjarnanum. Ég legg til að sveitarfélög á Suðurnesjum, í samstarfi við ríkisvaldið/FS, setji á fót sameiginlegan verknámsskóla á grunn- og framhaldsskólastigi sem hefur þessa tvo árganga innanborðs auk aldurshópsins 16 til 18 ára. Ég tala nú ekki um ef það er ætlun stjórnvalda að setja skóla- eða fræðsluskyldu á hópinn 16 til 18 ára. Hvar ætti sá hópur að vera? FS gæti ekki tekið við þeim öllum og hvað þá? Á að hafa þessa árganga innan grunnskólans? Við erum með nemendur í öllum grunnskólum sem eru búnir að missa áhuga á námi, vilja ekki mæta í skóla, vilja fá að hætta sem er ekki hægt samkvæmt lögum. Þetta eru oftast drengir sem trufla í kennslu þar sem þeir þróa oft með sér áhættuhegðun og mótþróa vegna þess að skólinn hentar þeim ekki, mætir þeim ekki þar sem þeir eru staddir. Þegar þeir svo ljúka grunnskóla og reyna við framhaldsskólann þá eru þeir á gráu svæði, ekkert úrræði þar sem hentar þeim og þeir hætta. Margir þessara drengja eru með greiningar um ADHD og eða ýmsa lestrarörðugleika, eru fyrir ofan mörkin greindarfarslega, passa því ekki á starfsbraut en eru of illa settir námslega til að passa inn á fornámsbraut, hafa jafnvel ekki á valdi sínu námsefni unglingastigsins í grunnskóla. Þessir nemendur þurfa meiri námsstuðning en framhaldsskólinn er fær um að veita, hafa hvorki sérhæfðan mannafla né fjármagn til þess.

En aftur að verknámsskólanum. Þessi skóli væri sameiginlegt þróunarverkefni ríkis (FS) og sveitarfélaga sem nýtti í grunninn hugmyndafræði fjölsmiðju, en einnig ætti að fá samtök iðnaðarins, stéttarfélög og fyrirtæki á svæðinu til þess að koma að kostun slíks skóla enda þeirra hagur einnig að stórefla verkmenntun í landinu. Þessi skóli yrði einnig að geta tekið á námsvanda nemenda, t.d. lestrarvanda, og vinna að því að öll hjálpargögn sem hægt er að nota í bóknámi s.s. hljóðsnældur séu framleiddar með öllu námsefni og aðlagaðar kennsluaðferðir notaðar, s.s. munnleg próf. Það væri nauðsynlegt að samþætta námsgreinarnar, t.d. sá þannig að sem hefði áhuga á raftækjum eða bílum fengi verklega áfanga í þeim greinum en allar kjarnagreinar yrðu tengdar þeim verklegu þannig að sá sem vinnur með bíla fái stærðfræðina þannig að hún væri aðlöguð bílaáhuganum og að nemandinn lærði aðferðir í stærðfræði með notkun í verklegri grein, lerning by doing, íslenska, enska o.fl. væru einnig aðlagaðar að áhugasviði viðkomandi, verða að sjá tilganginn.

Fyrirtæki sem tækju þátt gætu þá e.t.v. notið einhverrar ívilnunar frá hendi sveitarfélaganna sem gæti verið hvati fyrir þau að taka að sér einstaka þætti s.s. verklegt nám innan síns fyrirtækis þannig að nemendur fái bæði kennslu og þjálfun til verka.

Við búum við það að ungt fólk á svæðinu, sérlega drengir, flosna upp úr framhaldsskóla af því að þeir hreinlega höndla ekki námið og þrátt fyrir að framhaldsskólinn bjóði upp á verknám þá fylgir öllu námi bóklegar greinar sem þessir nemendur þurfa að ganga í gegnum á sama hátt og aðrir nemendur þó svo að upp á námsgetu þeirra skortir. Þessi verknámsskóli gæti hugsanlega einnig boðið upp á verknám fyrir 16 til 18 ára sem þeir gætu svo lokið í almennum framhaldsskóla og væru þá hugsanlega búnir með allar bóklegar greinar, þyrftu aðeins einhver misseri í verklegu og sveinspróf væri tekið í framhaldsskólanum.
Ég veit að FS á mjög erfitt með að taka við þessum nemendum sem þurfa svo mikinn stuðning þannig að við værum að leysa úr vanda grunnskólanna og FS auk þess og aðalatriðið væri að koma betur til móts við þarfir nemenda með námsörðugleika. Ég hef rætt þessi mál við náms- og starfsráðgjafa, kennara auk þess sem ég hef fengið staðfestingu þess hjá skólameistara FS að Fjölbrautaskólinn geti ekki sinnt þessum hópi eins og hann vildi gjarnan gera.

Ef þessi tillaga gæti orðið að veruleika þá tel ég að SSS ætti að hafa forgöngu í málinu þar sem það er í raun sterkasta aflið til þess að halda utan um slíkt samstarf. Áhyggjur menntamálaráðuneytis og nærsamfélagsins varðandi brotthvarf ungmenna frá námi, kallar á nýja nálgun því framhaldsskólinn eins og hann er í dag getur illa þjónað þessum hópi sem um ræðir.

Ragnhildur L. Guðmundsdóttir