Fólk undirdjúpanna
Mér hafa alltaf þótt athyglisverðar bækur eftir rithöfundinn Jack London og bókina sem ég er nú að lesa, ,,Fólk undirdjúpanna” finnst mér bera höfuð og herðar yfir aðrar bækur af raunsæi og ádeilu á skaðsemi atvinnuleysis og fátæktar.
Bókin var gefin út á íslensku af Ísafoldarprentsmiðju h.f. árið 1965 og þýðandi hennar er Stefán Jónsson námsstjóri.
Í formála segir rithöfundurinn:
,,Þær staðreyndir sem frá verður sagt í þessari bók eru frá árinu 1902. Þá stakk ég mér niður í undirheima Lundúna með þeirri tilfinningu sem líktist áhuga landkönnuðar, eða uppfinningamanns. Ég vildi heldur læra og sannfærast af eigin sjón og reynslu, heldur en að kynnast málunum af frásögn þeirra sem ekki höfðu séð hlutina með eigin augum, eða þeirra sem lýstu því, sem aðrir höfðu séð og sagt.”
Jack London beitti þeirri aðferð til að ná sér í reynslu og þekkingu að hann klæddist fátæktarfötum og svipti sig öllum leiðum til að hafa aðgang að fjármunum sínum í viku eða svo, flutti sig um set í íbúð í öðru hverfi með öllum þægindum, skrifaði reynslu sína niður og síðan lá leiðin á gamla fátæktarhverfið á ný.
Glæsifötin viku fyrir fötum sem hæfðu betur umhverfinu og höfundur segir:
,,Að lokum valdi ég mér slitnar buxur, en úr góðu efni og notaðan jakka úr sæmilegu efni, en úr honum voru slitnar tölur, allar nema ein. Því næst valdi ég grófgerða skó sem virtust hafa verið notaðir síðast við kolavinnu, mjótt leðurbelti og óhreina húfu.”
Það er ótrúlega fjarri því sem maður getur ímyndað sér þegar hann lýsir hvernig ríka fólkið þurfti að hrökklast undan greiðslugetu smælingjanna sem yfirbauð auðsældarfólkið og borgaði það í burt úr fínu hverfunum.
,,En svo kom hrunið. Allt heiðarlegt fólk á borð við okkur flutti burtu, en vandræðafólk flutti inn. –Það var hræðilegt. Hún útskýrði síðan hvernig þetta gerðist, að húsin yfirfylltust af fólki. Húsaleigan hækkaði en fólkið smækkaði… - Hitt fólkið, aðfluttir auðnuleysingjar og lágstéttin af heimafólki, það getur látið sér nægja miklu minna húsnæði en við. Það gæti sætt sig við að fimm til sex fjölskyldur byggju saman í þessu húsi sem við búum í ein og leigjum aðeins einum manni.”
Einn samferðamaður Jack London í fátæktinni, tuttugu og tveggja ára sjómaður, lýsti fyrir honum hugmyndum sínum til lífsins sem voru hreint ekki glæsilegar.
,, Hann hafði aldrei þekkt neitt fjölskyldulíf. Orðið heimili vakti hjá honum óþægilegar kenndir… Frá fæðingu hafði allt og allir, sem hann umgekkst beitt öllu sínu afli og áhrifum til að gera hann harðlyndan og kærulausan og hann leit beint á sína aumkunarverðu framtíð ósnortinn og kærulaus um endalokin. En samt var hann ekki vondur maður… Þennan unga mann í guðsmynd sem var dæmdur til að falla í eymd og volæði innan fimm til tíu ára og hverfa af skeiðvelli lífsins án þess að skilja eftir erfingja (hann vildi ekki geta af sér börn til að lifa með sér í eymdinni) sem hefði getað erft hið besta og fegursta úr hugarfari og líkamsbyggingu þessa fagra dæmda ungmennis. Það mætti kannski líta á það sem einskonar helgidagsbrot að lifa slíku lífi en þó verð ég að viðurkenna það að hann gerði rétt í því að gifta sig ekki.”
