Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Forgangsröðun er dauðans alvara.
Miðvikudagur 9. október 2013 kl. 07:35

Forgangsröðun er dauðans alvara.

Ásmundur Friðriksson skrifar.

Fjármálaráðherra hefur lagt fram fjárlög ársins 2014 og ráðherrar kynnt útgjöld sinna málaflokka í þinginu. Það þurfti hugrekki fjármálaráðherrans til að skila hallalausum fjárlögum, snúa af leið skattpíningar og skila eldri borgurum og öryrkjum til baka skerðingar liðinna ára og lækkun skatta á nauðsynjar barnafjölskyldna.  Skilaboð fjárlaganna eru skýr að þessu marki og lítilsháttar lækkun skatta  vísar þá leið sem lofað var að fara í kosningunum í vor. Stefnan er tekin og er klár fyrir fólkið og atvinnulífið. Fjárlögin fara nú til umræðu og  þingið verður að sýna hugrekki við að forgangsraða ef við viljum standa vörð um heilbrigðiskerfið, grunnþjónustuna og skila af okkur hallalausum fjárlögum.

Það verður ekki gert á annan hátt en að skera niður þá þjónustu, stofnanir og verkefni sem teljast ekki til grunnþjónustunnar og færa fjármagn til heilbrigðisþjónustunnar, menntunar, löggæslu og velferðar. Þrátt fyrir það þarf sú eðlilega krafa um hagræðingu, aukna þjónustu og framleiðni að vera hluti af rekstri allra stofnanna og þar liggja tækifæri þeirra.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fjöldi mikilvæga verkefna og stofnanna í samfélaginu sem komið hefur verið á fót oft með dugnaði og harðfylgi eða einföldum skilaboðum frá Brussel setja mark sitt á fjárlögin. Slík verkefni og stofnanir daga síðan upp í ríkisjötunni og stækka og bólgna út eins og púkinn á fjósbitanum. Eftirlitsiðnaður hvers konar virðist vera orðinn eyland í kerfinu og fyrirtæki og einstaklingar fá ekki rönd við reist þegar endalausum kröfum og kostnaði er velt á atvinnulífið. Ríkissjóður setur miljarða á ári í slíkar stofnanir. Ég er afar mikill unnandi hvers konar menningar og legg mig fram um þátttöku í menningarverkefnum og einstaka viðburðum en við verðum að skoða hvort við erum ekki komin lengra en við höfum efni á í bili. Ríkisútvarp, bygging fangelsis á Hólmsheiði þegar finna má hagkvæmari lausnir kosta miljarða á næsta ári úr ríkissjóði.
Á hinn bóginn er grunnþjónustan sem skorin hefur verið inn að beini og lengra verður ekki gengið í heilbrigðisþjónustu, löggæslu og velferð. Það er einsýnt að við verðum að forgangsraða  fyrir grunnþjónustuna.

Forgangsröðun er dauðans alvara og þannig verðum við að taka á málinu í þinginu. Hafa til þess þor að taka ákvörðun. Skapa viðundandi vinnuaðstöðu, fá tækjabúnað, húsnæði og mannafla til að bjóða upp á bestu þjónustu sem völ er á. Fá fagfólkið okkar á öllum sviðum heim. Við höfum gengið svo nærri heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni að flytja þarf sjúklinga til höfuðborgarinnar í auknu mæli með flugi eða sjúkrabílum. Vandinn er að hundruð miljóna vantar til að dekka flutningskostnaðinn sem sveitarfélög og sjúkrastofnanir sitja uppi með. Við erum komin að endalínu og málið dauðans alvara.

Sú skylda hvílir á mínum herðum að forgangsraða fyrir fólkið og grunnþjónustuna. Það er hvorki létt né sérstaklega ánægjulegt að standa í þeim sporum. En sú ábyrgð fylgir því að sitja á Alþingi að taka líka erfiðu og óvinsælu ákvarðanirnar. Ég er óhræddur við það.  Ég heyrði í þinginu á föstudag að best væri að hækka skattana á útgerðina og stækka fjárlagagatið. Gera alla ánægða. Það er svipað og gefa alkanum afréttara, það slær á þorstann en leysir ekki vandamálið. Horfumst í augu við vandamálið og tökum rétta ákvörðun fyrir heilbrigðisþjónustuna og velferðina. Það er dauðans alvara.


• Valið stendur um sterkan Landspítala eða sterkan eftirlitsiðnað. Ég er ekki í vafa.
• Valið stendur um heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni eða sterkt Ríkisútvarp. Ég er ekki í vafa.
• Valið stendur um styrk heilsugæslunnar eða fangelsi á Hólmsheiði. Ég er ekki í vafa.
• Valið stendur um heimahjúkrun og dvalarheimili eða Hörpuna. Ég er ekki í vafa.

Valið stendur um forvarnir og lýðheilsu, um uppbyggingu löggæslu, menntunar og velferðar eða afþreyingu og gæluverkefni sem við höfum ekki efni á. Það er dauðans alvara að taka þessar ákvarðanir, en hjá því verður ekki komist. Ég er ekki í vafa og klár að taka óvinsælar ákvarðanir til heilla fyrir land og þjóð. Til þess var ég kosinn.

Ásmundur Friðriksson alþingismaður