Framtíð Reykjanesskagans: Opin umræða – vilt þú taka þátt?
Áður en stórar ákvarðanir sem varða framtíð Suðurnesjabúa, framtíð Reykjanessskagans og framtíð Íslands eru teknar, ætti að fara fram upplýst umræða meðal þeirra sem ákvörðunin varðar.
Það hvort að álver verði reist í Helguvík varðar auðvitað alla Íslendinga en Suðurnesjabúa sérstaklega. Ákvörðun um álver eða ekki álver er ákvörðun um hvernig framtíð við viljum sjá hér á Suðurnesjum. Viljum við fjölbreytt og framsækið atvinnulíf sem hefur alþjóðaflugvöll og háskólasamfélag að miðpunkti? Viljum við að ferðaþjónusutuiðnaðurinn og þekkingariðnaðurinn vaxi og dafni hér á svæðinu, eða viljum við fórna tækifærunum sem eru til staðar fyrir nokkur störf í áliðnaði?
Það er ekki hægt bæði að halda og sleppa Reykjanesskaganum. Við getum ekki bæði grafið hann í sundur til þess að afla orku fyrir álver og markaðssett hann sem náttúruperlu á sama tíma. Ferðamenn sem koma hingað til lands í leit að hreinni náttúru hafa ekki áhuga á að skoða eintómar virkjanir og háspennulínur. Á Reykjanesskaganum eru nú þegar virkjanir sem hafa náð að sameina ferðaþjónustu og orkunýtingu; Bláa Lónið er, og Orkuverið Jörð verður, frábær viðkomustaður ferðamanna þar sem hægt er að njóta náttúrunnar og fræðast um hana. Jafnvægið á milli orkunýtingar og ferðaþjónustu á Reykjanesskaganum er mjög gott í dag en ef fleiri virkjunum verður bætt við með tilheyrandi háspennulínum yfir allan skagann þá glatast mörg tækifæri.
Upplýst umræða er það sem við Suðurnesjabúar þurfum á að halda núna. Við þurfum öll að kynna okkur hvaða möguleika við höfum í framtíðinni og mynda okkur upplýsta skoðun. Um helgina gefst ykkur kæru Suðurnesjabúar tækifæri til þess að kynna ykkur einn af þeim möguleikum sem Reykjanesskaginn býður upp á í framtíðinni. Samtökin Sól á Suðurnesjum, Sól í Straumi og Sól á Suðurlandi munu standa fyrir opinni ráðstefnu um Eldfjallagarð á Reykjanesi á laugardaginn, þar sem við getum fengið að sjá hvernig framtíðin gæti litið út ef af uppbyggingu Eldfjallagarðs verður.
Ég hvet alla þá sem vilja taka þátt í upplýstri umræðu um framtíð Reykjanesskagans til þess að mæta á ráðstefnuna og fræðast um þessa hlið málsins. Svo bíðum við bara spennt eftir því að fulltrúar þeirra sem vilja reisa álver í Helguvík bjóði okkur á ráðstefnu þar sem við fáum að fræðast um hvernig framtíðin með álveri gæti orðið.
Guðbjörg R. Jóhannesdóttir,
heimspekingur og talskona Sólar á Suðurnesjum.
Upplýsingar um ráðstefnuna má finna á sasudurnesjum.blog.is