Þó það liti ekki vel út það sem höfundurinn upplifði í þessari rannsóknarvinnu var þó vonarglætu að sjá og finna, inn á milli. Hann horfði á manninn með ljóta hóstann sem af einskærri góðvild keypti og gaf fátæku börnunum sælgæti sem þutu til hans. Jack London hugsaði til þess með hryllingi þegar hóstinn hefði breiðst út á meðal þeirra og rúm á spítala yrði eina vonarglætan fyrir þau framundan.
,,Á nokkrum stöðum voru heilar húsaraðir í hliðargötum þar sem íbúarnir voru iðnaðarmenn sem bjuggu við sæmileg kjör. Þarna ríkti venjulegt fjölskyldulíf. Á kvöldin sá maður húsbóndann sitja á tröppum hússins með reykjarpípuna í munninum og börn í fanginu, en konurnar litu inn hvor til annarrar og mösuðu og hlógu. Ánægja þessa fólks og lífsgleði var sýnileg og áberandi og í samanburði við kjör nágrannanna í næstu götum voru þessir vel settir. En þetta er í raun og veru sljóvguð, dýrsleg hamingja. Hamingja hins sadda manns. Undirstaða lífsins er efnishyggja. Þeir eru þunglamalegir og tregir og þekkja ekki hugarflug eða ímyndunarafl. Nágrennið við undirdjúpin virðist deyfa þá og gera þá sljóa og andrúmsloftið drepur þá að lokum. Trúarbrögðin eru rokin út í veður og vind. Framtíðin felur hvorki í sér ótta eða gleði. Þeir gera sér engar grillur um framtíðina. Þeir kýla vömb sína og njóta kvöldsins og drekka sína vínblöndu eða bjór. Þetta er þeirra tilvera og þá dreymir ekki um betri kjör og krefjast ekki betri kjara af samtíðinni. Þetta virðist nú fljótt athugað ekki svo afleitt ef þarna væri öll sagan sögð. En svo er ekki. Þessi sljóa sjálfsánægja sem þeir hafa unað sér við um langan tíma er hin hættulega lömun áhugamála sem fer á undan sjálfri upplausninni. – Þeir hafa engan áhuga á framförum og þeim fer ekkert fram en ef mönnum fer ekki fram þá fer þeim aftur og leið þeirra liggur aftur á bak í undirdjúpin.”
Einn af samferðarmönnum hans á ferð sinni í gegnum fátæktina heillaði hann.
,,Á leiðinni niður götuna sagði þessi ungi maður ýmislegt frá æfi sinni og lífsbaráttu. Hann sagði frá því er hann varð fyrir árásum götulýðsins bæði í skemmtigörðum og sporvögnum, þegar hann klifraði upp í ræðustólinn á fundum í fararbroddi æsingamanna eftir að félagar hans höfðu verið rifnir niður úr ræðustólnum og þeim misþyrmt. – Hann sagði frá er hann og félagar hans höfðu flúið inn í kirkju og varist þar þangað til að hópur lögreglumanna kom á vettvang og frelsaði þá úr höndum hins óða götuskríls. Hann sagði líka frá smáskærum úti við er rúður voru brotnar, húströppum hrint um koll, fundarsalir sprengdir upp, höfuðhögg gefin og bein brotin. – Svo leit hann á mig og andvarpaði mæðulega.
En hve ég öfunda ykkur þessa stóru, sterku karla. Ég er svoddan væskill að það munar ekkert um mig þegar farið er að slást. Og þegar ég gekk þarna á milli þessara nýju félaga minna og hafði bæði höfuð og herðar yfir þá varð mér hugsað til hinna grófu ruddalegu Ameríkumanna sem báru höfuð og herðar yfir mig og ég hafði jafnan öfundað af stærðinni. – Mér var líka hugsað til unga mannsins, væskilsins sem gekk við hliðina á mér. Hann var sú manntegund sem hlóð götuvígi og bauð fjöldanum byrginn. Hann var grannvaxinn og kraftalítill en með ljónshjarta.”
