Fjarvera nýja meirihlutans í Sveitarfélaginu Vogum
Nýr meirihluti bæjarstjórnar sveitarfélagsins Voga mætti ekki á fund SSS um síðustu helgi. Hluti hópsins hafði góða afsökun og margir ákváðu að breyta ekki fyriráætlunum sínum til að mæta á fundinn. En við höfum samt sem áður fengið margar spurningar.
* Hvers vegna mætti nýr meirihluti ekki?
* Er nýr meirihluti hræddur?
* Er nýr meirihluti móðgaður vegna þess að Suðurnesjamenn hafa gagnrýnt ákvörðun sveitarstjórnar um jarðstrenginn?
* Er nýr meirihluti rökþrota og hefur misst sannfæringu fyrir ákvörðuninni?
* Er nýr meirihluti að sýna samstarfi sveitarfélagana á Suðurnesjum lítilsvirðingu?
* Getur nýr meirihluti ekki varið ákvarðanir sínar fyrir félögum okkar á Suðurnesjum?
Frá því meirihluti bæjarstjórnar tók þá ákvörðun að hafna loftlínum í landi Voga hafa tugir manna hringt. Umræðan hefur verið mjög ómálefnaleg og snúist um hvort við ætlum að:
* Leggjast gegn atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum
* Bera ábyrgð á því að rafmagnslaust verði hluta ársins á Suðurnesjum.
* Ganga erinda ríkistjórnarinnar til að stöðva álver í Helguvík.
* Gefa félögum okkar og samstarfsmönnum kinnhest eða rýting í bakið.
* Sýna samstarfi á Suðurnesjum óvirðingu.
Það er skemmst frá því að segja að ekkert af þessu var í huga okkar. En það var í fyrsta skipti í morgun á fundi með fulltrúa frá Samtökum Atvinnurekenda á Suðurnesjum að ég fékk tækifæri til að ræða þessi mál við hagsmunaaðila án þess að svara fjölda ómálenalegra fullyrðinga. Rök okkar eru þessi:
* Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Voga hafnaði ekki rafmagnslínum um Sveitarfélagið. Landsnet getu lagt línur ef þær verða settar í streng. Við erum jafnframt tilbúin að gera allt sem í okkar valdi stendur til að flýta þeirri framkvæmd.
* Álverið í Helguvík mun ekki þurfa orku sem fer um umræddar línur fyrr en eftir eitt til tvö ár. Það eru aðrir hlutir sem tefja álverið s.s. skipulagsmál í kringum álverið, orkuöflun og orkusölusamningar.
* Atvinnuuppbygging á Suðurnesjum, þar með talið gagnaver þarf ekki orku frá línunum að svo stöddu.
* Þegar ákvörðun Sveitarfélagsins Voga var tekin hafði Landsnet haft tíma síðan 2008 til að semja við landeigendur, enn hafa þeir ekki lokið samningum.
* Sveitarstjórnarmenn í Sveitarfélaginu Vogum hafa unnið í mörg ár að því að efla samstarf Sveitarfélaga á Suðurnesjum. Ekkert hefur bent til þess að við sýnum slíku samstarfi óvirðingu.
Ályktun atvinnuþróunarfélags Suðurnesja gegn ákvörðum sveitarstjórnar Voga og umræða á aðalfundi SSS eru því miður ekki málefnalegar. Ég hef ítrekað sagt að ákvörðun sveitarstjórnar hefur ekkert með viðhorf okkar til álvera. Ef við notum tímann rétt þarf ákvörðunin ekki að tefja uppbyggingu álvers í Helguvík, né aðra atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum.
En aftur að umdeildri fjarveru fulltrúa meirihlutans. Ég get bara svarað fyrir sjálfa mig en mín ákvörðun var tekin að vel athuguðu máli, ekki af óvirðingu við samstarfið heldur af viðingu fyrir sjálfri mér. Ég vildi hvorki kynda undir ómálefnalegan áróður með nærveru minni eða leggja það á sjálfa mig að láta yfir mig ganga árásakennda umræðu. Ég tel ennþá að það hafi verið rétt ákvörðun.
Inga Sigrún Atladóttir