Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 6. janúar 2005 kl. 16:20

Foreldrakvöld í Kennaraháskóla Íslands

Símenntunarstofnun KHÍ, Heimili og skóli - landssamtök foreldra, Menntagátt og SAMFOK í Reykjavík hafa tekið höndum saman og haldið fræðslukvöld annan þriðjudag í mánuði fyrir foreldra.  Þar eru tekin fyrir ýmis mál sem snúa að uppeldi og menntun. Fagfólk heldur erindi og skapaðar eru aðstæður til umræðna meðal foreldra. Jafnframt er vakin athygli á hvert hægt er að leita eftir nánari upplýsingum eða aðstoð. Niðurstöður og framhaldsumræður eru í kjölfarið aðgengilegar á vef Menntagáttarinnar, foreldrar.menntagátt.is  Aðgangseyrir er kr. 1000 og þátttaka skráð á simennt.khi.is. Á s.l. hausti voru haldin þrjú Foreldrakvöld með þessu sniði. Í september um heimanám, í október um einelti og í nóvember um aga og uppeldi. Þeir foreldrar sem sótt hafa Foreldrakvöldin í KHÍ eru ánægðir með umgjörðina og telja nauðsynlegt að kynna þetta tilboð nánar fyrir foreldrum þannig að fleiri nýti sér þennan vettvang. Foreldrakvöldin eru öllum opin og eru haldin í KHÍ við Stakkahlíð (gengið inn frá Háteigsvegi). Þau hefjast kl. 20 og lýkur stundvíslega kl. 22.

Allt hefur áhrif einkum við sjálf
Næstkomandi þriðjudag 11. janúar kl. 20 mun Brynhildur Briem lektor í matvæla - og næringarfræði og forstöðumaður Kennsluréttindabrautar KHÍ fræða okkur um rannsókn sem hún hefur tekið þátt í á lífsstíl ungmenna og ræða um möguleika foreldra á að hafa áhrif á lífsstíl barna sinna. Jórlaug Heimisdóttir verkefnastjóri hjá Lýðheilsustöð mun kynna nýtt þróunarverkefni-  Allt hefur áhrif einkum við sjálf -  sem Lýðheilsustöð er að hefja í samvinnu við sveitarfélög  í landinu. Verkefnið hefur það markmið að bæta lífshætti barna og fjölskyldna þeirra með áherslu á hreyfingu og góða næringu. Sjá nánar á lydheilsustod.is

FORELDRAKVÖLDIN Í KHÍ
11. janúar  Lífstíll og heilbrigði ungmenna  - Hvernig get ég hjálpað barninu mínu að öðlast heilbrigðan lífsstíl?
8. febrúar  Skóli fyrir alla - Hvaða áhrif hefur það á skólaumhverfið?
8. mars     Góður bekkjarbragur - Hvernig geta foreldrar og umsjónarkennari stuðlað að góðum bekkjarbrag?
12. apríl     Jákvæð og neikvæð áhrif fjölmiðla,tölvuleikja og samskipta á netinu - Hagnýt atriði fyrir fjölskyldur að nota og leiðir til að umgangast fjölmiðla og netið.

Um áramót huga margir að breyttum lífsstíl og setja sér markmið til að bæta heilsu og líðan.
Heilsuefling er því kærkomið umræðuefni á fyrsta Foreldrakvöldinu í KHÍ. Rætt verður vítt og breytt um þá þætti sem hafa áhrif á heilsu fólks og verður sjónum beint bæði að andlegri og líkamlegri líðan.  Ýmsar nýlegar rannsóknir liggja fyrir og vert er að rýna í það sem betur má fara í daglegum venjum okkar og barna okkar. Skólarnir eru miðpunktur í tilveru barnanna og því upplagt að þar eins og á heimilunum sé athyglinni beint að bættri heilsu og lífsstíl. Samvinna heimilis og skóla er þungamiðja  uppeldisins og með góðu  samstarfi geta foreldrar og kennarar haft mikil áhrif á hvert einstakt barn, hvern bekk og þar með allan skólann í því verkefni að bæta lífsstíl og auka heilbrigði.

    Helga Margrét Guðmundsdóttir
    Verkefnastjóri hjá Heimili og skóla – landssamtökum foreldra

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024