Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Förum af stað
Föstudagur 19. janúar 2024 kl. 06:03

Förum af stað

Starfshópi sem ætlað var það verkefni að skoða framboð á húsnæði fyrir Grindvíkinga til lengri tíma, sem skipaður var vegna afleiðinga náttúruhamfaranna í Grindavík, skilaði innviðaráðherra tillögum fyrir síðustu jól.

Niðurstaða hópsins var sú að nóg er til af lóðum til uppbyggingar á nýju húsnæði, verði ákveðið að fara þá leið. Fyrst og síðast var verið að horfa til uppbyggingar í sveitarfélögum á suðvesturhorni landsins; Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ, Vogum og Hafnarfirði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ný staða

Atburðir helgarinnar ættu að ýta við fólki og að farið verði á fullt í að nýta þá vinnu sem unnin var á síðasta ári. Hætt er við að margir þeir sem ætluðu sér heim, hugsi sig um eftir annað gos og auknar sprungur sem gera Grindavík að hættusvæði.

Við sem samfélag þurfum hins vegar að taka utan um þennan hóp og skapa einhverja valkosti fyrir þá sem þurfa, að minnsta kosti um sinn, að búa fjarri heimabyggð. Það gæti, miðað við núverandi stöðu, varað í einhver ár.

Húsnæði eftir ár

Ef farin væri sú leið að flytja inn einingahús þá gæti slíkt húsnæði verið tilbúið eftir u.þ.b. eitt ár. Miðað við þann fjölda lóða sem til staðar er þá ætti slíkt að vera mögulegt. Ríkið sjálft er stór landeigandi m.a. í Reykjanesbæ og því ættu að vera hæg heimatökin að skaffa land undir húsnæði. Komi til þess að Grindvíkingar þurfi ekki á slíku húsnæði að halda til lengri tíma verður auðvelt að koma því í notkun til framtíðar, slíkur er húsnæðisskorturinn í landinu.

Það er ekki eftir neinu að bíða.

Guðbrandur Einarsson,
þingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi.