Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Föstudagur 20. apríl 2001 kl. 11:05

Foreldrar og aðstandendur

Í tilefni af því að samræmdu prófin eru að hefjast í skólum landsins mánudaginn 23. apríl n.k. langar mig til þess að vekja athygli foreldra á því hvað þarna er um að ræða stóran áfanga í lífi barnanna okkar.
Það sem vakti mig til umhugsunar um samræmdu prófin var samtal mitt við dóttur mína sem gengur vel í námi en samt er hún þegar farin að hafa áhyggjur af áðurnefndum prófum, sem hún þreytir þó ekki fyrr en árið 2003.
Börnin okkar þurfa sem aldrei fyrr á því að halda að við veitum þeim öflugan stuðning í undirbúningnum fyrir þessi próf, en þarna eru þau eftir 10 ára skólagöngu að þreyta próf sem skipta mjög miklu máli um þeirra framtíð.
Það er skelfileg staðreynd að aðeins 52% nemenda á landinu skuli hafa náð tilsettum árangri í stærðfræði á samræmdum prófum á síðasta ári. Nærri helmingur barnanna fékk falleinkunn eftir 10 ára námsundirbúning ef svo má segja.
Þessi stóri og erfiði áfangi hefur mikil áhrif á börnin okkar. Ég sannreyndi þetta með heimsókn til vina minna sem eiga börn sem eru að þreyta samræmdu prófin í næstu viku. Kvíði og aftur kvíði einkenndi þessi börn þrátt fyrir að þau séu og hafi verið góðir nemendur alla tíð. Það er því ljóst að börnin okkar eru undir miklu álagi og þurfa öflugan stuðning.
Þeir foreldrar sem lesa þessa grein spyrja eflaust, hvernig getum við veitt börnum okkar stuðning? Ég tel að það gerum við best með því að ræða við þau um prófin, veita þeim umhyggju og stuðning, hvetja þau og efla hjá þeim sjálfstraust. Sýna þeim þolinmæði og hlýju ef þau eru önug og stressuð, gefa þeim hollan mat og gæta vel að svefni og hvíld. Leggja okkur sem sagt fram um að skapa þeim eins góðar aðstæður til undirbúnings og mögulegt er.
Þá geta foreldrar ákveðið að halda upp á þessi tímamót í lífi barnanna sinna. Við þurfum þó að gæta okkar að halda ekki bara upp á árangur í einkunum. Við skulum ákveða að halda upp á þessi tímamót hvernig sem niðurstaðan úr prófunum verður. Ef illa hefur gengið þurfa börnin ekki síður á stuðningi okkar að halda. Með því viðurkennum við þau og samþykkjum.
Ég óska okkur góðs gengis við að styrkja og styðja börnin okkar.



Með vinsemd,
Ólafur Grétar Gunnarsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024