Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fleiri öfluga og málsmetandi talsmenn
Miðvikudagur 6. nóvember 2019 kl. 09:10

Fleiri öfluga og málsmetandi talsmenn

Einhvern veginn poppar oft upp í hugann, í tenglsum við kísilverið í Helguvík, hvort fulltrúarnir okkar úr Suðurkjördæmi, sem sitja á Alþingi, eru eitthvað að hugsa um afleiðingar útblásturs eiturefnanna ef verksmiðjan verður ræst að nýju.  Þeir voru í upphafi eins og við hin, auðtrúa á að menguninn sem kæmi frá verksmiðjunni væri minniháttar og gerðu sér ekki grein fyrir, frekar en sérfræðingar Umhverfisstofnunar, hversu sterk og áþreifanleg eituráhrifin frá jarðefnabrennslunni, sem fylgir kísilframleiðslunni eru.  Það sama á líklega við um samvisku þingmanna Norðaustur kjördæmis, vegna kísilversins á Bakka, en þessa dagana þurfa Húsvíkingar að bíta úr nálinni með þann gjörning.

Allt er eins og áður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í desember 2017 samþykkti Alþingi beiðni 12 þingmanna um að ríkisendurskoðandi ynni skýrslu um aðdraganda að útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðju Sameinaðs Sílikons hf. í Helguvík.  Í maí 2018 var skýrslan birt og niðurstaða hennar er vægast sagt áfellisdómur yfir þeim ríkisstofnunum sem höfðu aðkomu að málinu. Enginn þingmaður sýnist hafa rætt skýrslu Ríkisendurskoðunar á Alþingi, eftir að hún var birt (fann ekkert á vef Alþingis), eða virðist vilja kanna eða ræða það verklag opinberlega, sem nú er viðhaft við meðhöndlun umsóknar Stakksbergs um að hefja þennann rekstur aftur.  Það er erfitt að átta sig á hvaða tilgang þessi rannsókn hafði, ef lítið eða ekkert mark er tekið á gagnrýni í skýrslunni, um að bæta þurfi verklag og starfsreglur við veitingu starfsleyfa.  Engin breyting er sjáanleg frá fyrra verklagi. 

Allt er eins og áður, þrátt fyrir að nú eru komnar víðtækari heimildir í lögum, sbr. breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum fyrir Skipulagsstofnun og einnig fyrir Umhverfisstofnun með breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir með innleiðingu tilskipunar Evrópuþings/ráðs í íslenskan rétt. Í báðum tilfellum gefa lagabreytingarnar stofnununum mun haldbetri heimildir og verklagsreglur til að vinna eftir og þá sérstaklega vegna væntanlegra afleiðinga eiturmengunarinnar frá kísilvinnslunni.

Ákvörðun um matsáætlun fyrir frummatsskýrslu.

12. apríl 2019 lagði Skipulagsstofnun fram ákvörðun sína um matsáætlun fyrir endurbætur á kísilverksmiðjunni í Helguvík, vegna væntanlegrar  frummatsskýrslu um starfsemi kísilversins, sem leggja þarf fram áður en hefja má reksturinn.  Mörgum af þeim ávirðingum og ábendingum, sem koma fram hjá ríkisendurskoðanda er sleppt í ákvörðun skipulagsstofnunar um atriði, sem eðlilegt er að Stakksberg geri grein fyrir í frummatsskýrslu sinni og þeir hafa ekki orð um í endanlegri tillögu að matsáætlun.

Skoðum nokkur augljós dæmi í skýrslu ríkisendurskoðunar‚ sem ekki er minnst á í ákvörðun Skipulagsstofnunar.  Þó er vægi þeirra síst minna en t.d. ásýnd eða fráveita‚ sem er fjallað um og lögð áhersla á að gert sé grein fyrir í frummatsskýrslunni.

Eðli og magn mengunarefnanna óþekkt.

