Fræðslukvöld í Íþróttaakademíunni
Það er aldrei of seint að bæta lífsstílinn... nema ef í gröfina er komið!!
Í kvöld klukkan 19.30-22.00 verður fræðslukvöld í tengslum við átakið Heilsuefling á Suðurnesjum. Markmiðið með fræðslukvöldinu er að stuðla að hollara líferni Suðurnesjamanna og draga þannig úr tíðni hjarta- og æðasjúkdóma.
Þrír sérfræðingar munu flytja fróðleg og lífleg erindi, Sveinbjörg Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur, Kristjana Hildur Gunnarsdóttir íþróttafræðingur og dr. Ingibjörg Gunnarsdóttir næringarfræðingur.
Sveinbjörg mun fara í gegnum helstu áhættuþætti hjarta og æðasjúkdóma. Fjallað verður um helstu þætti sem hægt er að hafa áhrif á; s.s hár blóðþrýstingur, hátt kólesteról, hár blóðsykur,
ofþyngd, reykingar og fleira. Einnig fer hún í gegnum einkenni kransæðastíflu og heilablóðfalls.
Kristjana mun fjalla um áhrif hreyfingar fyrir líkamsstarfsemina og leggja áherslu á hvaða hreyfing og hversu mikil hreyfing, skili árangri. Einnig mun Kristjana fara í gegnum hvaða hreyfing standi Suðurnesjamönnum til boða á svæðinu.
Dr. Ingibjörg mun fjalla um tengsl mataræðis við áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma. Hún mun ræða fæðuval en auk þess leggja áherslu á umfjöllun um orkujafnvægi og líkamsþyngd. Erum við að borða of mikið og/eða lélega fæðu?
Ef þig vantar að láta ýta þér af stað þá er þér hollara að mæta og mundu.... Ef þú hefur ekki tíma fyrir heilsuna í dag, hefur heilsan ekki tíma fyrir þig á morgun!!
Allir eru velkomnir - Aðgangur ókeypis
Ath. Fræðslukvöldin verða fyrsta og þriðja fimmtudagskvöldið í
hverjum mánuði.