Framsókn stöðvar álversuppbyggingu í Helguvík
Í framhaldi af grein minni um 3 stjórnmálaöfl á móti álveri í Helguvík sýnist mér það fjórða hafa bæst við.
Á nýafstöðnu flokksþingi Framsóknar var tekin ákvörðun sem stöðvar öll virkjanaleyfi til HS Orku hér á Reykjanesi sem á öðrum stöðum. Virkjanir eru eins og flestir vita forsenda þess að hér rísi álver, kísilver eða yfirleitt öll þau verkefni sem kalla á raforku í einhverju miklu magni.
Viljinn er skýr gagnvart virkjanamálum HS Orku , miðað við stefnuskrána:
Ákvörðun flokksþingsins er sú að virkjanaleyfi fyrir yfir 10 MW virkjanir, verði ekki veitt til einkafyrirtækja. Til þess að fá leyfi þurfa virkjanir stærri en 10 MW að vera í eigu orkufyrirtækja sem eru í eigu ríkis eða sveitarfélaga, að a.m.k. 2/3 hlutum.“ (Bls.8 í stefnuskrá framsóknar).
Athugið að HS Orka er að rúmlega helmingi í eigu einkaaðila á móti lífeyrissjóðunum og fær því ekki virkjanaleyfi miðað við þetta.
Til að álver í Helguvík fari af stað þarf 320 MW af orku. Þar af áttu 150 MW að koma frá HS Orku.
Ég get því ekki séð fram á að Framsókn ætli að veita okkur hér á Suðurnesjum neina hjálp með að koma álveri og þar með störfum í gang.
Enn og aftur hvet ég fólk á Suðurnesjum til þess að hugsa um eigin hag og okkar svæði þegar það gengur inn í kjörklefann.
Athugið að við eigum allt tilbúið hér en vantar aðeins aðstoð við að koma því í gang. Hvaða stjórnmálaöfl ætla að hjálpa okkur Suðurnesjamönnum raunverulega með það sem okkur vantar? Sem er Atvinna!
Guðbergur Reynisson
Suðurnesjamaður