Frábær Hans og Gréta
Þó ég hafi vegna anna í námi tekið mér frí frá störfum með Leikfélagi Keflavíkur fylgist ég með því sem félagið er að gera. Ég fer á þær sýningar sem boðið er upp á og skemmti mér alltaf vel. Það er gaman að sjá ungu krakkana sem eru núna kjarnin í starfseminni og hvernig þau vaxa við hvert verkefni.
Laugardaginn 16. apríl sá ég barnaleikritið Hans og Grétu og það er skemmst frá að segja að mér fannst sýningin frábær! Þetta er ein besta sýning leikfélagsins í langan tíma. Ævintýrið um þau systkini þekkja allir nema kannski þau allra yngstu. Eins og fram hefur komið í viðtölum við Stein Ármann leikstjóra bætti hann við nokkrum persónum. Sú bæting við leikritið er af hinu góða og smell passar inn í söguna. Ég ætla ekki að nefna neinn einn leikara en þau standa sig öll mjög vel en þau fá sérstakt hrós frá mér fyrir framsögnina. Þau töluðu öll hátt og skýrt án þess að vera með neinar ýkjur. Allar ömmur og afar sem fara með barnabörnin á leikritið skilja hvert orð sem sagt er hvar sem þau sitja í salnum.
Áhorfendur fá að taka þátt í sýningunni, eru spurð ráða og beðin um hjálp. Á sýningunni sem ég var á voru yngstu áhorfendurnir ósparir á að kalla til persónana þegar hættu bar að hönum. Hljómsveitin Hálftíma gangur, sér um tónlistarflutning og leikhljóð og gerir það einstaklega vel. Leikfélagið hefur aftur fengið Úlf K. Grönvold til að gera leikmynd, og Rakel Brynjólfsdóttir gerði skemmtilega búninga. Þó þetta sé barnaleikrit er þetta sýning fyrir alla aldurshópa. Takk fyrir sýninguna krakkar það var glaður og stoltur leikfélagsmaður sem fór af sýningunni. Það er skammt stórra högga á milli í leiklistarlífi bæjarins því nemendur Myllubakkaskóla frumsýndu þriðjudaginn 19. apríl leikritið um Hatt og Fatt. Þar er einnig á ferðinni skemmtileg sýning. Ég vil hvetja foreldra til að fara með börnum sínum á báðar þessar sýningar. Ekki ætti miðaverðið að spilla fyrir.
Gísli B. Gunnarsson.