Fólkið okkar
Frá því fyrsti steinninn var lagður að Reykjanesbrautinni fyrir rúmum 70 - 80 árum hefur verið barist ötullega fyrir öryggi þeirra sem um hana fara. En þegar umferðin var orðin 4-5.000 bifreiðar hvern sólarhring fóru málin að vandast því alvarleg slys verða tíðari með aukinni umferð. Endalaus alvarleg slys og banaslys eru lýsingar þeirra viðbragðsaðila sem muna hvernig var að sinna Reykjanesbrautinni fyrir tvöföldun þess kafla sem nú er þó lokið. Það er algjört grundvallaratriði þegar kemur að öryggismálum á svona fjölförnum vegi að aðskilja akstursstefnur.
Er hægt að setja verðmiða á mannslíf? Hvort sem um dauðaslys er að ræða eða örkumlun fyrir lífstíð? Er hægt að verðleggja missi ástvina, foreldra, systkina, barna eða maka? Þó að menn tali um að hvert mannslíf kosti samfélagið hundruð milljóna þá held ég að við getum aldrei reiknað allt áfallið við eitt banaslys.
Í gegnum tíðina hafa myndast hópar sem þrýst hafa á umferðaröryggi á þessum þjóðvegi allra landsmanna. Þar hafa margir komið að málum og lyft grettistaki við hvern áfangasigur. Allir landsmenn fara um þennan veg og ef Reykjanesbrautin lokar þá hefur það áhrif á þjóðina alla því flugvöllurinn er jú ein helsta efnahagsvél þjóðarinnar
Þegar slys verða á brautinni, sérstaklega á þessum ókláruðu köflum þar sem ekki er búið að aðskilja akstursstefnur, fæ ég alltaf högg. Fyrsta sem fer í gegnum hugann er hvort þar hafi einhver nákominn lent í árekstri? Við sem keyrum brautina reglulega erum í mesta áhættuhópnum. Oftar en ekki þegar slys verða er það fólk héðan af svæðinu sem lendir í þessum árekstrum. Fólk sem tengist okkur; ástvinir, frænkur, frændur, vinir, kunningjar, foreldrar okkar, börnin okkar. FÓLKIÐ OKKAR. Við verðum að standa vörð um það. Klárum tvöföldunina alla leið. Strax!
Guðbergur Reynisson