Fjölskyldumál í Reykjanesbæ
Öflug uppbygging í erfiðu atvinnuárferði
Fram á haustmánuði 2004 höfðu Reyknesingar þurft að horfast í augu við umtalsvert atvinnuleysi sl. 3 ár. Snörpum atlögum að störfum hjá Varnarliðinu og samdrætti í verktakaþjónustu og sjávarútvegi varð að svara með öflugri uppbyggingu á öðrum sviðum sem skapaði tímabundin störf. Um leið var búið í haginn fyrir Reykjanesbæ. Miklar framkvæmdir hafa verið í uppbyggingu innviða samfélags okkar á undanförnum árum. Uppbygging Iðnagarðanna í Helguvík, sjóvarnir með allri strandlengjunni, nýbygging grunnskóla, algjör endurnýjun Hafnargötunnar, endurbætur og stækkanir leikskóla, endurbætur íþróttamiðstöðvar í Njarðvík, gróðursetning og bættur frágangur í hverfum hafa m.a. einkennt framkvæmdir bæjarins.
Allt eru þetta fjölskyldumál, ekki aðeins vegna þess að þau skapa tekjur fyrir fjölskyldufólk heldur vegna þess að þau búa í haginn fyrir betri tíð í Reykjanesbæ. Þó vil ég sérstaklega nefna endurbætur og stækkanir leikskóla, öflugt átak í umferðaröryggismálum, byggingu nýs grunnskóla, fríar almenningssamgöngur, frístundaskóla fyrir 6-10 ára börn og styrkingu við íþróttastarf yngstu aldurshópanna. Nú er verið að leggja grunn að innanhússlaug fyrir skólasund tveggja grunnskóla, keppnislaug fyrir íþróttafólkið okkar og vatnagarði fyrir yngstu börnin, allt í einni snilldarlega samþættri byggingu við Sunnubraut.
Það hefur verið mikilvægt að standa að uppbyggingu á meðan verulega dró úr atvinnuverkefnum annars staðar. Þannig hafa framkvæmdir bæjarins undanfarin ár stuðlað að jafnara atvinnustigi og nú eru einkaaðilar að taka við sér. Það er að gerast svo um munar í Tjarnahverfi og víðar við lífæðina okkar eftir Njarðarbraut og Hafnargötu. Stækkun Flugstöðvarinnar, Íþróttaakademían og Reykjanesvirkjun eru dæmi um slíkt framtak.
Tækifæri til hagræðingar
Með öflugu átaki í verkefnum bæjarins, höfum við náð að ljúka ýmsum viðhaldsverkefnum sem löngu voru tímabær, s.s. við endurnýjun gatna, gangstíga og bætts umhverfis í nýjum sem eldri hverfum. Þess vegna er tækifæri nú í fjárhagsáætlun ársins 2005 að draga stórlega úr slíkum framkvæmdum og þar er lang stærsti kostnaðarliðurinn sem dregið er úr.
Þegar atvinnutækifærin eru fleiri eru einnig tækifæri til að ganga fastar fram í hagræðingu innra starfs Reykjanesbæjar. Það er skylda okkar að leita alltaf leiða til að gera hlutina hagkvæmar. Þegar launakostnaður er 70% af heildarkostnaði er ekki hjá því komist að hagræðing þýðir að störfum fækkar. Þannig höfum við hafið hagræðingaraðgerðir í stjórnkerfinu hvort sem er í félagsþjónustunni, á fræðslusviði, hjá menningar- íþrótta- og tómstundasviði og hjá fjármála og stjórnsýslusviði. Markmiðið er að vinna verkin hagkvæmar án þess að kjarni þjónustunnar skerðist.
