Fjölskyldan fyrst!
– Vinnum markvisst að því að gera Reykjanesbæ að fjölskylduvænu sveitarfélagi
Birgitta Rún Birgisdóttir,
skipar 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins.
Í stefnu Reykjanesbæjar kemur fram að sveitarfélagið skuli vera fjölskylduvænt. Raunar eru það fyrsta orðið í fyrstu setningu stefnunnar en fram kemur að Reykjanesbær sé fjölskylduvænn bær sem þroskar og nærir hæfileika allra í gegnum öflugt skóla-, íþrótta- og menningarstarf. Þetta er gott – enda á þetta markmið að vera fremst allra markmiða. En hvernig gengur bæjarstjórn og starfsmönnum sveitarfélagsins að ná þessu markmiði?
Sveitarfélög landsins eru jafn misjöfn og þau eru mörg. Allt frá fjölmennri sístækkandi borg niður í örlítil og einangruð sveitarfélög með nokkrum tugum íbúa. Verkefni sveitarfélaganna eru samt alltaf þau sömu, hvort sem þau eru lítil eða stór: rekstur skóla, viðhald og framkvæmdir við sameiginlegar eigur íbúa, félagsþjónusta og svo mætti lengi telja. Allt saman mikilvæg verkefni sem snerta okkur öll.
Ég er þeirrar skoðunar að sú grunnstoð sem allt annað hvílir á eigi að vera fjölskyldan sjálf og allt sem snertir mikilvægustu þætti hennar. Skólastarf, dagvistun og íþrótta- og tómstundastarf. En líka allt hitt sem snertir fjölskylduna: hversu aðgengilegt það er að koma börnum í og úr skóla og tómstundastarf og opnunartími frístundastarfs, svo eitthvað sé nefnt. Allt starf sveitarfélaga á að byggja á þeim mikilvæga grunni að fjölskyldan sé sett í forgang.
Það er að mínu mati ekki nóg að fjölskyldan sé sett í forgang í stefnu sveitarfélagsins, heldur þarf bæjarstjórn líka að sýna það í verki með ákvörðunum sínum.
Fjölskyldan fyrst er markmið mitt og D-listans um að allar ákvarðanir, öll mál, sem bæjarstjórn hefur til meðferðar, á öllum stigum, skulu metnar út frá hagsmunum fjölskyldunnar. Fjölskyldan fyrst snýst því um að flétta þessi sjónarmið inn í stefnumótun og ákvarðanatöku og greina áhrif allra meiriháttar ákvarðana á stöðu fjölskyldunnar. Hvaða áhrif hefur tiltekin ákvörðun á stöðu foreldra með mörg börn? Hvaða áhrif hefur ákvörðun á stöðu einstæðra fjölskyldna? Hvaða áhrif hefur ákvörðun á einstaklinga? Takmarkið er að ráðstafanir og ákvarðanir bæjarstjórnar styðji við stefnumarkmið Reykjanesbæjar um að bærinn okkar verði fjölskylduvænn. Ekki bara í stefnumarkmiðum.
Í næsta pistli nefni ég til sögunnar nokkur dæmi um verkefni og ákvarðanir sem þurfa að taka mið af hagsmunum fjölskyldna.