Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Frá yfirstjórn HSS: Hvernig tökumst við á við kreppuna?
Föstudagur 16. apríl 2010 kl. 14:31

Frá yfirstjórn HSS: Hvernig tökumst við á við kreppuna?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í umfjöllun á forsíðu Víkurfrétta í gær (15. apríl) er vegið hart að starfandi læknum á HSS. Margt er sett fram af vanþekkingu sem hæg heimatök hefðu verið á að fá betri upplýsingar um ef leitað hefði verið eftir þeim. Hér verður reynt að upplýsa lesendur um staðreyndir málsins.


Starfsfólk HSS hefur mikinn metnað fyrir hönd sinnar stofnunar og vill hag hennar og skjólstæðinga sinna sem mestan. Starfsfólk hefur unnið mikið og óeigingjarnt starf oft við erfiðar aðstæður en óhætt er að segja að álag á starfsfólk hefur óvíða á landinu verið meira en einmitt hérna.
Það er líka staðreynd að hér hefur oft verið erfitt að fá fagfólk til starfa og þá sérstaklega lækna. Þetta er flestum Suðurnesjamönnum kunnugt um og má velta fyrir sér hvers vegna. Undanfarið ár hefur ástandið verið sérstaklega erfitt, ekki bara hér á Suðurnesjum heldur um allt land. Það eru því kaldar kveðjur sem starfandi læknar á HSS fá í umræddri umfjöllun en þeir hafa undanfarna mánuði unnið tvöfalda og þrefalda vinnu. Það útskýrir há heildarlaun þeirra sem byggjast á mikilli vaktabyrði en eru algjörlega samkvæmt kjarasamningum lækna. Það er rétt að taka fram að læknar sem ganga vaktir á HSS eru líklega á bilinu 10 – 15 eftir aðstæðum. Kostnaður við kvöld-, helgar- og næturvaktir er alltaf sá sami hvort sem að honum er skipt á milli fárra einstaklinga eða margra, þ.e. hvort sem að læknar eru 7 eða 17 er heildarkostnaður sá sami við vaktirnar.


Viðbrögð við kreppu
Það þarf ekki að minna á að við erum að ganga í gegnum einhverja dýpstu efnahaglægð sem um getur, þó lítil þjóð eins og við Íslendingar erum, verðum enn meira fyrir barðinu á henni vegna smæðarinnar. Staðreyndin er sú að fjárveitingar eru ekki fyrir hendi til að vera öllum allt og því þarf að forgangsraða (harkalega) í heilbrigðisþjónustunni eins og alls staðar annars staðar. Það sem verra er, það þarf að gera það áfram á næstu árum. Alþingi setur okkur lög sem okkur ber að fara eftir, þ.á.m. lög um heilbrigðisþjónustu. Þar er forgangröðun þjónustunnar skýr, grunnþjónustan er í forgangi.
Ýmislegt hefur verið gert til að tryggja íbúum Suðurnesja sem besta grunnþjónustu þrátt fyrir skort á heilsugæslulæknum. Hjúkrunarfræðingar, ljósmæður, sjúkraliðar og barnalæknar halda uppi ungbarnavernd með miklum sóma. Ljósmæður og kvensjúkdómalæknir hafa um árabil haldið uppi fínni mæðravernd og ljósmæður halda námskeið fyrir verðandi foreldra. Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar sjá um umfangsmikla skólahjúkrun í 10 skólum á Suðurnesjum og forvarnar- og meðferðarteymi sinnir fjölskyldumeðferð, einstaklingsmeðferð og ráðgjöf . Öll þessi þjónusta er mikilvægur þáttur í almennri heilsugæslu.
Hjúkrunarfræðingar hafa auk þess bætt við móttöku sína á heilsugæslunni, boðið er upp á almenna hjúkrunarmóttöku eins og sáraskiptingar, blóðþrýstingsmælingar, símaráðgjöf, aðstoð við lyfjaendurnýjanir o.fl. Hjúkrunarfræðingar hafa aukið viðveru sína bæði á daginn og á kvöldin og verkefni hafa verið endurskipulögð þannig að tími lækna nýtist sem best. Teymi fagfólks sér um öflugt eftirlit og þjónustu við sjúklinga með sykursýki. Ekki má heldur gleyma slysa- og bráðamóttöku en þangað leita um 6000 manns á ári.


