Framkvæmdir við norður-suður flugbraut á Keflavíkurflugvelli
Mikið hefur verið rætt um flugumferð yfir byggð á Suðurnesjunum nú í sumar en hún hefur aukist vegna framkvæmda sem nú standa yfir á norður-suður flugbrautinni á Keflavíkurflugvelli og að sjálfsögðu aukinnar umferðar um Keflavíkurflugvöll. Að öllu jöfnu fer um 60% flugumferðar um norður-suður flugbrautina m.a. vegna ríkjandi vindátta og eins til þess að lágmarka flug yfir byggð. Vegna framkvæmdanna hefur nánast öll flugumferðin í sumar farið um austur-vestur flugbrautina. Reynt hefur verið eftir fremsta megni að beina flugvélum í flugtak til vesturs og út á sjó til þess að minnka flug yfir byggð. Ef flugbrautin er í notkun í þá átt að flugtak er til vesturs þá þarf að nota brautina í þá stefnu sem gerir það að verkum að vélar koma inn til lendingar úr austri. Auk þess er stefna flugtaka og lendinga einnig háð veðuraðstæðum, en ávallt er reynt að taka á loft á móti vindi. Af þessum sökum má alltaf búast við einhverri flugumferð yfir byggðina á meðan á þessum framkvæmdum stendur. Flugvélögin fljúga líka eftir ákveðnum ferlum til þess að lágmarka sem mest hljóðsporið og hefur þessum ferlum verið breytt í gegnum árin eftir því sem byggð þróast og færist nær flugvellinum.
Staða framkvæmdanna
Framkvæmdirnar eru nokkrum dögum á eftir áætlun en verið er að vinna upp þær tafir sem orðið hafa og enn stendur til að opna norður-suður flugbrautina um miðjan október. Nú hefur 1.600 metra kafli brautarinnar verið opnaður og munu minnstu vélarnar því geta notað þá braut og á næstunni mun opinn hluti brautarinnar verða 2.000 metrar. Við það mun tækifærunum til að nota norður-suður brautina fjölga. Næsta sumar verður austur-vestur brautin malbikuð og norður-suður brautin verður þá nær eingöngu í notkun. Það mun hafa þau áhrif að draga mun verulega úr flugumferð yfir byggð allt næsta sumar.
Mælingar hafnar
Isavia hefur hafið hljóðmælingar í kringum flugvöllinn og verða þær notaðar til þess að kortleggja hljóðmengun frá flugumferð og kanna hvaða áhrif breytingar á flugferlum hafa. Í fyllingu tímans verða svo settir upp fleiri mælar og niðurstöður þeirra birtar á vef Isavia svo íbúar og Isavia geti fylgst vel með og haft nákvæmari upplýsingar um það hvaða flughreyfingar það eru sem valda ónæðinu hverju sinni. Ef allt gengur að óskum verður þessi vefur kominn upp fyrri hluta árs 2017.
Brautir malbikaðar á 15-20 ára fresti – viðhaldsáætlun verður endurskoðuð
Þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir núna eru sérstakar. Nú er verið að vinna við þá flugbraut sem er að jafnaði mest notuð, m.a. til þess að minnka ónæði af flugumferð, og því er það óhjákvæmilegt að meiri umferð fari yfir byggð í næsta nágrenni vallarins. Malbikunarframkvæmdir sem þessar þarf að ráðast í á um 15-20 ára fresti, þó hafa komið upp hugmyndir um næst þegar ráðist verður í framkvæmdirnar verði viðhaldsáætlun flugbrauta breytt á þann veg að ekki þurfi að loka þeim yfir jafnlangt tímabíl og nú er. Auk malbiksframkvæmda er unnið að öðrum viðhaldsverkefnum við brautirnar til þess að takmarka líkt og kostur er lokun þeirra síðar meir, m.a. er verið að skipta um flugleiðsögubúnað og endurnýja brautarljósakerfi. Okkur hjá Isavia þykir auðvitað mjög leitt að ónæðið aukist svona og við höfum leitað allra leiða til þess að lágmarka það eins og kostur er. Flugfélögin hafa sömuleiðis gert sitt besta í að lágmarka umhverfisáhrif af vélum þeirra, hvort sem það er til eldsneytissparnaðar eða minnkunar á hljóðmengun.
Rétt er að ítreka að Isavia vill umfram allt að sú starfsemi sem fer fram á Keflavíkurflugvelli sé í sem mestri og bestri sátt við nærsamfélagið. Þær aðstæður sem uppi eru núna hvað snertir viðhaldsþörf, sem og aukningu á flugumferð á tímum sem hún var mjög takmörkuð, bjóða upp á nýjan raunveruleika fyrir okkur öll. Því miður þá sáum við og notendur flugvallarins ekki fyrir alla áhrifaþætti og vanmátum aðra en við munum að afloknu þessu sumri standa uppi með öruggari og betri flugvöll sem mun þjóna betur okkar gestum sem og landsmönnum öllum og það viljum við gera í góðri sátt við íbúa nærsveitarfélagana. Það er enn á ný tilefni til þess að biðjast afsökunar á því hve mikil áhrifin hafa verið af núverandi framkvæmdum og við tökum það auðvitað til okkar sem við höfum heyrt að íbúar hefðu viljað meiri og tíðari upplýsingar um framkvæmdina, áhrifin og framvinduna. Á sama tíma er full ástæða til þess að líta björtum augum fram á við til þess tíma þegar betrumbætt og öruggari flugbraut verður opnuð.
Þröstur Söring
framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Keflavíkurflugvallar