Ákvörðun um niðurfellingu styrkja til foreldra yngstu barna
Hluti þess sem við erum að breyta og hagræða tengist fyrirkomulagi niðurgreiðslu til dagmæðra fyrir börn undir leikskólaaldri og afnámi niðurgreiðslna til hóps foreldra sem nutu þeirra áður. Þessi ákvörðun hefur vakið reiði og óánægju margra foreldra og verðandi foreldra. Þeim finnst þessi ákvörðun ekki vera í okkar anda sem höfum hag fjölskyldufólks að leiðarljósi. Bent er á að með öflugum stuðningi við fjölskyldufólk í leikskólum, grunnskóla, frístundaskóla, íþróttum og almenningsvagnaþjónustu, standi ákveðinn aldurshópur barna nánast útundan í stuðningi. Þetta er tímabil frá lokum fæðingarorlofs til uppphafs leikskólagöngu. Þessi ábending er rétt að mínu mati. Ég er þeirrar skoðunar að þar sem þessi aldurshópur þarf, aldursins vegna, á nánari þjónustu að halda en eftir 2 ára aldur, eigi hann að fá meiri stuðning ríkisins í gegnum auknar barnabætur. En á meðan svo er ekki, þykir okkur sjálfstæðismönnum í Reykjanesbæ eðlilegt að endurskoða ákvörðun okkar um breytingar á niðurgreiðslu til þessa aldurshóps. Ég viðurkenni að þessi ákvörðun okkar var ekki í anda þeirrar miklu uppbyggingar í þágu fjölskyldunnar sem við viljum standa fyrir og við viljum því leiðrétta hana. Við höfum ákveðið að verða við óskum foreldra og verðandi foreldra og halda áfram niðurgreiðslum með sama hætti og var fyrir áramót. Fyrirhuguð breyting gengur því ekki í gildi. Foreldrar með mjög skertar tekjur geta þó áfram leitað eftir stuðningi fjölskyldu- og félagsþjónustunnar.
Til að mæta þessari ákvörðun verður gengið fastar fram í hagræðingu á yfirstjórn bæjarins. Við munum hins vegar ganga eftir því að stuðningur við aldurshópinn undir 2 ára aldri fái sérstaka skoðun hjá þingi og ríkisstjórn.
Með kveðju,
Árni Sigfússon, bæjarstjóri
Fram á haustmánuði 2004 höfðu Reyknesingar þurft að horfast í augu við umtalsvert atvinnuleysi sl. 3 ár. Snörpum atlögum að störfum hjá Varnarliðinu og samdrætti í verktakaþjónustu og sjávarútvegi varð að svara með öflugri uppbyggingu á öðrum sviðum sem skapaði tímabundin störf. Um leið var búið í haginn fyrir Reykjanesbæ. Miklar framkvæmdir hafa verið í uppbyggingu innviða samfélags okkar á undanförnum árum. Uppbygging Iðnagarðanna í Helguvík, sjóvarnir með allri strandlengjunni, nýbygging grunnskóla, algjör endurnýjun Hafnargötunnar, endurbætur og stækkanir leikskóla, endurbætur íþróttamiðstöðvar í Njarðvík, gróðursetning og bættur frágangur í hverfum hafa m.a. einkennt framkvæmdir bæjarins.
Allt eru þetta fjölskyldumál, ekki aðeins vegna þess að þau skapa tekjur fyrir fjölskyldufólk heldur vegna þess að þau búa í haginn fyrir betri tíð í Reykjanesbæ. Þó vil ég sérstaklega nefna endurbætur og stækkanir leikskóla, öflugt átak í umferðaröryggismálum, byggingu nýs grunnskóla, fríar almenningssamgöngur, frístundaskóla fyrir 6-10 ára börn og styrkingu við íþróttastarf yngstu aldurshópanna. Nú er verið að leggja grunn að innanhússlaug fyrir skólasund tveggja grunnskóla, keppnislaug fyrir íþróttafólkið okkar og vatnagarði fyrir yngstu börnin, allt í einni snilldarlega samþættri byggingu við Sunnubraut.
