Framsóknarmenn kynna Taxibus
Taxibus verkefnið er hugmynd sem að Framsóknarflokkurinn í Reykjanesbæ hefur lagt fram. Hugmyndin var kynnt leigubílstjórum í Reykjanesbæ í gærkvöld á fundi í sal Framsóknarflokksins og var að sögn Kjartans Más Kjartanssonar mjög gagnlegur.Kjartan sagði að niðurstaða fundarins hefði verið að hugmyndin væri vel þess virði að skoða áfram og ríkti ánægja með hana bæði af hálfu forsvarsmanna Sérleyfisbifreiða Keflavíkur og leigubilstjóra í Reykjanesbæ. "Þetta er hugmynd sem hefur bæði sína kosti og sína galla, en það var þó ánægjulegt að sjá hvernig fundurinn í gær heppnaðist" sagði Kjartan Már. Taxibus er verkefni sem hefur verið í gangi síðan 1993 í sveitarfélagi í Kanada sem er þrisvar sinnum stærra en Reykjanesbær og hafa nágrannasveitarfélög í Kanada ákveðið að taka hugmyndina til skoðunar. Kjartan sagði að hugmyndinni yrði fylgt eftir og það væri vel þess virði að skoða hana nánar.