Leiðsögn laganna
Auk grunnþjónustunnar (heilsugæslunnar) er í lögunum lögð megináhersla á almennar lyflækningar, hjúkrun, slysamóttöku, endurhæfingu og nauðsynlega stoðdeildarþjónustu. Síðan segir í lögunum um umdæmissjúkrahús að þar skuli „að jafnaði vera fæðingahjálp, séu faglegar kröfur uppfylltar...“. Það liggja nú þegar fyrir hugmyndir á HSS um hvernig verðandi mæðrum og feðrum verði best sinnt við þessar breyttu aðstæður. Við erum svo lánsöm á HSS að hér starfa ljósmæður sem eru bæði reynslumiklar og úrræðagóðar. Með þeim munum við halda áfram að reka fæðingadeild af miklum krafti. Áherslur munu breytast en ekki bara í þjónustu við verðandi mæður heldur í allri heilbrigðisþjónustu. Við allar breytingar felast mörg tækifæri sem við ætlum okkur ekki að missa af. Ekki er minnst á skurðstofur í lögunum um umdæmissjúkrahús. Á skurðstofum er veitt afar sérhæfð þjónusta sem er því þjóðhagslega hagkvæmara að veita á færri og stærri stofnunum til að nýting þeirra sem og þjálfun starfsfólks verði sem mest. Flest öllu fólki sem starfar við skurðstofu HSS hefur verið boðin einhver vinna við stofnunina sem sumir hafa þegið og aðrir ekki. Við tökum það öll nærri okkur að skurðstofur HSS skuli nú loka eftir að hafa þjónað samfélaginu giftusamlega í yfir 50 ár.


Horft fram á veginn
Við þurfum hins vegar að horfa á hvernig við nýtum fjármuni og dýrmæta starfskrafta best svo að þeir gagnist sem flestum í samfélaginu. Liðinn er sá tími þar sem hver og einn gat unnið í sínu horni. Framundan eru tímar samvinnu innan stofnana og milli stofnana.
Ótal atvinnutækifæri á Suðurnesjum eru í undirbúningi og verður hér eingöngu minnst á alla þá möguleika sem felast í heilbrigðistengdri ferðaþjónustu. Það er óhugsandi annað en að eftir nokkur ár muni sú atvinnugrein blómstra og það ekki síst hér á Suðurnesjunum þar sem allar bestu aðstæður eru fyrir hendi.
Við kringumstæður eins og við búum við núna er eðlilegt að fólk sé reitt, við erum það öll í mismiklum mæli og það getur verið gott að blása. Síðan kemur að því að við verðum að bretta upp ermar og takast á við framtíðina, fortíðin kemur ekki aftur. Við getum valið um að taka þátt í framtíðaruppbyggingu heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum eða vera á móti. Það er eitt sem að við getum verið viss um, en það er það að við munum komast upp úr þessari kreppu. Það gerum við best með því að snúa saman bökum og endurskipuleggja þá þjónustu sem er samfélaginu mikilvægust eins og að ofan greinir. Við gerum það ekki með því að rífa niður það sem verið er að vinna að við mjög erfiðar aðstæður. Við gerum það með því að taka vel á móti öllu starfsfólki sem kemur til starfa hjá okkur, læknum sem og öðrum. Við þurfum sárlega á þessu fólki að halda, við viljum að því líði vel hjá okkur og að störf þess séu metin að verðleikum. Þannig komum við best á móts við alla þá sem þurfa á þjónustu okkar að halda.

Yfirstjórn HSS.