Það hefur verið mikilvægt að standa að uppbyggingu á meðan verulega dró úr atvinnuverkefnum annars staðar. Þannig hafa framkvæmdir bæjarins undanfarin ár stuðlað að jafnara atvinnustigi og nú eru einkaaðilar að taka við sér. Það er að gerast svo um munar í Tjarnahverfi og víðar við lífæðina okkar eftir Njarðarbraut og Hafnargötu. Stækkun Flugstöðvarinnar, Íþróttaakademían og Reykjanesvirkjun eru dæmi um slíkt framtak.
Tækifæri til hagræðingar
Með öflugu átaki í verkefnum bæjarins, höfum við náð að ljúka ýmsum viðhaldsverkefnum sem löngu voru tímabær, s.s. við endurnýjun gatna, gangstíga og bætts umhverfis í nýjum sem eldri hverfum. Þess vegna er tækifæri nú í fjárhagsáætlun ársins 2005 að draga stórlega úr slíkum framkvæmdum og þar er lang stærsti kostnaðarliðurinn sem dregið er úr.
Þegar atvinnutækifærin eru fleiri eru einnig tækifæri til að ganga fastar fram í hagræðingu innra starfs Reykjanesbæjar. Það er skylda okkar að leita alltaf leiða til að gera hlutina hagkvæmar. Þegar launakostnaður er 70% af heildarkostnaði er ekki hjá því komist að hagræðing þýðir að störfum fækkar. Þannig höfum við hafið hagræðingaraðgerðir í stjórnkerfinu hvort sem er í félagsþjónustunni, á fræðslusviði, hjá menningar- íþrótta- og tómstundasviði og hjá fjármála og stjórnsýslusviði. Markmiðið er að vinna verkin hagkvæmar án þess að kjarni þjónustunnar skerðist.
Ákvörðun um niðurfellingu styrkja til foreldra yngstu barna
Hluti þess sem við erum að breyta og hagræða tengist fyrirkomulagi niðurgreiðslu til dagmæðra fyrir börn undir leikskólaaldri og afnámi niðurgreiðslna til hóps foreldra sem nutu þeirra áður. Þessi ákvörðun hefur vakið reiði og óánægju margra foreldra og verðandi foreldra. Þeim finnst þessi ákvörðun ekki vera í okkar anda sem höfum hag fjölskyldufólks að leiðarljósi. Bent er á að með öflugum stuðningi við fjölskyldufólk í leikskólum, grunnskóla, frístundaskóla, íþróttum og almenningsvagnaþjónustu, standi ákveðinn aldurshópur barna nánast útundan í stuðningi. Þetta er tímabil frá lokum fæðingarorlofs til uppphafs leikskólagöngu. Þessi ábending er rétt að mínu mati. Ég er þeirrar skoðunar að þar sem þessi aldurshópur þarf, aldursins vegna, á nánari þjónustu að halda en eftir 2 ára aldur, eigi hann að fá meiri stuðning ríkisins í gegnum auknar barnabætur. En á meðan svo er ekki, þykir okkur sjálfstæðismönnum í Reykjanesbæ eðlilegt að endurskoða ákvörðun okkar um breytingar á niðurgreiðslu til þessa aldurshóps. Ég viðurkenni að þessi ákvörðun okkar var ekki í anda þeirrar miklu uppbyggingar í þágu fjölskyldunnar sem við viljum standa fyrir og við viljum því leiðrétta hana. Við höfum ákveðið að verða við óskum foreldra og verðandi foreldra og halda áfram niðurgreiðslum með sama hætti og var fyrir áramót. Fyrirhuguð breyting gengur því ekki í gildi. Foreldrar með mjög skertar tekjur geta þó áfram leitað eftir stuðningi fjölskyldu- og félagsþjónustunnar.
Til að mæta þessari ákvörðun verður gengið fastar fram í hagræðingu á yfirstjórn bæjarins. Við munum hins vegar ganga eftir því að stuðningur við aldurshópinn undir 2 ára aldri fái sérstaka skoðun hjá þingi og ríkisstjórn.
Með kveðju,
Árni Sigfússon, bæjarstjóri