Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Forsendur gjörbreyttar fyrir rekstri hjúkrunarheimila
Föstudagur 19. júlí 2013 kl. 11:15

Forsendur gjörbreyttar fyrir rekstri hjúkrunarheimila

- Gagnrýni á bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ svarað

Í Víkurfréttum og Morgunblaðinu í gær og aðsendum greinum, ma. frá Brynju Kristjánsdóttur, bæjarfulltrúa í Garði hefur verið fjallað um ákvörðun stjórnar DS um að hætta rekstri á Garðvangi þegar nýtt hjúkrunarheimili að Nesvöllum tekur til starfa. Hafa stór orð verið látin falla í þeirri umfjöllun þar sem bæjarfulltrúar í Reykjanesbæ hafa verið sakaðir um að svíkja samkomulag um uppbyggingu Garðvangs.  Mikilvægt er að greina aðeins frá forsendum þessarar ákvörðunar.

Samkomulag frá árinu 2004

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eins og bæjarfulltrúar í Garði hafa bent á var á árinu 2004 sett sú stefna að byggja nýtt hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ og í framhaldi af því yrði farið í endurbætur á Garðvangi. Á árinu 2010 setti ríkisvaldið nýjar reglur um aðbúnað og aðstöðu hjúkrunarheimila á Íslandi þar sem gert var ráð fyrir u.þ.b. 38 fermetrum í sérbýli fyrir hvern vistmann, salernisaðstöðu í hverju herbergi, lyftubrautum til flutnings á sjúklingum í hverju herbergi og svo mætti áfram telja. Við setningu þessara reglna var ljóst að Garðvangur myndi aldrei uppfylla þessar kröfur nema með algjörri endurbyggingu sem kosta myndu sveitarfélögin mörg hundruð milljónir króna. Rétt er að benda á að málefni eldri borgara er á verksviði ríkisvaldsins en ekki sveitarfélaganna. Garðvangur er hins vegar í eigu sveitarfélaganna svo að endurbygging þar yrðu á kostnað bæjarbúa á Suðurnesjum til þess að bæta þjónustu sem ríkið á að veita. Af öllum kostnaðarauka greiðir Reykjanesbær ríflega 75% en Garður, Sandgerði og Vogar tæplega 25%.  Reglur ríkisins á árinu 2010 gjörbreyttu öllum forsendum fyrir rekstri hjúkrunarheimilisins á Garðvangi og leiddu til þess að bæjarfulltrúar í Reykjanesbæ mótuðu nýja stefnu um framtíðaruppbygginu í málefnum eldri borgara. Það er hart að vera vændur um svik þegar forsendur hafa gjörbreyst og eldri ákvarðanir kolfalla á grundvelli nýrra forsenda. Ný stefnumörkun hefur ekki fallið Garðmönnum í geð en breytir ekki því grundvallarsjónarmiði Reykjanesbæjar að velja bestu mögulegu niðurstöðu í þjónustu fyrir eldri borgara, til framtíðar.

Skýrsla landlæknis

Á árinu 2011 gaf landlæknisembættið út skýrslu um aðbúnað á Garðvangi og Hlévangi. Niðurstaða skýrslunnar var m.a. sú að Garðvangur uppfyllti engan vegin þær kröfur sem gerðar eru til hjúkrunarheimila í dag. Þrátt fyrir að sveitarfélögin færu í stórkostlegar endurbætur á húsnæði Garðvangs mun húsnæðið aðeins verða skárra en það er í dag en aldrei uppfylla þau skilyrði og þær kröfur sem gerðar eru af hálfu ríkisins til hjúkrunarheimila. Mörg hunduð milljóna króna framkvæmd, á kostnað sveitarfélaganna, þar sem Reykjanesbær þarf að greiða um 75% kostnaðar, yrði því aðeins til bæta núverandi aðstöðu nokkuð en yrði ekki til þess að standa undir kröfum og reglum um aðbúnað eins og þær eru í dag.  Að slíkri ákvörðun geta bæjarfulltrúar í Reykjanesbæ einfaldlega ekki staðið.