Kaflinn um hafnarverkamanninn Dan Cullen snerti mig óþyrmilega, hversu vel Jack London tekst að setja fram volæði þessa manns þannig að það verði allt að því áþreifanlegt.
,,Ég var í gærdag staddur í herbergi í einu af leiguhúsum Lundúnarborgar. Þetta var ekkert herbergi. Það var hrein móðgun við móðurmálið að nefna slíka vistarveru herbergi. Það var jafnrangt eins og að kalla lélega skúrbyggingu herragarð… Allt sem inni sást var varla fimm dollara virði. Maðurinn sem hafði búið í þessari holu, Dan Cullen, hafnarverkamaður lá helsjúkur á sjúkrahúsi: En samt sem áður hafði hann sett svip sinn á þessa fátæklegu vistarveru og skilið þar eftir svo mikið af sínum persónuleika að sá sem kom þar inn fékk allgóða hugmynd um hverskonar maður þetta hafði verið. Á veggjunum voru upplímdar, ódýrar blaðamyndir af Garibalda, Engels, Dan Burns og annarra leiðtoga verkamanna og á borðinu lá eitt eintak af skáldsögum Walter Besants. Mér var sagt að hann hefði kunnað mikið af Shakespeares-leikritum utanbókar. Hann hafði lesið sögu, félagsfræði og hagfræði. Ennfremur að hann hefði verið að mestu sjálfmenntaður.
Sagan um Dan Cullen er mjög stutt saga en þar má ýmislegt lesa á milli línanna. Hann var af lágum stigum, fæddur í borg í því landi þar sem stéttamörkin eru mjög glögg. Allt sitt líf hafði hann unnið erfiðisvinnu og lagt hart að sér, en af því að hann var greindur og bókhneigður og áhugamaður um mál verkalýðsins og gat skrifað rökstudd bréf engu að síður en málafærslumaður, völdu félagar hans hann til að vinna mikið með heila og huga. Hann var valinn formaður í árangurslausa verkalýðsfélaginu og fulltrúi hafnarverkamanna í sambandi verkalýðsfélaga í Lundúnum og hann skrifaði harðorðar greinar í blöð verkamanna… Í hinu mikla verkfalli hafnarverkamanna var hann talinn sekur um að vera upphafsmaður að verkfallinu og aðal maðurinn í baráttunni. Frá þeim degi var hann brennimerktur af vinnuveitendum og hvern einasta dag um næsta 10 ára skeið, var hann látinn borga fyrir það sem hann hafði gert.
Hafnarvinna er óregluleg vinna. Vinnan er stundum mikil og stundum lítil og verkamennirnir, hafnarverkamenn, rölta stundum um hafnarbakkann vinnulausir, en stundum fá þeir eftirvinnu. Dan Cullen komst þarna í einkennilega aðstöðu. Hann var ekki rekinn því að það hefði getað valdið erfiðleikum, en verkstjórarnir létu hann aldrei fá vinnu nema aðeins 2-3 daga í viku. Þetta kölluðu vinnuveitendur að kenna verkamönnum rétta lífshætti eða það sem sumir kölluðu að hressa þá upp.
Veslings Dan Cullen. –Óþekktur Gyðingur í heimsborginni sem leitaði fræðslu og þekkingar og vann líkamlegt erfiði á daginn, en las um nætur, sem dreymdi sína drauma og barðist hraustlega fyrir áhugamálum sínum, var föðurlandsvinur og unni frelsinu. Hann var hugprúður baráttumaður . En það sem mest valt á, - ekki nógu sterkur eða stór að sigra þær hindranir, sem á leið hans urðu eða brjóta þær niður. Hann var napur í huga og svartsýnismaður og dró sinn síðasta andardrátt í rúmi fátækra á sjúkrahúsi fátækra.
