Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fjölmennum í prófkjör og styðjum Ragnheiði Elínu!
Ragnheiður Elín Árnadóttir.
Föstudagur 25. janúar 2013 kl. 22:00

Fjölmennum í prófkjör og styðjum Ragnheiði Elínu!

Um komandi helgi fer fram prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.  Þar er dugnaðarkonan Ragnheiður Elín Árnadóttir að sækjast eftir forystu.  Ég hef ákveðið að styðja Ragnheiði Elínu af nokkrum ástæðum og ætla ég að nefna tvær hér.

Endurreisnin og atvinnumál
Það skiptir okkur öll máli að hafa atvinnu. Hér á Suðurnesjum hefur verið gríðarlegt atvinnuleysi og þarf að vinna bót á því. Við þurfum aukna atvinnumöguleika hér á svæðið.  Ég horfi til álvers, kísilvers, heilsusjúkrahúss og margs fleira.  Hér í Suðurkjördæmi eru tækifærin til uppbyggingar.  Með minnkandi atvinnuleysi og auknum hagvexti komumst við út úr þessum efnahagslega vanda sem við nú glímum við. Við þurfum flotta framkvæmdamanneskju í forystu hér í kjördæminu og treysti ég engum betur en Ragnheiði Elínu til að leiða okkur til betri áttar í þeim efnum.  

Mennt er máttur
Á síðustu haustmánuðum kom upp alvarleg staða í Fjölbrautaskóla Suðurnesja.  FS var gert að skera gríðarlega niður samkvæmt fjárlögum sem bitna átti á starfsfólki og nemendum.  Fækka átti kennurum um 12-14 stöðugildi og nemendum um 200.  Skólameistari FS talaði fyrir daufum eyrum ráðuneytisins og flestum þingmanna hér í kjördæminu.   Ragnheiður Elín skynjaði ólguna og óttann sem greip um sig í samfélaginu og var sá þingmaður sem aflaði sér mestra upplýsinga um málið.  Hún vann gríðarlega gott starf sem varð til þess að FS fékk aukið framlag svo ekki varð af upphaflegum áformum.   Í því samfélagi sem við lifum í dag á menntun ekki að vera forréttindi heldur mannréttindi! Eftir því vinnur Ragnheiður Elín.

Bjartir tímar framundan
Hér í Suðurkjördæmi er allt til staðar.  Ef haldið verður rétt á spilunum og tækifæri nýtt, þá sjáum við fram á mjög bjarta tíma.  Aukum menntunarstigið í kjördæminu og aukum atvinnumöguleika, þá eru okkur allir vegir færir.   Fjölmennum á kjörstaði nk. laugardag og styðjum Ragnheiði Elínu til sigurs fyrir kjördæmið.

Ísak Ernir Kristinsson
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024