Forgangsröðun í þágu barnanna
– Jóhann Snorri Sigurbergsson skrifar
Sem foreldri tveggja ungra drengja velti ég mikið fyrir mér hvernig þeirra staða í samfélaginu er, Þeir eru 5 og 8 ára annar í leikskóla og hinn í þriðja bekk grunnskóla. Ég hef heilt yfir verið mjög ánægður með það starf sem er unnið í bæði skólum og leikskólum bæjarins þó ég þekki best skóla drengjanna. En á báðum stöðum er mjög faglega staðið að öllu og þeir virðast una sér vel.
Þeir æfa báðir íþróttir, sá eldri lætur fótboltann í 6. flokki duga en sá yngri æfir fótbolta með 7. flokki, sund og fimleika og er samt aldrei þreyttur! Ég hef mikinn áhuga á veru þeirra þar og reyni að fylgjast með sem flestum æfingum hjá þeim og er mjög ánægður með það starf sem er unnið þar líka.
Kostnaður við að hafa börn í íþróttum
Það sem veldur mér áhyggjum er kostnaðurinn sem liggur að baki því að æfa íþróttir fyrir svona ung börn. Það má ekki vera þungur fjárhagslegur baggi á foreldra að börnin stundi íþróttir. Við eigum að hvetja til þess að börn finni sér áhugamál og verði virk utan skólatíma. Í dag er kerfið þannig að foreldrar borga árgjald fyrir börnin í hverja íþróttagrein fyrir sig. Það þýðir að kostnaður á barn sem æfir 3 íþróttir getur verið hátt í tvö hundruð þúsund krónur á ári, 15-20 þúsund krónur á mánuði fyrir foreldra. Ég veit með yngri drenginn minn að hann mun líklega velja sér eina eða allavega ekki fleiri en tvær íþróttagreinar þegar hann eldist en ég vil að hann kynnist eins mörgum greinum og kostur er og finni sjálfur hvar honum líður best. Hann er heppinn að eiga tvo foreldra sem er á vinnumarkaðinum en það hlýtur að koma að þolmörkum hjá öllum.
Við þurfum að breyta þessu kerfi
Væri ekki ráð að velta því upp hvort ekki sé rétt að taka upp eitt mun lægra árgjald fyrir yngstu árgangana. Hvort það væri, í það minnsta 1. og 2. Bekkur, eða 1. til 4. bekkur sem þá samsvarar frístundaskólanum? Leyfa þannig börnunum að njóta sín og finna hvar þeim líður best? Ég hef átt viðræður við forsvarsmenn íþrótta- og tómstundaráðs um þetta og veit að þar er góð vinna í gangi við að skoða þetta en það þarf líka pólitískan stuðning við þetta. Það þarf að passa að félögin beri ekki skarðan hlut frá borði og hafi í það minnsta úr sömu fjármunum að spila og áður. Þetta þarf því að vinna í samvinnu við þau. Ég veit það einnig eftir samtöl mín við aðila þar að þau hafa verið að vinna í þessa átt líka. Það þarf að sameina kraftana og komast að niðurstöðu í sameiningu með stuðningi allra aðila og finna lausn á þessu þannig að fjárhagur foreldra hafi ekki stór áhrif á tækifæri barna til að finna sinn farveg í þessu. Sá kostnaður sem leggst á bæinn vegna þessa snýst um forgangsröðun. Forgangsröðin í þágu fjölskyldna í sveitarfélaginu. Ég ætla að berjast fyrir réttri forgangsröðun ef ég fæ til þess stuðning.
Jóhann Snorri Sigurbergsson
Höfundur býður sig fram í 5.-6. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins 1. mars næstkomandi.