Vegna þeirra orða Brynju Kristjánsdóttur, að ekkert óvænt hafi verið í skýrslu landlæknisembættisins er mikilvægt að fram komi að skýrslan kom bæjarfulltrúum Reykjanesbæjar í opna skjöldu og upplýsti að fara þyrfti í miklu meiri framkvæmdir til þess að bæta aðstöðu á Garðvangi en áður hafði verið reiknað með. Það er því einfaldlega rangt þegar sagt er að skýrslan hafi ekki komið neinum á óvart.

Hallarekstur mörg undanfarin ár

Hvernig sem reynt er að útskýra rekstrartap Garðvangs undanfarin ár er staðreyndin sú að sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa greitt, fyrir ríkið, um 15 milljónir á ári vegna rekstrartaps á Garðvangi. Á sama tíma hefur rekstur Hlévangs í Reykjanesbæ verið jákvæður á nánast hverju ári. Skýringu á því er ekki að finna vegna þess að íbúar á Garðvangi þurfi meiri umönnun en þeir sem dvelja á Hlévangi enda hefur svokölluð hjúkrunarþyngd milli heimilanna jafnast verulega á síðustu 2-3 árum.

Samkomulag bæjarstjóranna

Bæjarfulltrúar í Garði hafa vísað til samkomulags sem bæjarstjórarnir í aðildarsveitarfélögum DS náðu í mars á þessu ári þar sem gert var ráð fyrir fjölgun hjúkrunarrýma á Nesvöllum í 80 og 13-20 rými yrðu þá eftir á Garðvangi. Samþykki Reykjanesbæjar fyrir þessari leið var algjörlega háð því að nýtt hjúkrunarheimil að Nesvöllum yrði stækkað í 80 rými. Var slíkur fyrirvari sérstaklega bókaður inn í samþykkt bæjarráðs Reykjanesbæjar þann 14.mars s.l. Þegar Velferðarráðuneytið hafnaði stækkun Nesvalla í 80 rými í byrjun maí s.l. féll samkomulagið eðlilega niður. Það er útilokað að vísa til hluta samkomulags þegar aðrir þættir, sem jafnframt voru forsenda þess, gengu ekki eftir.

Hvernig sátt ?

Bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar settu fram sjónarmið sín á aðalfundi SSS í september 2012 þar sem lagt var til að Garðvangi yrði lokað en rekstur yrði áfram á Hlévangi. Ákvörðunin er því ekki ný tilkomin og á  ekki að koma neinum bæjarfulltrúa á Suðurnesjum í opna skjöldu. Síðan þá hefur ýmislegt verið reynt í þeim tilgangi að ná fram sátt milli sveitarfélaganna á Suðurnesjum um málaflokkinn. Því miður hefur það ekki tekist. Sjónarmiðin hafa verið svo ólík að útilokað hefur verið að ná einróma niðurstöðu. Þess vegna þurfti að greiða atkvæði um hvaða leið skyldi fara. Til glöggvunar er rétt að benda á að rúmlega 80% eignaraðila DS samþykkja þá leið sem nú hefur verið samþykkt en innan við 20% voru á móti.

Ósvífni í garð hverra ?

Í umfjöllun um málið síðustu daga hefur margt verið sagt og hafa bæjarfulltrúar í Reykjanesbæ verið sakaðir um ósvífni og svik. Ef ákveðið hefði verið að hundsa athugasemdir landlæknisembættisins um aðbúnað á Garðvangi, leggja í hundruðir milljóna framkvæmdir á kostnað íbúa Suðurnesja vegna málaflokks sem er á verksviði ríkisins og stuðla að áframhaldandi taprekstri heimilis sem kostar íbúa Suðurnesja a.m.k. 15 milljónir á ári, hefði eflaust verið hægt að komast hjá því að fá slíkar pillur frá bæjarfulltrúum nágrannasveitarfélaganna. En þar með hefði vilji bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ og Vogum ekki náð fram að ganga. Væri slík niðurstaða ekki um leið ósvífni gagnvart vilja þeirra sem eiga og greiða meira en 80% af öllum umframkostnaði heimilisins ?

Böðvar Jónsson
Forseti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ og formaður stjórnar DS