Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Flóðin í desember
Þriðjudagur 2. janúar 2007 kl. 12:17

Flóðin í desember

Í kjölfar þeirra miklu vatnavaxta og flóða sem urðu í desember vöknuðu hjá mér ýmsar spurningar. Spurningar um hverjum ber að tryggja öryggi íbúa, hverjir eiga að koma uplýsingum á framfæri og síðast en ekki síst hvernig eigi að lágmarka hættu á mannskaða og eignatjóni. Það er líka rétt að staldra við og og spyrja: Hvað getum við lært af þessum hamförum og hvernig má koma þeirri þekkingu áfram til komandi kynslóða?

Ölfusá og Hvítá hættulegastar

Á Suðurlandi varð flóðahætta hvað mest enda Ölfusá, Hvítá og tilheyrandi vatnasvæði hættulegasta flóðasvæði landsins. Í Ölfusá var flóðið nú næstum jafnstórt og það var árið 1968 og 1948.
Við Íslendingar byggjum reynslu okkar á náttúruhamförum oftar en ekki á munnmælasögum og minningu eldra fólks. Nú á tímum, þegar stjórnvöld og ýmsum stofnunum er ætlað ákveðið hlutverk við að tryggja öryggi landsmanna, er eðlilegt að spyrja sig hverjum er ætlað að fylgjast með vatnavöxtum, skrá og koma upplýsingum á framfæri við almenning og yfirvöld í þessu landi.
Ég leyfi mér að fullyrða að í náttúruhamförunum í desember hafi ekki nokkur stofnun eða yfirvald haft þeim skyldum að gegna. Almannavörnum er ætlað að bregðast við hættu hverju sinni og tel ég Almannavarnanefndir Árnessýslu hafa staðið sig frábærlega í flóðunum nú. Það var eina opinbera aðkoman sem almenningur sá. Sunnlenskir björgunarsveitarmenn stóðu sig líka vel að vanda.

Hver á að vakta og bregðast við?

Veðurstofan hefur skyldum að gegna varðandi áhættumat á snjó- og aurflóðum en vatnavextir vegna rigninga/snjóleysinga virðast ekki vera á þeirra borði. Vatnamælingar Orkustofnunar mæla vatnshæð á ýmsum stöðum en virðast ekki hafa upplýsingaskyldu vegna yfirvofandi hættu vegna vatnavaxta. Í grein Einars Sveinbjörnssonar í Morgunblaðinu þann 27. desember sl. fer hann yfir mikilvægi vöktunar og viðbragðsáætlana. Landsvirkjun vaktar, í eigin tilgangi, úrkomu á vatnasviði Þjórsár og Tungnár en allt aðra sögu er að segja af hættulegasta flóðasvæði landsins – Hvítá og Ölfusá. Þar er einungis einn mælir við Hvítá í Fremstaveri.
Það er með öllu óskiljanlegt að á 21. öldinni skulum við ekki vera lengra komin í gagnavinnslu og ætla það enn og aftur að miðla þekkingu um náttúruhamfarir í formi minninga og munnmæla.
Hvernig má það vera, með allar þessar ríkisstofnanir, að engin skuli hafa það hlutverk að fylgjast með, meta áhættu og koma þeim upplýsingum til almennings áður en ,,skaðinn er skeður”? Að ég tali nú ekki um samvinnu slíkra stofnana sín á milli. Stofnanir eins og Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun eiga að hafa þekkingu til að meta öryggi landssvæða og þar með skapa íbúum þessa lands traustari byggð til framtíðar. Vatnamælingar Orkustofnunar, Veðurstofan, ÍSOR ofl. búa jafnframt yfir þekkingu og fróðleik sem nýtist til almannavarna í þessu landi.

Flækjumst ekki í frumskóginum – hrindum í framkvæmd

Það er brýnt að úr þessu verði bætt hið fyrsta. Að mínu mati má ábyrgð og yfirsýn svo mikilvægra mála ekki lenda milli stafs og hurðar. Hið opinbera verður nú þegar að taka á þessu máli svo augljóst megi vera hvaða aðili skuli vakta, bregðast við og miðla upplýsingum vegna þvílíkra náttúruhamfara eins og urðu hér fyrir jól.
Markmiðið er skýrt. Að auka öryggi landsmanna og gefa fólki möguleika á að bjarga sjálfum sér, fjölskyldu sinni, búpeningi og eignum. Það er hægt án mikils tilkostnaðar – því þarf strax að hrinda í framkvæmd.

Elsa Ingjaldsdóttir


Höfundur gefur kost á sér í 3. sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024