Að deyja þegar upplagið var hæft til afreka, án þess að ná neinu marki.
Það kalla ég sorgarsögu.”
Konráð K. Björgólfsson
Reykjanesbæ.
Bókin var gefin út á íslensku af Ísafoldarprentsmiðju h.f. árið 1965 og þýðandi hennar er Stefán Jónsson námsstjóri.
Í formála segir rithöfundurinn:
,,Þær staðreyndir sem frá verður sagt í þessari bók eru frá árinu 1902. Þá stakk ég mér niður í undirheima Lundúna með þeirri tilfinningu sem líktist áhuga landkönnuðar, eða uppfinningamanns. Ég vildi heldur læra og sannfærast af eigin sjón og reynslu, heldur en að kynnast málunum af frásögn þeirra sem ekki höfðu séð hlutina með eigin augum, eða þeirra sem lýstu því, sem aðrir höfðu séð og sagt.”
Jack London beitti þeirri aðferð til að ná sér í reynslu og þekkingu að hann klæddist fátæktarfötum og svipti sig öllum leiðum til að hafa aðgang að fjármunum sínum í viku eða svo, flutti sig um set í íbúð í öðru hverfi með öllum þægindum, skrifaði reynslu sína niður og síðan lá leiðin á gamla fátæktarhverfið á ný.
Glæsifötin viku fyrir fötum sem hæfðu betur umhverfinu og höfundur segir:
,,Að lokum valdi ég mér slitnar buxur, en úr góðu efni og notaðan jakka úr sæmilegu efni, en úr honum voru slitnar tölur, allar nema ein. Því næst valdi ég grófgerða skó sem virtust hafa verið notaðir síðast við kolavinnu, mjótt leðurbelti og óhreina húfu.”
Það er ótrúlega fjarri því sem maður getur ímyndað sér þegar hann lýsir hvernig ríka fólkið þurfti að hrökklast undan greiðslugetu smælingjanna sem yfirbauð auðsældarfólkið og borgaði það í burt úr fínu hverfunum.
,,En svo kom hrunið. Allt heiðarlegt fólk á borð við okkur flutti burtu, en vandræðafólk flutti inn. –Það var hræðilegt. Hún útskýrði síðan hvernig þetta gerðist, að húsin yfirfylltust af fólki. Húsaleigan hækkaði en fólkið smækkaði… - Hitt fólkið, aðfluttir auðnuleysingjar og lágstéttin af heimafólki, það getur látið sér nægja miklu minna húsnæði en við. Það gæti sætt sig við að fimm til sex fjölskyldur byggju saman í þessu húsi sem við búum í ein og leigjum aðeins einum manni.”
Einn samferðamaður Jack London í fátæktinni, tuttugu og tveggja ára sjómaður, lýsti fyrir honum hugmyndum sínum til lífsins sem voru hreint ekki glæsilegar.
,, Hann hafði aldrei þekkt neitt fjölskyldulíf. Orðið heimili vakti hjá honum óþægilegar kenndir… Frá fæðingu hafði allt og allir, sem hann umgekkst beitt öllu sínu afli og áhrifum til að gera hann harðlyndan og kærulausan og hann leit beint á sína aumkunarverðu framtíð ósnortinn og kærulaus um endalokin. En samt var hann ekki vondur maður… Þennan unga mann í guðsmynd sem var dæmdur til að falla í eymd og volæði innan fimm til tíu ára og hverfa af skeiðvelli lífsins án þess að skilja eftir erfingja (hann vildi ekki geta af sér börn til að lifa með sér í eymdinni) sem hefði getað erft hið besta og fegursta úr hugarfari og líkamsbyggingu þessa fagra dæmda ungmennis. Það mætti kannski líta á það sem einskonar helgidagsbrot að lifa slíku lífi en þó verð ég að viðurkenna það að hann gerði rétt í því að gifta sig ekki.”
