Frá höftum til hagsældar
Stór verkefni bíða úrlausnar á næstu mánuðum. Miklu skiptir að Alþingi ljúki vinnu viðfrumvörp sjávarútvegsráðherra um stjórn fiskveiða, rammaáætlun um nýtingu og vernd náttúruauðlinda og ekki síst frekari aðgerðum við úrlausn skuldugra heimila og einstaklinga í greiðsluerfiðleikum.
Umsvifamikil orkunýting
Réttilega eru bundnar miklar vonir við stórframkvæmdir sem hafa mikil umsvif í för með sér. Þar ber hæst álver í Helguvík sem er í biðstöðu á meðan HS-orka og Norðurál ljúka samningsgerð um orkuverð. Einnig fyrirhuguð kísilver í Ölfusi og á Reykjanesi og byggingu á stóru gróðurhúsi á Hellisheiðinni. Margt fleira má nefna sem snýr að orkunýtingu og úrvinnslu hennar á Reykjanesi og í hinum miklu jökulám Suðurlands. Það mun koma í ljós þegar atvinnuveganefnd þingsins líkur vinnu við rammaáætlunina.
Margt bendir til þess að bæði Hagavatnsvirkjun og Hólmsárvirkjun verði færðar úr biðflokki í nýtingarflokk og deilt er um hvort nóg sé að setja Urriðafossvirkjun í bið eða allar þrjár virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár til að fullrannsaka efasemdir um afdrif laxastofnsins. Mun það verða til lykta leitt í þinglegri meðferð um rammann.
Þessu til viðbótar er rétt að benda á að mikilvægt er að missa ekki sjónar á þeim góða gangi sem er í ferðaþjónustunni og miklu möguleikum sem eru í greininni. Nú liggur fyrir að stækka þarf Flugstöðina til að anna aukinni umferð og fjöldi starfa hefur orðið til vegna þjónustu við ferðamenn. Mikil uppbygging er í bæði afþreyingu og gistingu fyrir ferðamenn sem vonast er til að leggi sig í ríkari mæli yfir árið allt í stað sumarsins eingöngu.
Staðan í stóru málunum
Kjördæmisráð Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi kom saman á dögunum. Þar var m.a. fjallað um stærstu verkefnin framundan í landsmálapólitíkinni. Mun ég hér á eftir tæpa á því helsta sem kom fram í kjarnyrtri ályktun ráðsins.
Stöðu sjávarútvegs ekki raskað
Kjördæmisráð Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi lýsti stuðningi við ábyrga jafnaðarstefnu ríkisstjórnarinnar og árangri hennar á erfiðum tímum. Metnaðarfull efnahagsmarkmið hafa náðst á sama tíma og áhrif kreppunnar á lægri- og millitekjuhópa hafa verið milduð og jöfnuður í samfélaginu hefur aukist. Auðvitað er talsvert í land en það jafnvægi í ríkisfjármálum sem náðst hefur er grundvöllur bættra lífskjara og aukins kaupmáttar.
Þá lýsti kjördæmisráðið ánægju með að frumvörp sjávarútvegsráðherra um stjórn fiskveiða og veiðigjöld væru fram komin. Fullnusta þeirra á Alþingi skiptir miklu máli til að treysta framtíðargrunn þessarar megingreinar í samfélaginu. Setja niður deilur og tryggja að handhafar sérleyfa til nýtingar skili þjóðinni sanngjörnum arði og tækifæri til nýliðunar í greininni með virkum og vaxandi útboðsmarkaði.
Þá er áréttað sérstaklega að mikilvægt sé kerfisbreytingin og gjaldtakan raski ekki stöðu þessarar undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar og tryggi rekstrarskilyrðum hennar til langframa. Kjördæmisráðið leggur áherslu á að aukinn arður af auðlindinni verði m.a. nýttur til við fjárfestingar í innviðum samfélagsins, menntun, nýsköpun og rannsóknum, og við sóknaráætlanir í atvinnulífi um land allt.
