Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Forvarnargildi íþrótta og fjölnota íþróttahús í sameinuðu sveitarfélagi
Fimmtudagur 24. maí 2018 kl. 22:48

Forvarnargildi íþrótta og fjölnota íþróttahús í sameinuðu sveitarfélagi

Ein sú albesta forvörn sem börn og ungmenni fá er skipulagt íþróttastarf. Margar rannsóknir styðja við þessa fullyrðingu og ég held við getum flest fallist á hana. Meðfylgjandi mynd sem er unnin úr rannsókn sem Rannsóknir og greining unnu sýnir þetta svo ekki verður um villst (Rannsóknir & greining: Ungt fólk 2016).
 
Til að við sem samfélag getum fullnýtt okkur þessa staðreynd þá þurfum við að búa svo um hnútana hvar sem því verður við komið að sem flestir getið fundið eitthvað við sitt hæfi. Börn og ungmenni þurfa að finna sína grein, og aðstæður til að iðka íþróttir þurfa að vera ásættanlegar. Einnig þarf að bjóða uppá æfingatíma sem fellur að dagskrá barna og aðgengi þarf að vera eins og best verður á kosið.
 
Við á D-lista Sjálfstæðisflokks og óháðra í Garði og Sandgerði gerum okkur grein fyrir þessu og viljum koma til móts við þessar mikilvægu þarfir. Ein af stóru lausnunum í þessu máli teljum við vera að koma á laggirnar fjölnota íþróttahúsi og eitt af okkar stóru stefnumálum er að koma slíku húsnæði í nýtt aðalskipulag í nýja sameinaða sveitafélaginu okkar. Undirbúningur verður svo hafinn að byggingu hússins á komandi kjörtímabili.
 
Þegar kemur að vali á slíku húsi er að mörgu að hyggja. Valkostirnir eru margir og útfærslurnar sem koma til greina mýmargar. Kostnaður við slík hús er mjög misjafn eftir því hvaða leið er valin og þvi þarf mjög að vanda til verks í þeirri vinnu og meta hvar þörfin liggur. Endanleg ákvörðun ræðst svo af þörfum íbúanna og fjárhagslegri getu sveitafélagsins. Þessa vinnu þarf að fara í strax í komandi kjörtímabili.
 
Notagildi fjölnota íþróttahúss er mikið og kemur það til með að nýtast mörgum íþróttagreinum og kynslóðum. Um leið opnast fyrir fleiri tíma í íþróttahúsunum sem nú eru til staðar til að stunda þær greinar sem eru best til þess fallnar að stunda í slíkum húsum. Þetta bætir aðstöðu fyrir knattspyrnuna, sem fær þá aðstöðu sem er fullkomlega samkeppnishæf við það sem best gerist og einnig fá aðrar greinar eins og t.d. körfubolti fleiri og betri æfingatíma. Í fjölnota íþróttahúsi opnast líka möguleikar á vetraraðstöðu fyrir golfara og flugukastveiðimenn svo dæmi séu tekin. Eins mun slíkt hús nýtast fyrir göngur og heilsueflingu eldri borgara eins og dæmin sýna frá nágrannsveitarfélögum okkar.
 
Af þessu leiðir að við hjá D-listanum lítum á það sem eitt af stóru verkefnunum í nýju sveitarfélagi að koma byggingu á fjölnota íþróttahúsi af stað til að bæta aðstöðuna og ýta undir fjölbreyttara framboð á íþróttagreinum. Einnig þarf að vinna markvisst að því að bæta aðgengið með auknum samgöngum milli byggðarkjarnanna og tengja þá saman með göngustígum. Þegar nýja húsnæðið verður komið í gagnið mun það svo auðvitað tengjast þessum samgönguleiðum þannig að börn og ungmenni ættu að komast á allar þær æfingar sem þau kjósa með skilvirkum hætti. Þetta ætti að auka líkurnar á fjölgun barna sem stunda skipulagðar íþróttaæfingar og hafa jákvæð forvarnaráhrif til heilla fyrir unga fólkið okkar og samfélagið í heild.
 
Jón Ragnar Ástþórsson
skipar 5. sæti á D-lista Sjálfstæðisflokks og óháðra í Garði og Sandgerði
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024