Alvarlegast er að engra svara er óskað‚ hvorki frá framkvæmdaraðila‚ né Umhverfisstofnun um hvaða eiturefni frá kísilverksmiðjunni urðu til þess að hún var stöðvuð.  Ef farið er eftir laganna hljóðan‚ á ekki að leyfa verksmiðjunni að hefja starfsemi‚ fyrr en vitað er hvaða eiturefni áttu í hlut. Nýr strompur breytir engu um eðli og magn óþekktu mengunarefnanna.  Ef hinsvegar verksmiðjan fær leyfi til að hefja framleiðslu aftur, án þessarar vitneskju, er ljóst að slakt verklag og óljósar starfsreglur ráða enn ríkjum hjá Skipulagsstofnun.  Annað frá umvöndun ríkisendurskoðanda, sem bendir til þess sama, er að ekkert er minnst á kröfur um menntun eða þekkingu rekstraraðila, né um þjálfun starfsfólks eða iðnaðarleyfi eins og lög kveða á um, en öll þessi atriði eru nefnd í skýrslu ríkisendurskoðanda um hið slælega verklag og skipulagsleysi sem viðhafðist við fyrstu afgreiðslu starfsleyfis kísilversins.

Þungur er þegjandi róður.

Við erum að tala um fjölmennasta bæjarfélag suðurkjördæmis.  Við erum að tala um eina alvarlegustu loftlagsvá samtímans.  Við erum að tala um magn kola og aðra jarðefnabrennslu, sem á sér enga hliðstæðu í íslenskri sögu.  Við erum að tala um stöðugan útblástur eiturefna út í andrúmsloft rúmlega 20 þúsunda manna samfélags.  Við erum að tala um gamlingja, veikburða einstaklinga og börnin okkar, sem verða verst úti vegna mengunarinnar frá jarðefnabrennslunni.  Við erum að tala um 5 manna samviskulausa stjórn í bankastofnun í Reykjavík, sem ætlar eins fljótt og auðið er að selja starfsleyfið til hæstbjóðanda og helst með góðum hagnaði.  Við erum að tala um bankastarfsmenn, lögfræðinga og verkfræðinga, sem hafa enga reynslu eða praktíska þekkingu á rekstri kísilvers. 

Um er að ræða tvö kísilver, sem eru búin að gefa okkur smjörþefinn af því sem vænta má.  Þetta í Helguvík‚ sem við viljum ekki að fái aftur starfsleyfi.  Hitt er á norðurlandi og við sjáum að berst við alveg sömu mengunar vandamál og voru í Helguvík.  Um er að ræða máttlaust og varnarlaust stjórnsýslu- og eftirlitskerfi, sem engann þrótt hefur til að standast þrýsting fjármála- og lögfræðingavaldsins í þessu máli.  Um er að ræða tæpan fjórðung kosningarbærra íbúa Reykjanesbæjar, sem bað um íbúakosningu‚ meirihluta bæjarfulltrúa og ef kosið væri um kísilverið, vísan meirihluta sem ekki vill að þessi mengandi stóriðja hefjist aftur í Helguvík. 

Við erum að tala um að samfélagið á Suðurnesjum þurfi fleiri öfluga og málsmetandi talsmenn til að leggjast á árar með íbúum Reykjanesbæjar.  Við erum að tala um alþingismennina, sem óskuðu eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar og biðjum þá að bera saman framvindu stjórnsýslunar á þessu nýja starfsleyfi.  Við erum að tala sérstaklega um fulltrúa Suðurkjördæmis á Alþingi, þau Pál, Sigurð Inga, Birgi, Ásmund, Ara Trausta, Oddnýju G., Silju Dögg, Karl Gauta, Vilhjálm og Smára, sem ekkert hefur heyrst frá í þessu máli.  Þungur er þegjandi róður.

Reykjanesbæ 21 okt. 2019

Tómas Láruson.