Frekari aðgerðir í skuldamálum
Eitt flóknasta verkefni síðustu ára eru án efa skuldamál heimilanna. Mikið hefur áunnist í skuldamálum og skuldabyrði stórs hluta íslenskra heimila hefur verið létt. Skuldir heimillanna - sem hlutfall af landsframleiðslu – hafa lækkað, hrein eign heimila í íbúahúsnæði hefur aukist og yfirveðsettum heimilum fer fækkandi.
Hinsvegar bendir kjördæmisráðið á og áréttar mikilvægi þess að skuldamál heimilinna séu stöðugt endurmetin. Brugðist verði við með nauðsynlegum aðgerðum til þess að koma til að mæta vanda heimili sem eiga í greiðsluvanda. Til dæmis með húsnæðisbótum og auknum barnabótum. Þá er sanngirnismál að koma á frekari úrræðum til þess að koma til móts við þá sem tóku verðtryggð fasteignalán. Sérstaklega í húsnæðisþenslunni árin 2004-2008.
Almennar niðurfærslur tiltekinna lána eru afar dýrar aðgerðir. Óábyrgt er að lofa þeim án þess að leggja um leið fram leið til að fjármagna þær án þess að það hafi í för með sér aukna skuldsetningu ríkissjóðs eða skertan lífeyri. Allra færra leiða er nú leitað gagnvart þeim sem tóku hefðbundin íslensk verðtryggð lán og eru undir veðsetningarmörkum 110% leiðarinnar. Skuldaskilin snúast ekki einvörðungu um bætta greiðslugetu heldur ekki síður um réttlæti og sanngirni.
Efnahagslegt fullveldi
Þá var ítarlega fjallað um mál málanna; gjaldeyrishöft og framtíðarfyrirkomulag gjaldmiðilsmála.
Skorar kjördæmisráðið á ríkisstjórnina að hraða aðildarviðræðunum við ESB svo að niðurstaðan í mikilvægustu samningsköflunum – sjávarútvegi, peningamálum og landbúnaði – liggi fyrir sem fyrst. Mikilvægt er að ljúka samningum við sambandið, leggja hann fyrir þjóðina þannig að framtíðarkostir í gjaldmiðilsmálum liggi fyrir hið fyrsta. Afnám gjaldeyrishafta, samhliða upptöku evru sem stöðugs framtíðargjaldmiðils, eru eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar og skýrasta leiðin til þess að tryggja efnahagslegt fullveldi þjóðarinnar til langrar framtíðar.
Um það snýst rökræðan í raun um aðild að Evrópusambandinu. Hvort full aðild að sambandinu og upptaka evru tryggi betur brýnustu hagsmuni þjóðarinnar til langrar framtíðar með upptöku evru, afnámi verðtryggingar og gjaldeyrishafta. Aðild komi í stað þeirrar aukaaðildar sem tryggir aðgang að mörkuðum og fjórfrelsi án möguleikans á því sem mestu skiptir; aðild að myntsamstarfi sem eyðir þeim miklu sveiflum sem reglubundið ganga yfir með falli gjaldmiðilsins. Sveiflum sem kosta almennt launafólk miklar lífskjaraskerðingar í formi verðhækkana á nauðsynjum, verðbólgu og kaupmáttarrýrnun vegna virðisrýrnunar gjaldmiðilsins og hinnar séríslensku verðtryggingar sem til er komin vegna smæðar og veikleika gjaldmiðilsins.
Leiðin frá höftum til varanlegrar hagsældar og stöðugleika er hafin. Henni er þó fjarri lokið. Mikilvægt er að halda athyglinni á aðalatriðunum þó auðvelt sé að gleyma sér í átökum um öll þau ólíku mál sem upp koma.
Björgvin G. Sigurðsson, formaður allsherjar- og menntamálanefndar.