Þó það liti ekki vel út það sem höfundurinn upplifði í þessari rannsóknarvinnu var þó vonarglætu að sjá og finna, inn á milli. Hann horfði á manninn með ljóta hóstann sem af einskærri góðvild keypti og gaf fátæku börnunum sælgæti sem þutu til hans. Jack London hugsaði til þess með hryllingi þegar hóstinn hefði breiðst út á meðal þeirra og rúm á spítala yrði eina vonarglætan fyrir þau framundan.
,,Á nokkrum stöðum voru heilar húsaraðir í hliðargötum þar sem íbúarnir voru iðnaðarmenn sem bjuggu við sæmileg kjör. Þarna ríkti venjulegt fjölskyldulíf. Á kvöldin sá maður húsbóndann sitja á tröppum hússins með reykjarpípuna í munninum og börn í fanginu, en konurnar litu inn hvor til annarrar og mösuðu og hlógu. Ánægja þessa fólks og lífsgleði var sýnileg og áberandi og í samanburði við kjör nágrannanna í næstu götum voru þessir vel settir. En þetta er í raun og veru sljóvguð, dýrsleg hamingja. Hamingja hins sadda manns. Undirstaða lífsins er efnishyggja. Þeir eru þunglamalegir og tregir og þekkja ekki hugarflug eða ímyndunarafl. Nágrennið við undirdjúpin virðist deyfa þá og gera þá sljóa og andrúmsloftið drepur þá að lokum. Trúarbrögðin eru rokin út í veður og vind. Framtíðin felur hvorki í sér ótta eða gleði. Þeir gera sér engar grillur um framtíðina. Þeir kýla vömb sína og njóta kvöldsins og drekka sína vínblöndu eða bjór. Þetta er þeirra tilvera og þá dreymir ekki um betri kjör og krefjast ekki betri kjara af samtíðinni. Þetta virðist nú fljótt athugað ekki svo afleitt ef þarna væri öll sagan sögð. En svo er ekki. Þessi sljóa sjálfsánægja sem þeir hafa unað sér við um langan tíma er hin hættulega lömun áhugamála sem fer á undan sjálfri upplausninni. – Þeir hafa engan áhuga á framförum og þeim fer ekkert fram en ef mönnum fer ekki fram þá fer þeim aftur og leið þeirra liggur aftur á bak í undirdjúpin.”
Einn af samferðarmönnum hans á ferð sinni í gegnum fátæktina heillaði hann.
,,Á leiðinni niður götuna sagði þessi ungi maður ýmislegt frá æfi sinni og lífsbaráttu. Hann sagði frá því er hann varð fyrir árásum götulýðsins bæði í skemmtigörðum og sporvögnum, þegar hann klifraði upp í ræðustólinn á fundum í fararbroddi æsingamanna eftir að félagar hans höfðu verið rifnir niður úr ræðustólnum og þeim misþyrmt. – Hann sagði frá er hann og félagar hans höfðu flúið inn í kirkju og varist þar þangað til að hópur lögreglumanna kom á vettvang og frelsaði þá úr höndum hins óða götuskríls. Hann sagði líka frá smáskærum úti við er rúður voru brotnar, húströppum hrint um koll, fundarsalir sprengdir upp, höfuðhögg gefin og bein brotin. – Svo leit hann á mig og andvarpaði mæðulega.
En hve ég öfunda ykkur þessa stóru, sterku karla. Ég er svoddan væskill að það munar ekkert um mig þegar farið er að slást. Og þegar ég gekk þarna á milli þessara nýju félaga minna og hafði bæði höfuð og herðar yfir þá varð mér hugsað til hinna grófu ruddalegu Ameríkumanna sem báru höfuð og herðar yfir mig og ég hafði jafnan öfundað af stærðinni. – Mér var líka hugsað til unga mannsins, væskilsins sem gekk við hliðina á mér. Hann var sú manntegund sem hlóð götuvígi og bauð fjöldanum byrginn. Hann var grannvaxinn og kraftalítill en með ljónshjarta.”
