Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fjölbreytt atvinnulíf til framtíðar
Föstudagur 11. maí 2018 kl. 11:14

Fjölbreytt atvinnulíf til framtíðar

Mannauður er dýrmætasta auðlind hvers samfélags og það samfélag sem skapar aðlaðandi og samkeppnishæft umhverfi fyrir ungt og vel menntað fólk er góður búsetukostur til framtíðar. Það á að vera forgangsverkefni sveitarstjórnarmanna í Reykjanesbæ að skapa aðstæður fyrir fjölbreytt og öflugt atvinnulíf sem er forsenda velferðar og lífsgæða. Uppgangur ferðaþjónustunnar hefur haft jákvæð áhrif fyrir efnahag og atvinnulíf Reykjanesbæjar – sveitarfélag sem var í sárum eftir brotthvarf varnarliðsins og mátti þola þungan skell eftir efnahagshrunið. Auðugt samfélag getur hins vegar ekki verið háð einni tiltekinni atvinnugrein.
 
Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ hefur í stefnumótun sinni lagt fram metnaðarfull markmið í þeirri viðleitni að skapa fjölbreytt tækifæri fyrir öflugt atvinnulíf í Reykjanesbæ. Mikil tækifæri liggja í hugviti og tækniþróun enda munu tækniframfarir hafa mikil áhrif á atvinnulíf framtíðarinnar. Er sjávarútvegurinn og líftækniiðnaður gott dæmi þar sem tækniframfarir hafa leitt til þess að hráefni er nýtt til framleiðslu á dýrmætum afurðum. Vinna þarf áfram með markvissum hætti að öflugu starfsumhverfi fyrirtækja þar sem hvatt er til rannsókna og þróunar.
 
Hafnarsvæði Reykjaneshafnar hefur alla burði til þess að skapa aðstöðu fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi. Tækifærin sem felast í nálægð við alþjóðaflugvöll eru vannýtt og það er framtíðarsýn okkar að Helguvíkurhöfn verði miðstöð alþjóðlegrar flutningastarfsemi og tækifærin verði vel nýtt til framtíðaruppbyggingar á svæðinu.
 
Hvergi verður slakað á umhverfiskröfum hjá fyrirtækjum sem starfa í bænum eða hyggjast hefja starfsemi í bænum. Heilsa íbúa bæjarins verður alltaf í forgangi þegar ný tækifæri verða metin.  Atvinnurekstur, í hvaða formi sem er, getur ekki verið íþyngjandi fyrir íbúa. Við ætlum að tryggja að eftirlit sveitarstjórnar með leyfisskyldum framkvæmdum verði eflt í samræmi við ákvæði laga um mannvirki og ákvæði skipulagslaga ef við á.
 
Við Sjálfstæðismenn erum framsýnt fólk og lítum á framtíðina sem tækifæri til að gera betur og komast lengra. Við ætlum að vinna saman að uppbyggingu á fjölbreyttu og framsæknu atvinnulífi, Reykjanesbæ til framdráttar.  
 
Hanna Björg Konráðsdóttir,
skipar 6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024