Fjölbreyttar leiðir að farsælum efri árum
Félagsstarf er einn af lykilþáttum samfélaga. Þar kemur fólk saman, mannleg samskipti eiga sér stað og athafnir geta verið skapandi eða andlega og líkamlega hvetjandi. Því er mikilvægt að sveitarfélög bjóði upp á gott úrval af félagsstarfi. Markvisst félagsstarf getur einnig dregið úr félagslegri einangrun og verið hvetjandi fyrir fólk til að vera þátttakendur í mótun og þróun samfélaga á hverjum tíma. Að vera félagslega virkur getur stuðlað að farsælum efri árum. Því er mikilvægt er að rækta áhugamál sitt, stunda heilbrigt líferni, rækta félagsleg tengsl og njóta lífsins.
Reykjanesbær var fyrst sveitarfélaga á landinu til að bjóða upp á markvissa fjölþætta heilsueflingu fyrir íbúa 65 ára og eldri. Markmið sveitarfélagsins var að skapa leið að farsælum efri árum með því að innleiða verkefni frá Janusi heilsueflingu. Verkefnið hefur verið starfrækt frá vormánuðum 2017. Frá þessu ári hafa árlega verið um 160 virkir þátttakendur í verkefninu. Verkefnið snýr að heilsueflingu eldri aldurshópa þar sem markmiðið er að draga úr ótímabærum öldrunareinkennum, bæta hreyfi- og afkastagetu með markvissri þjálfun og auka lífsgæði þrátt fyrir hækkandi aldur. Þátttakendur stunda styrktar- og þolþjálfun ásamt því að fá reglulega fræðslu um næringu og heilbrigðan lífsstíl. Í september verður tekinn inn nýr hópur þátttakenda á fyrsta af fjórum þrepum verkefnisins.
Fyrir þá sem vilja auka daglega hreyfingu þá er Reykjaneshöllin opin alla virka daga. Fjöldi fólks gengur þar á morgnana. Þar er hægt að fá sér kaffi og hitta aðra, ná góðu spjalli við félaga og vini og koma þannig til móts við líkamlegar og félagslegar þarfir. Í íþróttahúsinu við Sunnubraut eru stundaðar Boccia-æfingar tvisvar sinnum í viku. Þar er hópur sem stundað hefur þessa íþrótt, tekið þátt í mótum og gengið vel. Þangað eru allir eru velkomnir. Í Íþróttaakademíunni á efri hæðinni er hægt að stunda pútt eða innigolf á virkum dögum við frábærar aðstæður og í sundmiðstöðinni við Skólaveg er boðið upp á sundleikfimi tvisvar sinnum í viku eftir hádegið.
Á Nesvöllum er svo boðið upp á leikfimi en einnig margs konar félagsstarf eins og glerútskurð, föndur, félagsvist og fleira. Í Virkjun á Ásbrú er stundað fjölbreytt tómstundastarf. Þar er vinsæll prjónaklúbbur, listmálun, tréútskurður stundaður og einnig er hægt að spila billjard og margt fleira. Þangað eru allir velkomnir til þátttöku. Mjög fjölbreytt tómstundastarf er að finna í Reykjanesbæ. Íbúar eru því hvattir til að taka þátt, vera hluti af okkar einstaka samfélagi sem er í stöðugri þróun og mótun. Með markvissu félagsstarfi getum við eflt andlega, líkamlega og félagslega heilsu okkar. Verum því virk og „lifum lífinu lifandi“.
Með heilsukveðju,
Anna Sigríður Jóhannesdóttir,
heilsuþjálfari og verkefnastjóri
hjá Janusi heilsueflingu.