Framkvæmd aðgerðaráætlunar í leikskólamálum
Ljóst er að mikil fjölgun ungra barna í Reykjanesbæ hefur haft mikil áhrif á stefnumótun núverandi meirihluta. Búið er að rýna til gagns og greina betur þörfina hvar ber að staðsetja leikskóla til framtíðar.
Í dag eru 1.274 börn á leikskólum Reykjanesbæjar. Börn fædd á árinu 2020 eru tæplega 300 talsins og þau munu öll fá pláss á leikskólum á árinu 2022, þ.e. innan tveggja ára aldurs. Þegar horft er til 2021 árgangsins er fjöldi barna um 280 talsins. Flest þeirra, eða 90 börn, búa í Innri-Njarðvík, bæði í Tjarnar- og Dalshverfi. Er því ljóst að næsti leikskóli verður að koma í því hverfi.
Leikskóli í Dalshverfi 3 vorið 2023
Vorið 2023 mun rísa nýr leikskóli í Dalshverfi 3, gert er ráð fyrir 120 börnum. Fljótlega verður boðin út nýbygging við Stapaskóla, en gert er ráð fyrir 120 börnum, sem mun leysa af 85 barna núverandi leikskóla sem er í bráðabirgðahúsnæði. Með þessu móti munu 155 ný pláss skapast í Dalshverfi en auk þess mun rísa ný álma við leikskólann Holt sem verður tekin í gagnið í haust n.k., þar er gert ráð fyrir 36 börnum. Þessi fjölgun sýnir vel áherslur meirihlutans að búa vel að börnum.
Leikskóli í Hlíðarhverfi
Stefnt er að því að byggja nýjan leikskóla í Hlíðarhverfi og eru viðræður þar af lútandi nú þegar í gangi. Vonast er til að þeim viðræðum ljúki fljótlega og við getum hafist handa við að byggja þann leikskóla.
Ljóst er að uppbygging bæjarins hefur verið hröð og við höfum lagt okkur öll fram við að bæta stöðu barna með bættri aðstöðu og aukinni þjónustu við barnafjölskyldur. Til að brúa bilið og koma til móts við foreldra ungra barna meðan beðið er eftir fleiri leikskólaplássum var tekin ákvörðun í bæjarstjórn að niðurgreiða foreldrum gjald sem greitt er til dagforeldra ef barnið er orðið átján mánaða eða eldra og hefur ekki fengið leikskólapláss.
Allt þetta og margt annað eins og auknar hvatagreiðslur og stuðningur við tómstunda- og íþróttaiðkun barna sýnir að við erum á réttri leið og allar vonir standa til þess að með áframhaldandi öruggum rekstri bæjarins verði mögulegt að taka stærri skref í leikskólamálum á næsta kjörtímabili.
Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs og oddviti S-listans.
Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir, fulltrúi í fræðsluráði og skipar 8. sæti S-lista Samfylkingar og óháðra.