Kaflinn um hafnarverkamanninn Dan Cullen snerti mig óþyrmilega, hversu vel Jack London tekst að setja fram volæði þessa manns þannig að það verði allt að því áþreifanlegt.
,,Ég var í gærdag staddur í herbergi í einu af leiguhúsum Lundúnarborgar. Þetta var ekkert herbergi. Það var hrein móðgun við móðurmálið að nefna slíka vistarveru herbergi. Það var jafnrangt eins og að kalla lélega skúrbyggingu herragarð… Allt sem inni sást var varla fimm dollara virði. Maðurinn sem hafði búið í þessari holu, Dan Cullen, hafnarverkamaður lá helsjúkur á sjúkrahúsi: En samt sem áður hafði hann sett svip sinn á þessa fátæklegu vistarveru og skilið þar eftir svo mikið af sínum persónuleika að sá sem kom þar inn fékk allgóða hugmynd um hverskonar maður þetta hafði verið. Á veggjunum voru upplímdar, ódýrar blaðamyndir af Garibalda, Engels, Dan Burns og annarra leiðtoga verkamanna og á borðinu lá eitt eintak af skáldsögum Walter Besants. Mér var sagt að hann hefði kunnað mikið af Shakespeares-leikritum utanbókar. Hann hafði lesið sögu, félagsfræði og hagfræði. Ennfremur að hann hefði verið að mestu sjálfmenntaður.
Sagan um Dan Cullen er mjög stutt saga en þar má ýmislegt lesa á milli línanna. Hann var af lágum stigum, fæddur í borg í því landi þar sem stéttamörkin eru mjög glögg. Allt sitt líf hafði hann unnið erfiðisvinnu og lagt hart að sér, en af því að hann var greindur og bókhneigður og áhugamaður um mál verkalýðsins og gat skrifað rökstudd bréf engu að síður en málafærslumaður, völdu félagar hans hann til að vinna mikið með heila og huga. Hann var valinn formaður í árangurslausa verkalýðsfélaginu og fulltrúi hafnarverkamanna í sambandi verkalýðsfélaga í Lundúnum og hann skrifaði harðorðar greinar í blöð verkamanna… Í hinu mikla verkfalli hafnarverkamanna var hann talinn sekur um að vera upphafsmaður að verkfallinu og aðal maðurinn í baráttunni. Frá þeim degi var hann brennimerktur af vinnuveitendum og hvern einasta dag um næsta 10 ára skeið, var hann látinn borga fyrir það sem hann hafði gert.
Hafnarvinna er óregluleg vinna. Vinnan er stundum mikil og stundum lítil og verkamennirnir, hafnarverkamenn, rölta stundum um hafnarbakkann vinnulausir, en stundum fá þeir eftirvinnu. Dan Cullen komst þarna í einkennilega aðstöðu. Hann var ekki rekinn því að það hefði getað valdið erfiðleikum, en verkstjórarnir létu hann aldrei fá vinnu nema aðeins 2-3 daga í viku. Þetta kölluðu vinnuveitendur að kenna verkamönnum rétta lífshætti eða það sem sumir kölluðu að hressa þá upp.
Veslings Dan Cullen. –Óþekktur Gyðingur í heimsborginni sem leitaði fræðslu og þekkingar og vann líkamlegt erfiði á daginn, en las um nætur, sem dreymdi sína drauma og barðist hraustlega fyrir áhugamálum sínum, var föðurlandsvinur og unni frelsinu. Hann var hugprúður baráttumaður . En það sem mest valt á, - ekki nógu sterkur eða stór að sigra þær hindranir, sem á leið hans urðu eða brjóta þær niður. Hann var napur í huga og svartsýnismaður og dró sinn síðasta andardrátt í rúmi fátækra á sjúkrahúsi fátækra.
Að deyja þegar upplagið var hæft til afreka, án þess að ná neinu marki.
Það kalla ég sorgarsögu.”
Konráð K. Björgólfsson
Reykjanesbæ.